
Í kjölfar atburðar sem átti sér stað í Fellabæ í vikunni, og mikillar umræðu á samfélagsmiðlum undanfarna daga, hefur Múlaþing sent frá sér yfirlýsingu þar sem sveitarfélagið ítrekar að það sé bundið af lögum og reglum þegar kemur að úthlutun félagslegs húsnæðis. Málið snýr að dæmdum barnaníðingi sem hefur verið úthlutað íbúð í Fellabæ en á hann var ráðist á miðvikudag en Mannlíf sagði frá árásinni fyrst fjölmiðla.
„Sveitarfélög eru bundin því að framfylgja settum lögum og reglum, til dæmis við úthlutun íbúða í þeirra eigu, út frá þeim forsendum sem lögin tilgreina að heimilt sé að hafa til hliðsjónar, og einvörðungu þeim forsendum,“ segir í tilkynningunni.
Múlaþing undirstrikar að við búum í réttarríki þar sem einstaklingar sem hafa tekið út dóm eiga rétt á að snúa aftur til samfélagsins. „Mikilvægt er að hafa í huga að við búum í réttarríki þar sem fólk fær dóm og tekur hann út, að honum liðnum hefur sama fólk tilverurétt og þarf að geta aðlagast samfélaginu á ný,“ segir enn fremur.
Sveitarfélagið fordæmir með skýrum hætti árásina sem átti sér stað á tjaldsvæðinu í Fellabæ í vikunni þar sem ráðist var á barnaníðing sem þar dvaldi, og minnir á að einstaklingar séu ekki nafngreindir í ákveðnum dómum til að vernda fórnarlömb. Það sé því alvarlegt mál þegar nafn og myndir séu birtar á samfélagsmiðlum.
„Við skiljum uppnám og áhyggjur en málin verða hvorki leyst með ofbeldi né óvarkárri umræðu á samfélagsmiðlum,“ segir í yfirlýsingunni.
Múlaþing bendir jafnframt á mikilvægi fræðslu, samhygðar og opins samtals, bæði innan fjölskyldna og samfélagsins í heild. Sveitarfélagið vísar einnig til þess að septembermánuður sé tileinkaður vitundarvakningu um geðheilbrigði og hvetur fólk til að sýna aðgát í nærveru sálar.
Í tilkynningunni er að lokum bent á hvert hægt sé að leita eftir aðstoð, meðal annars til lögreglu, heilbrigðisþjónustu, Afliðs, Píeta-samtakanna, Bjarmahlíðar og hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Austurfrétt sagði frá því í morgun að Héraðsdómur Austurlands hafi hafnað beiðni lögreglunnar um gæsluvarðhald yfir manninum sem réðist á manninn en árásin er metin sem alvarleg af lögreglunni.
Komment