
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, mun ekki bjóða sig aftur fram í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningum næsta vor en Akureyri.net greinir frá þessu.
Hilda hefur verið leiðtogi flokksins á Akureyri undanfarin átta ár en hún var í sumar ráðin sem samskiptastjóri Sjúkrahússins á Akureyri og ætlar að einbeita sér að þeirri vinnu.
Bæjarfulltrúinn er með B.Ed.-gráðu í almennum kennarafræðum og diplómu í fjölmiðla- og boðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Hún er einnig með MA-gráðu í blaða- og fréttamennsku og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún starfað sem fréttamaður fyrir RÚV og Stöð 2.
„Ég er mjög þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með ráðningu í starf samskiptastjóra Sjúkrahússins á Akureyri. Sjúkrahúsið er hornsteinn í heilbrigðisþjónustu í okkar landshluta og ég er sannfærð um að starfið verði bæði krefjandi og gefandi. Það er mér sannur heiður að fá að verða hluti af þeirri öflugu liðsheild sem þar starfar,“ sagði Hilda þegar var hún var ráðin til starfa.

Komment