
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona, varar við veikri stöðu Íslands í breyttu alþjóðakerfi og segir hættulegast að „hlýða og þegja“ á tímum þar sem vald taki við af reglum í samskiptum ríkja.
Í Facebook-færslu sinni sem hún birti í hádeginu í dag, vísar hún til orða forsætisráðherra Kanada á Alþjóðaefnahagsþinginu í Davos, þar sem hann lýsti því yfir að alþjóðaskipulagið í þeirri mynd sem við þekkjum væri liðin tíð. Að mati Steinunnar eru þau orð ekki ýkt:
„Hann segir einfaldlega upphátt það sem margar minni þjóðir skynja: Heiminum er ekki lengur stjórnað með reglum, heldur er honum stjórnað og ógnað með þrýstingi og valdi.“
Hún bendir á að Kanada hyggist, í ljósi þessarar þróunar, efla eigið afl og leiða bandalag meðalstórra ríkja, en staða Íslands sé gjörólík:
„Ísland getur það ekki. Við höfum engan her, flytjum inn mest allt eldsneyti og mat og öryggi okkar byggir alfarið á náð og miskunn annarra.“
Að hennar mati sé mikilvægt að horfast í augu við raunveruleikann, jafnvel þótt umræðan sé erfið:
„Sjálfstæði Íslands nú er ekki raunhæfur kostur. En umræðan skiptir okkur máli.“
Steinunn Ólína varar sérstaklega við því að treysta á einn verndara eða eina leið fyrir lífsnauðsynlegar aðföng:
„Núna er hættulegast fyrir okkur að hlýða og þegja. Að þykjast vera fullveldi en búa við mjög viðkvæma stöðu í reynd.“ Bætir hún við: „Það er ekki fullveldi. Það er uppgjöf.“
Í færslunni leggur hún áherslu á að Ísland eigi enn val, þótt landfræðileg staða geri það að verkum að landið geti ekki staðið eitt:
„Við getum ekki reitt okkur á einn verndara. Við verðum að styrkja norrænt og evrópskt samstarf og hugsanlega leita hófanna víðar?“
Hún telur jafnframt að tryggja verði fjölbreyttar aðfangaleiðir og líta á grunninnviði sem öryggismál:
„Við verðum að líta á matvæli, eldsneyti, siglingar og neðansjávarkapla sem þjóðaröryggismál.“
Að lokum segir Steinunn Ólína að stærsta vopn smáríkja sé trúverðugleiki og virðing fyrir alþjóðalögum:
„Í heimi þar sem valdboð tekur við af reglum verða öruggustu smáríkin ekki þau sjálfstæðustu, heldur þau smáríki sem vinna svo náið og djúpt með öðrum þjóðum að enginn hafi efni á því, að láta smáríkið, Ísland, falla.“

Komment