
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur veitt samþykki fyrir nýju blóðprófi sem ætlað er að greina Alzheimer-sjúkdóminn. Með prófinu gæti verið hægt að hefja meðferð fyrr með lyfjum sem geta hægt á þróun sjúkdómsins.
Blóðprófið var þróað af japanska líftæknifyrirtækinu Fujirebio, sem einnig starfar í Bandaríkjunum. Það mælir hlutfall tveggja prótína í blóðinu sem tengjast svokölluðum amyloid-skellum í heilanum, sem eru eitt helsta einkenni Alzheimer-sjúkdómsins. Fram til þessa hafa þessi einkenni aðeins verið greind með heilaskönnum eða mælingum á mænuvökva.
Marty Makary, einn af yfirmönnum FDA, segir þetta skref vera mikilvægt og að hann sé vongóður um að bæði ný lyf og greiningaraðferðir, eins og þetta blóðpróf, geti gagnast sjúklingum vel.
Talið er að um 10% fólks yfir 65 ára aldri séu með Alzheimer í dag, og að sá fjöldi muni tvöfaldast fyrir árið 2050. Makary bendir á að sjúkdómurinn hafi áhrif á fleira fólk en brjósta- og blöðruhálskirtilskrabbamein samanlögð.
FDA hefur þegar samþykkt tvö Alzheimer-lyf, lecanemab og donanemab, sem beinast að amyloid-skellunum. Þau geta dregið aðeins úr vitrænni hnignun, þó þau lækni ekki sjúkdóminn. Samt telja margir sérfræðingar að þessi lyf geti skilað meiri árangri ef meðferð hefst fyrr. Þeir segja meðferðina jafnvel geta bætt nokkrum mánuðum af sjálfstæðu lífi við hjá sjúklingum.
Komment