
Félag atvinnurekenda hefur sent rektor Háskóla Íslands, Silju Báru Ómarsdóttur, erindi og farið fram á að rektor sjái til þess að HÍ uppfylli ákvæði samkeppnislaga og tilmæli stjórnvalda með því að rekstur Endurmenntunar HÍ verði bókhalds- og stjórnunarlega aðskilinn öðrum rekstri skólans.
Segir að Endurmenntun ástundi harða samkeppni við einkarekin fyrirtæki á sviði endur- og símenntunar, og að í erindi FA komi fram að vegna skorts á fjárhagslegum aðskilnaði hafi einkareknir keppinautar Endurmenntunar enga sönnun þess að reksturinn sé ekki í raun niðurgreiddur með fjárframlögum skattgreiðenda til HÍ.
Í erindi FA er vitnað til 14. greinar samkeppnislaga, sem „kveður á um að Samkeppniseftirlitið (SE) geti mælt“ fyrir um að samkeppnisrekstur opinberra stofnana sé aðgreindur frá öðrum rekstri. Hann sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem njóti einkaleyfis eða verndar og jafnframt er vitnað til bréfs SE til þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis árið 2021, en eftirlitið mæltist þá til þess við ráðuneytið að það færi þess á leit við opinberu háskólana að þeir birtu opinberlega upplýsingar um hvernig fjárhagslegum aðskilnaði er háttað á milli - annars vegar þess rekstrar sem rekinn er að hluta til eða öllu leyti af opinberu fé - og hins vegar þeirrar starfsemi sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila, sbr. áðurnefnda 14. grein samkeppnislaga:
„Að mati Samkeppniseftirlitsins er eðlilegt að fagráðuneyti málaflokksins geri kröfu um þetta í samhengi við fjárveitingar til viðkomandi skóla,“ segir í erindi SE og þar er því jafnframt lýst að einu viðbrögð HÍ hafi verið þau - eftir áralangan eftirrekstur FA - að birta eftirfarandi klausu á vef háskólans:
„Rekstur Endurmenntunar HÍ byggir eingöngu á eigin tekjum, þ.e. námskeiðsgjöldum. Endurmenntun HÍ nýtur engra opinberra fjárframlaga.“
„Að mati FA eru þetta allsendis ófullnægjandi viðbrögð af hálfu HÍ,“ segir í erindi FA og ennfremur að „Endurmenntun er rekin á sömu kennitölu og HÍ, engin grein er gerð fyrir rekstri hennar sérstaklega í ársreikningi HÍ og ekkert sérstakt rekstraryfirlit er birt. Þegar sagt er að Endurmenntun njóti engra opinberra fjárveitinga vantar alveg að gerð sé grein fyrir því í rekstraryfirliti, sem er aðgengilegt fyrir keppinauta Endurmenntunar, hvernig t.d. aðgangur hennar að húsnæði, yfirstjórn, markaðssetningu og vörumerki Háskóla Íslands er verðlagður. Einkarekin fræðslufyrirtæki, sem Endurmenntun keppir grimmt við, hafa þannig enga sönnun þess að reksturinn sé ekki í raun niðurgreiddur með fjárframlögum skattgreiðenda til HÍ.“
Þá segir einnig að umfang samkeppnisrekstrar sé langt umfram viðmið stjórnvalda og vill FA vekja athygli rektors á stefnu og leiðbeiningum fjármálaráðuneytins um fjárhags- og stjórnunarlegan aðskilnað samkeppnisrekstrar opinberra aðila.
Í stefnunni, er gefin var út árið 1997, segir:
„Ef tekjur stofnunar af samkeppnisrekstri eru hærri en 50 m.kr. eða markaðshlutdeild hans er meiri en 15% af skilgreindum markaði, skal eiga sér stað fjárhagslegur og stjórnunarlegur aðskilnaður milli samkeppnisrekstrarins og annarrar starfsemi stofnunarinnar.“
Sé 50 milljóna króna talan framreiknuð til dagsins í dag eru það um 180 milljónir króna.
Í ársreikningi HÍ árið 2013 var sagt frá því í skýringum að tekjur HÍ af endurmenntun það ár hefðu numið 470 milljónum, en engar slíkar upplýsingar hefðu verið birtar undanfarin ár. þannig að ekki liggur því fyrir hvert umfang rekstrarins sé og „FA dregur þó í efa að tekjurnar hafi dregist saman og að greinargóðar og sannreynanlegar upplýsingar muni verða birtar.
Rifjað er upp að engin svör bárust frá rektor eða öðrum frambjóðendum til rektorsembættisins þegar framkvæmdastjóri FA skrifaði þeim tvö opin bréf í febrúar og mars síðastliðnum, er rektorskjör stóð yfir, og óskaði eftir skýrri afstöðu þeirra til samkeppnishátta HÍ:
„FA leyfir sér engu að síður að trúa því ekki að óreyndu að rektor vilji hunza samkeppnislöggjöfina, tilmæli Samkeppniseftirlitsins og stefnu og leiðbeiningar stjórnvalda um fjárhagslegan og stjórnunarlegan aðskilnað samkeppnisrekstrar frá öðrum rekstri,“ segir í erindinu. Því fer „FA þess eindregið á leit við rektor að hún beiti sér fyrir því að greinargóðar og sannreynanlegar upplýsingar um rekstrar- og stjórnunarlegan aðskilnað Endurmenntunar HÍ frá annarri starfsemi skólans verði birtar opinberlega.“
Komment