
Ný rannsókn hefur leitt í ljós að unglingsárin geta staðið yfir allt til 32 ára aldurs, þar sem heilinn gengur í gegnum fjögur stór „vendipunktaskeið“ í þroska sínum, um það bil við 9, 32, 66 og 83 ára aldur.
Rannsóknin, sem birt var í gær í tímaritinu Nature Communications, skoðaði nær 4.000 heilaskannanir einstaklinga á aldrinum allt upp í 90 ár.
Vísindamenn kortlögðu þroska heilans með þessum gögnum og uppgötvuðu að manneskjan fer í gegnum fimm „heilaskeið“, og þar af, fjóra mikilvæga lífsvendipunkta þar sem við þroskumst, mótumst og hnignum.
Það sem skiptir mestu máli er að samkvæmt niðurstöðunum er það ekki fyrr en við 32 ára aldur sem persónuleiki og greind mannsins „nær stöðugu jafnvægi“ og festist eftir breytingar sem eiga sér stað á fyrri unglingsárum.
Hver eru hin fimm skeið?
Samkvæmt rannsókninni gengur heilaþroski og öldrun í gegnum fimm aðskilin skeið:
- Barnæska – frá fæðingu til 9 ára
- Unglingsár – frá 9 til 32 ára
- Fullorðinsár – frá 32 til 66 ára
- Snemmbúin öldrun – frá 66 til 83 ára
- Seinni öldrun – frá 83 ára og áfram
Hvenær skiptir heilinn á milli skeiða?
Þegar heilinn aðlagar sig að nýjum aðstæðum frá fæðingu til elli fundu vísindamenn að fjögur aldursár, 9, 32, 66 og 83, væru mest afgerandi í heilaþroskun.
Þessi umskipti einkennast m.a. af kynþroska, stöðugleika persónuleika, „endurskipulagningu“ og hnignun.
Skeiðin nánar:
Barnæska – fæðing til 9 ára
Á þessu tímabili vex taugagrámi og taugahvíta (grey matter og white matter) hratt.
Samkvæmt Johns Hopkins Medicine í Bandaríkjunum:
- Taugagrámi sér um að vinna úr og túlka upplýsingar.
- Taugahvíta sér um að flytja upplýsingar á milli svæða í taugakerfinu.
„Fyrstu árin einkennast af samþjöppun og útrýmingu taugamóta (synapses) og hröðum vexti í magni taugagráma og taugahvítu,“ segir í rannsókninni.
Tímabilið samræmist einnig upphafi kynþroska, sem byrjar vanalega við 8–13 ára aldur hjá stúlkum og 9–14 ára hjá drengjum, og markar miklar breytingar á hormónastarfsemi og taugakerfi.
Rannsóknin fann einnig aukna hættu á geðröskunum, hugrænum- og hegðunarvanda í upphafi unglingsára, vegna hormónabreytinga og „taugalíffræðilegrar breytinga“.
Unglingsár – 9 til 32 ára
Hingað til var talið að unglingsárin enduðu fyrir tvítugt, en rannsóknin sýnir að þau hefjast vissulega með kynþroska, en endalokin eru óljósari og ráðast m.a. af menningu og samfélagslegum þáttum.
„Í vestrænum löndum, þ.e. í Bretlandi og Bandaríkjunum, nær unglingsþroski heilans til um 32 ára aldurs,“ segja höfundar.
Rannsóknin bendir til þess að um 32 ára aldur verði mestar og mest afgerandi stefnubreytingar í heilaþroska, þegar taugahvítan eykst hvað hraðast og heilanet endurskipuleggjast.
Höfundar greindu þó ekki nákvæma ástæðu fyrir því af hverju þetta á sérstaklega við um vestræn lönd, né hvernig þetta þróast í öðrum heimshlutum.
Fullorðinsár – 32 til 66
Á þessu, lengsta tímabili ævinnar, hægir á þroska heilans og engir stærri vendipunktar eiga sér stað þar til komið er á sjötugsaldur.
„Þetta skeið einkenndist af stöðugu ástandi í heilaneti og samsvarar stöðugleika í greind og persónuleika,“ segir rannsóknin.
Snemmbúin öldrun – 66 til 83
Hér fer heilinn ekki í skyndilega hnignun, en tengingar milli svæða verða veikari og taugahvítan rýrnar.
Heilinn vinnur minna sem ein heild og meira sem aðskilin svæði.
Snemma á sjötugsaldri eykst einnig hætta á heilabilun og hækkuðum blóðþrýstingi, sem geta flýtt fyrir heilarýrnun.
Seinni öldrun – 83 ára og eldri
Þótt minna sé til af gögnum um þetta skeið (vegna fárra þátttakenda), sýna niðurstöður skýra hnignunartilhneigingu í heilatengslum.
„Þetta gæti endurspeglað raunverulega veikingu sambands milli aldurs og heilatopólógíu á háöldrunarárum,“ segja höfundar.
Af hverju skiptir þetta máli?
Stærsta nýja niðurstaðan sem fram kemur í rannsókninni snýr að því að unglingsár standa ekki bara til tvítugs, heldur geta teygt sig til 32 ára aldurs.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) nær unglingsaldur frá 10 til 19 ára. Árið 2018 sýndi grein í The Lancet að hann gæti staðið fram á þrítugsaldur.
Duncan Astle, prófessor í taugaupplýsingafræði við Cambridge-háskóla og einn höfunda rannsóknarinnar, sagði í viðtali við The Independent að nýja skýrslan hjálpi okkur að skilja betur veikleika heilans.
„Þegar við lítum til baka finnst mörgum líf sitt hafa skipst í mismunandi tímabil. Nú kemur á daginn að heilinn gerir það líka,“ bætti hann við.

Komment