1
Innlent

Páll segir Reykjavik Excursions vera „einokunarskítafyrirtæki“

2
Innlent

Hjúkrunarfræðingur dró blóð úr vandræðamanni

3
Landið

Selfyssingur sagður hafa stjórnað skipi skakkur

4
Innlent

23 sækjast eftir nýju embætti

5
Innlent

Tónleikagestir Rottweiler hluti af sektardegi ársins

6
Innlent

Sagður hafa klætt tíu ára barn úr buxunum

7
Innlent

Halla og ökklabrotið örlagaríka: „Kannski var almættið þarna að grípa í taumana?“

8
Innlent

Segir mistök ríkislögreglustjóra frekar vera ásetning

9
Heimur

Segir Vilhjálm hafa spilað lykilhlutverk í að svipta Andrési titlinum

10
Innlent

Lögreglan lýsir eftir fólki

Til baka

Halla og ökklabrotið örlagaríka: „Kannski var almættið þarna að grípa í taumana?“

Halla Tómasdóttir kom, sá og sigraði í síðustu forsetakosningum í fyrra, en hún hafði einnig boðið sig fram til embætti forseta Íslands, átta árum áður, en þá beið hún lægri hlut gegn Guðna Th Jóhannessyni. Líf hennar hefur verið fjölbreytt og áhugavert, en hver er Halla Tómasdóttir?

Halla Tómasdóttir forseti Íslands
Una hag sínum vel á BessastöðumHjónin glæsilegu Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason.
Mynd: Aldís Pálsdóttir / Skrifstofa forseta Íslands

Halla Tómasdóttir er sjöundi forseti Íslands, en hún tók við embættinu þann 1. ágúst árið 2024. Halla fæddist í Reykjavík þann 11. október árið 1968 - og hefur hún starfað sem rekstrarhagfræðingur, kennari, ráðgjafi og fyrirlesari á alþjóðavettvangi.

Hún útskrifaðist með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands árið 1986, en hún var einnig skiptinemi í Bandaríkjunum - lauk síðan stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Þaðan lá leið Höllu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og mannauðsmál frá Auburn University at Montgomery, og lauk hún BS-gráðu árið 1993, síðan var það MBA-gráða með áherslu á alþjóðleg samskipti og tungumál frá Thunderbird School of Global Management, árið 1995.

Um tíma stundaði Halla stundaði nám til doktorsgráðu við Cranfield University í Englandi, lagði stund á rannsóknir í leiðtogafræðum.

Forsetinn á ekki að vera pólitískur

Halla er ekki flokks­bundin og hefur aldrei starfað á vett­vangi stjórn­mála, hefur ekki íhugað að breyta því.

„Mér finnst stundum eins og stjórn­mála­menn þurfi að gefa of mikið eftir í sínum prinsipp­um. Ég hef aldrei keypt það að jafn stór mál eins og umhverf­is­vernd og jafn­rétt­is­mál falli í eitt­hvað vinstri/hægri. Þau eiga að spanna allan kvarð­ann,“ sagði hún í viðtali við Kjarnann 2016.

Henni finnst að for­set­i Íslands eigi ekki að vera póli­tískur, heldur eigi forseti að leiða þá mark­vissu vinnu sem til þarf svo þau gildi sem okkur langar að lifa eftir verði inn­leidd.

„Við höfum ekki farið í þessa mjúku og ósýni­legu vinnu sem er ótrú­lega mik­il­væg. Ég sé fyrir mér að for­seti leiði þá vinnu með því að vera fyr­ir­liði í virkjun sam­fé­lags­ins í þeirri lang­tíma­veg­ferð, umræðu og aðgerðum sem þarf til að gild­is­matið og sam­fé­lagið verði það sem Íslend­ingar vilja.“

Nám og störf

Að afloknu námi í Bandaríkjunum starfaði Halla við mannauðsmál og stjórnun, til dæmis hjá Pepsi og M&M/Mars, og í allt dvaldi Halla í um einn áratug í Bandaríkjunum.

Á Íslandi starfaði hún til dæmis sem mannauðsstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu í eitt ár, áður en hún hóf störf við Háskólann í Reykjavík - sem var þá nýstofnaður.

Í þeim skóla kom Halla að uppbyggingu, setti meðal annars á fót stjórnendaskóla og símenntun og kenndi við skólann þar sem umbreytingastjórnun og stofnun og rekstur fyrirtækja var tekin fyrir og greind ítarlega.

Fyrsta konan yfir Viðskiptaráði

Árið 2006 tók Halla við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Hún varð fyrsta konan á Íslandi til að gegna þessu starfi, en hún staldraði þar stutt við: Halla sagði upp störfum árið eftir í þeim tilgangi að stofna Auði Capital - og var markmiðið að koma með aðra og mannlegri nálgun inn í fjármálageirann. Fyrirtækið lifði af efnahagshrunið árið 2008, en í kjölfar þess tók Halla afar virkan þátt í umræðum sem og verkefnum er sneru að uppbyggingu Íslands.

Þjóðfundurinn árið 2009

Halla var einn af níu stofnendum Mauraþúfunnar er hrinti í framkvæmd Þjóðfundinn árið 2009 - þar sem slembiúrtak Íslendinga kom saman í Laugardalshöllinni í þeim tilgangi að ræða þau grunngildi sem og þá framtíðarsýn er myndi varða leið uppbyggingar í íslensku samfélagi í kjölfar efnahagshrunsins.

Fyrir tíu árum síðan skipulagði Halla alþjóðlegu jafnréttisráðstefnuna Inspirally WE2015 (Women Empowerment) í Hörpu, en þar komu stjórnmálamenn, leiðtogar í viðskiptalífinu, fræðimenn og fleiri saman og leituðu leiða til framfara þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Má nefna að Halla hefur meðal annars hlotið FKA-viðurkenninguna, jafnréttisviðurkenningu Kópavogs, og árið 2009 var hún - ásamt Kristínu Pétursdóttur - valin kvenfrumkvöðull Evrópu af Cartier, McKinsey og INSEAD, sem þykir afar mikill heiður.

Richard Branson spurði Höllu einnar spurningar

Árið 2018 varð Halla forstjóri félagasamtakanna The B Team og gegndi hún því starfi til ársins 2024. Þessi samtök voru stofnuð af alþjóð­legum hópi leið­toga fyr­ir­tækja er vilja beita sér fyrir ábyrgum viðskiptaháttum. Það feli í sér samstarf stjórnvalda, einkageirans og almennra borgara í að takast á við mjög stórar áskoranir, til dæmis loftslagsvána og ójöfnuð í samfélaginu.

Það var Richard Branson - stofnandi Virgin Group og Jochen Zeitz fyrrverandi forstjóra Puma - sem stofnuðu The B Team og hefur Halla sagt hlutverk samtakanna vera það að uppfæra viðmiðin og nálgunina sem höfð eru í viðskiptum og í efnahagslífinu.

Sumarið 2018 flutti Halla og fjölskylda aftur til Bandaríkjanna þar sem Halla hóf störf sem forstjóri The B Team.

„Ég fór í fjórtán atvinnuviðtöl áður en ég fékk þetta starf og þetta var án efa erfiðasta ráðningaferli sem ég hef farið í gegnum eða heyrt um.“

Síðasta viðtalið var við Richard Branson stofnanda Virgin. Hann spurði Höllu „þó bara einnar spurningar. Spurði einfaldlega:

„Hvað langar þig að gera?“

Hún segir spurninguna vera „ótrúlega merkilega, því þegar þú hlustar á það hvernig umsækjandi svarar þessari spurningu, þá þarftu kannski ekkert að vita mikið meira.“

Forsetaframboð árið 2016

Halla ákvað að bjóða sig fram til forseta Íslands árið 2016. Lagði hún mikla áherslu á innleiðingu þeirra gilda er þjóðin sameinaðist um á Þjóðfundinum árið 2009: Heiðarleika, jafnrétti, réttlæti og virðingu. Hún lagði einnig mikla áherslu á að Ísland héldi áfram að vera í fararbroddi í jafnréttismálum í heiminum og markmiðið var að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum öllum til að brúa kynjabilið.

Framan af forsetabaráttunni gekk ekki vel hjá Höllu og hafði Guðni Th Jóhannesson mikið forskot á hana og virtist ætla að vinna öruggan og afgerandi sigur í baráttunni um Bessastaði.

Þegar upp var staðið fékk Halla fékk næstflest atkvæði í forsetakosningunum og hafði sótt mikið í sig veðrið á miklum hraða á lokaspretti kosninganna, en Guðni Th hafði betur í afar spennandi kosningum og tók Halla tapinu með sóma og virðingu.

Í pistli sem Halla skrifaði á vefsíðuna sína haustið 2016 sagði hún meðal annars um forsetaframboðið:

„Þegar erfitt reyndist ná athygli fjölmiðla ráðlögðu ýmsir mér að breyta mér, að segja ekki þetta heldur hitt, að hjóla í þennan og hinn, og svo framvegis. Ég er þakklát ykkur sem stóðu mér næst og hvöttu mig ávallt til að vera ég sjálf. Við náðum að fara í gegnum allt ferðalagið með jákvæðni og gleði.“

Það var fyrir átta árum - Taka tvö

Átta árum eftir fyrsta framboðið - árið 2024 - tilkynnti Halla öðru sinni framboð sitt til embættis forseta Íslands. Í þetta sinn gekk allt upp og var Halla kjörin forseti með 73.182 atkvæðum - eða með 34,1% fylgi.

Í kosningabaráttunni lýsti Halla sig mótfallna þátttöku Íslands í kaupum á vopnum fyrir Úkraínu, sem hefur varist innrás Rússa í landið frá árinu 2022, og leiddi afstaða hennar til gagnrýni af hálfu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, sem þá var utanríkisráðherra, sem kallaði það hroka­fulla afstöðu að skilyrða stuðning við Úkraínu við að þeir keyptu ekki það sem þá helst vantaði.

Halla tók opinberlega við embætti forseta Íslands af Guðna Th Jóhannessyni þann 1. ágúst 2024 - en Guðni, sem bar sigurorð af Höllu árið 2016, hætti óvænt eftir að hafa verið afar vinsæll forseti í tvö kjörtímabil.

Halla er því sjöundi forseti Íslands og önnur konan er gegnir embættinu, en hin var Vigdís Finnbogadóttir sem var forseti Íslands frá árinu 1980 til ársins 1996.

Könnun sem kom illa út

Halla kom ekkert sérstaklega vel út úr könnun í september í fyrra, þar sem fram kom að 45% Íslendinga væru ánægð með störf Höllu sem forseta, er það lægsta hlutfall sitjandi forseta í könnun hingað til.

En það var aldeilis nóg að gera hjá Höllu stuttu eftir innsetninguna, hún fór í sína fyrstu opinberu heimsókn til Danmerkur í október 2024. Nokkra athygli vakti að Halla talaði ensku við Friðrik konung, sem og í ræðu sinni í Kristjánsborg í sömu heimsókn.

Það vita það þó flestir að Íslendingar eru ekkert sérlega áhugasamir almennt um dönsku og það eru fáir Danir sem tala okkar ástkæra ylhýra með skiljanlegum hætti og því kom gagnrýnin á Höllu varðandi enskuna ýmsum spánskt fyrir sjónir.

Þetta sama haust - í októbermánuði - gekk mikið á í stjórnmálalífinu hér á landi. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, VG og Framsóknar sprakk eftir að hafa setið á valdastóli í ein sjö ár. Þá hélt Halla sinn fyrsta ríkisráðsfund á Bessastöðum þar sem hún fundaði með leiðtogum fráfarandi ríkisstjórnarflokka fyrir utan VG.

Þótti hún standa sig með miklum sóma í stjórnarslitunum, sem og í allri umræðu um slitin og þá nýju ríkisstjórn sem teiknaðist upp fljótlega eftir að ríkisstjórnin féll.

Halla og fjölskyldan

Halla er gift Grindvíkingnum Birni Skúlasyni viðskiptafræðingi og heilsukokki, en hann rekur fyrirtækið just björn sem framleiðir og markaðssetur norrænar náttúru- og heilsuvörur.

Hann var afar liðtækur knattspyrnumaður sem lék með Grindavík og síðar með KR, starfaði í tryggingageiranum og hjá fjármálafyrirtækjum áður en hann vendi kvæði sínu í kross og gerðist frumkvöðull og fyrirtækjaeigandi.

Hjónin Halla og Björn eiga saman tvö börn, Tómas Bjart og Auði Ínu, sem bæði stunda háskólanám í New York. Tómas Bjartur leggur stund á nám í viðskiptafræði og spilar knattspyrnu, og Auður Ína er að læra sálfræði.

Halla er dóttir Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa og Tómasar Þórhallssonar pípulagningameistara, en hann lést árið 2008. Halla á tvær systur, Helgu og Hörpu, er báðar starfa við leikskóla. Hún ólst upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vestfjarða.

Halla vann í fiski á Neskaupsstað og á Djúpavogi og fór síðan til Bandaríkjanna sem skiptinemi. „Ég var í sveit öll sumur æskunnar og vann í fiski á Austfjörðum á unglingsárunum.“

Halla og Björn kynntust í maí árið 1999, kvöldið sem Selma Björnsdóttir varð í öðru sæti í Eurovision með laginu All out of luck. Halla hefur sagt frá því að þau hjónin - sem giftu sig árið 2004 - dönsuðu brúðarvalsinn við lagið. „Okkur hjónunum þykir svo vænt um Eurovision.“

Spurningum svarað

Eins og Íslendinga er siður þá „þurftu“ frambjóðendur að svara alls kyns „öðruvísi“ spurningum frá hinum ýmsu miðlum, og þar var Halla engin undantekning.

Í svörum hennar kom fram að Halla hefur „komið þrisvar á Þjóðhátíð og sjaldan skemmt mér betur.“ Uppáhaldsstaðurinn hennar á Íslandi er „brekkan á Þjóðhátíð, þúsundir Íslendinga að syngja saman úti í guðsgrænni náttúrunni, hvað toppar það?“ Hún nefnir einnig að uppáhaldsstaður hennar erlendis sé Miklagljúfur í Arizona í Bandaríkjunum, en Halla „fór í tveggja vikna ferð í gegnum það undur veraldar á gúmmíbátum og kajak, og utan Íslands hef ég aldrei orðið jafn agndofa yfir stórbrotinni náttúru.“

Hún var einnig spurð hvar og hvenær henni líði best. „Hvar sem er í íslenskri náttúru, en líður einnig vel heima, helst í kringum matarborðið með fjölskyldu og góðum vinum.“

Halla var beðin um að lýsa sjálfri sér í þremur orðum. „Hugrökk, heiðarleg og hlý“ sagði hún, sem nær góðri slökun í íslenskum sundlaugum, hvar sem er í náttúrunni, við lestur bóka og í hugleiðslu.“

En hvað skyldi Höllu finnast besti matur í heimi?

„Allt sem Bjössi eldar og þá helst ef það er úr hafinu.“

Þá myndi Halla velja frekar að fara í leikhús en bíó og uppáhaldstónlist hennar er eitthvað „gamalt og gott, til dæmis vel flest sem sungið er í brekkunni á Þjóðhátíð“ og hefur Halla „sérstakt dálæti á íslenskum sönglögum og það er auðvelt að fá mig til að bresta í söng.“

En hvaða þrjá hluti myndi Halla taka með sér á eyðieyju?

„Veiðistöng, hníf og eldspýtur.“

Aðspurð hvort hún sé safnari sagði Halla: „Maðurinn minn myndi líklega segja það já, ég myndi frekar segja að ég sé nýtin“ og Halla vill frekar taka daginn snemma og finnst henni „fátt betra en að fara tímanlega í rúmið.“

Halla Tómasdóttir forseti

Halla og forsetaembættið

Forseti Íslands er þjóðhöfðingi Íslendinga og er eini fulltrúinn sem kosinn er af allri þjóðinni í beinni kosningu. Embættið var stofnað með lýðveldisstjórnarskránni sem tók gildi þann 17. júní 1944, og embættið starfar eftir ákvæðum í stjórnarskrá lýðveldisins og rekur skrifstofu sem hefur það meginhlutverk að aðstoða forseta við verkefni hans.

Halla vill vera forseti sem valdeflir sem flesta til að taka þátt í samfélaginu og hún hefur velt því fyrir sér hvaða hlutverk forsetaembættið hér á landi hefur í samfélaginu.

„Ég á margt ólært og er spennt að vinna með samstarfsfólki og ólíkum aðilum um allt samfélagið. Vil virkja embættið til góðs.“

Halla segist hafa mætt til starfa sem forseti til að læra. Hún segist vera auðmjúk gagnvart því að hlutverk forseta sé fyrst og fremst að þjónusta hagsmuni Íslands. Þá hefur Halla sagt að trú á ýmsar stofnanir samfélagsins sé minni en oft áður, og hún segir að „þjóðin þurfi að sýna hvert öðru virðingu og setja sig í spor annarra. Þannig vinnum við traust. Traustið vex þegar við tengjum við hvert annað og það sem raunverulega skiptir máli.“

Halla hefur lagt mikla áherslu á að hitta ungt fólk. „Þau vilja fá sæti við borðið og taka þátt í að móta sína framtíð.“ Hún vill vinna að því sem hún kallar kynslóðasamstarf því „það er nauðsynlegt að hlusta á eldra fólk líka. Rödd þess þurfi að heyrast.“

Að mati Höllu er nauðsynlegt að „taka upp ný vinnubrögð í alþjóðasamstarfi - ríki heims þurfa að vinna saman með uppbyggilegri hætti en áður. Ég verð alltaf talsmaður hagsmuna Íslands og Íslendinga heima og að heiman.“

Hún telur að ef Íslendingar vilji vera öðrum fyrirmynd þurfum við sem „þjóð að geta talað saman og mótað sameiginlega sýn. Ef við veljum að vera friðsæl þjóð, með mjúk gildi á dagskrá, þá getum við verið öðrum fyrirmynd í hörðum heimi. Mig langar að vera forseti allra sem hér eru og þannig vera fyrirmynd í heimi sem þarf ljós í myrkrinu.“

Hvað varðar stjórnmálaflokka og stjórnarmyndunarumboð segir Halla að það skipti fleira máli „en atkvæðafjöldi.“ Hún segir að forseti verði eðlilega að bera „ábyrgð á því sem er í stjórnarskrá um að hér sé starfhæf ríkisstjórn“ og að „forseti þurfi að reyna á eigið hyggjuvit og reyna að skilja hver hefur getu til að mynda starfhæfa ríkisstjórn.“ Hún vill leggja áherslu á að leiða fólk saman til lausna áður en til þess kemur að beita neitunarvaldi forseta.

Halla Tómasdóttir og Ulf Kristersson
Á ferð um heiminnHalla með Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, fyrr á árinu.
Mynd: AFP

Fyrirlesari sem finnst best að vera heima

Halla hefur búið víða - til dæmis í Bandaríkjunum og Danmörku - en segir að hvergi sé betra að vera en á Íslandi. „Það eru hvergi stærri tækifæri. Ég elska þetta land og sé tækifærin fyrir þá sem hér búa fyrir okkar samfélag til að vera fyrirmynd í samfélagi þjóða.“

Ljóst er að Halla hefur ávallt haft brennandi áhuga á forystu og frumkvöðlastarfsemi og hún hefur kennt þúsundum nemenda á öllum aldri. Halla er vinsæll alþjóðlegur fyrirlesari og hefur meðal annars stigið fjórum sinnum á TED-sviðið - sem er árleg ráðstefna sem hefur skilgreint ætlunarverk sitt sem svo að það sé að „dreifa hugmyndum sem eiga það skilið að heyrast“ en ásamt því hefur Halla haldið fyrirlestra fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heimsins og einnig veitt sumum þeirra ráðgjöf.

Bók Höllu

Halla hefur skrifað bók og þar segir hún að það búi „leiðtogi innra með okkur öllum og eitt af mikilvægustu verkefnum lífsins er að gefa þessum leiðtoga rödd og áhrif.“

Bókin ber titilinn Hugrekki, til að hafa áhrif og kom hún út fyrir tveimur árum. Halla segir einnig að „innra með okkur býr afl sem við ættum að gefa gaum og nýta til góðra verka.“

Markmið bókarinnar er „að veita innblástur til að bæta sig og sitt samfélag, veita góð ráð, segja hvetjandi sögur, varpa upp hugleiðingum og gagnlegum spurningum. Allt með það fyrir augum að draga fram rödd sem býr innra með okkur.“

Halla nefnir einnig að það sé hennar einlæga trú að allar breytingar byrji með einni manneskju er hefur hugrekki og vilja til að hafa áhrif.

Persónan Halla

Höllu er lýst sem glaðværri, skemmtilegri, kátri, söngelskandi, sjarmerandi og hugrakkri konu sem klæðir sig vel og ber hún yfirleitt fallega klúta um hálsinn er hafa vakið mikla athygli. Hún er brosmild og þykir afar fær stjórnandi sem er með glöggt auga bæði fyrir heildarmyndinni sem og smáatriðunum.

Telur hún að hugrekki skipti miklu máli í lífinu, það sé í raun það hreyfiafl er leiðir til umbreytinga og framþróunar þar sem þess er þörf.

„Ég hef alltaf verið áhugasöm um forystu og framþróun en árið sem ég ökklabraut mig fór ég að velta enn meira fyrir mér þessum stóru áskorunum sem blasa við í heiminum sem og í lífi okkar flestra. Hvernig önnur nálgun í forystu er nauðsynleg til að sjá raunverulegar breytingar raungerast í okkar samfélagi,“ sagði Halla er hún rifjar upp hvenær og hvernig hugmyndin að bókinni fæddist.

„Þarna lá ég með löppina upp í loftið og velti fyrir mér stórum spurningum, eins og hversu mikilvægt það er fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélög að lifa og starfa í samræmi við sinn sannasta tilgang, hversu mikil orka leysist úr læðingi þegar við finnum leið til að gera gagn og láta gott af okkur leiða.“

Halla og trúmálin

Halla hefur svarað spurningum um trúmál, til dæmis hvert sé viðhorf hennar til þjóðkirkjunnar og stjórnarskrárákvæðisins um hana þar sem segir í 62. grein: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Halla svaraði því að hún sé „í þjóðkirkjunni og þekki hið góða og fjölbreytta starf sem hún stendur fyrir um landið allt.“ Henni finnst starf þjóðkirkjunnar afar „mikilvægt í samfélagsgerðinni“ og vill að „starf í kirkjum landsins fái áfram að njóta sín, ekki síst meðal barna og ungmenna. Á sama tíma þurfum við að vera meðvituð um að samfélagið hefur breyst og fjöldi fólks sem hér er búsett annað hvort tilheyrir öðrum kirkjudeildum eða er trúlaust. Það þarf að virða og ég er ánægð með þjóðkirkju sem er líka opin fyrir þessum hópum ef þeir æskja þess.“

Halla er á því að þjóðkirkjan og ríkisvaldið „hafi unnið saman að því undanfarin ár að gera þjóðkirkjuna æ sjálfstæðari frá ríkisvaldinu. Tíminn mun leiða í ljós hvar sú vegferð endar. Ef Alþingi breytir þeirri skipan sem fram kemur í stjórnarskrárákvæðinu sem vísað er til, þá kallar það sjálfkrafa á þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og segir í stjórnarskránni. Það væri því, að óbreyttu, ekki forsetans að blanda sér í það ferli.“

Halla Tómasdóttir
Í hlutverki forsetaHalla heldur þingsetningarræðu.
Mynd: Víkingur

Halla og frjálshyggjan

Óhætt er að segja að Halla hafi verið mikil frjálshyggjumanneskja á árum árum. Hún vildi afnema ríkisítök á ýmsum sviðum og sagði við kynningu eigin forsetaframboðs í Grósku á sínum tíma að forsetaefni ætti að vera hafið yfir pólitísk dægurmál og þras.

Pólitísk afstaða hennar á árum áður birtist í góðærinu, einu og hálfu ári fyrir hrun, en þann sjöunda febrúar árið 2007 hélt Viðskiptaráð Viðskiptaþing, þar sem Halla flutti erindi. Á glærum er hún notaði var ritað um að Ísland skyldi verða best í heimi á ýmsum sviðum. Var það markmið Höllu að á Íslandi yrði besta viðskiptaumhverfi heims, besta menntun í heimi og besta stjórnsýsla heims.

Á meðal þess sem hún nefndi í erindi sínu á Viðskiptaþingi var að skattar yrði lágir og flatir, að tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja og virðisaukaskattur yrðu samræmdir í einn lágan, flatan skatt, án allra undanþága. Og vildi hún á þessum tíma að tollar, vörugjöld og sértæka skatta væri réttast að afnema.

Hún talaði einnig fyrir því að einkaaðilar myndu taka við rekstri menntastofnana og að ríkið ætti að fjármagna menntun á leik-, grunn og framhaldsskólastigi. Halla taldi ekki ráðlegt að ríkið stæði fyrir beinni atvinnusköpun og vildi að opinberir starfsmenn nytu sömu réttinda og skyldna og starfsmenn í einkageira. Hún vildi fækka ráðuneytum og stofnunum markvisst með því að leggja þær niður og fela einkaaðilum starfsemi þeirra, ef þörf væri á áframhaldandi rekstri. Þá áttu einkaaðilar - að mati Höllu - að taka við rekstri heilbrigðisstofnana. Lífeyrissjóðir og tryggingafélög myndu taka við almannatryggingum og um náttúruauðlindir Íslendinga sagði Halla, að þær ættu að vera í auknum mæli í einkaeigu.

Umdeildu bílakaupin

Halla og Björn komust í hann krappann fljótlega eftir að sigur hennar var í höfn, eftir að bílakaup þeirra voru gerð opinber með ljósmynd sem deilt var á samfélagsmiðlum bílaumboðsins Brimborgar, án vitundar þeirra hjóna, birti umboðið færslu á Facebook þar sem greint var frá því að Halla og Björn hefðu keypt sér nýjan Volvo-rafbíl. Og með færslunni var ljósmynd af hjónunum og Agli Jóhannssyni, forstjóra Brimborgar. Sagði Egill opinberlega að myndbirtingar sem þessar væru alvanalegar.

Halla og Björn voru hins vegar ósátt með myndbirtinguna og í yfirlýsingu sem Halla sendi frá segir hún að hún hafi óskað eftir því við Brimborg að myndin yrði fjarlægð af samfélagsmiðlum um leið og hún komst að því að hún hefði ratað þangað. Sagði einnig að þau hefðu ekki beðið um nein sérkjör, en hins vegar hafi hjónin fengið staðgreiðsluafslátt, sem sé sambærilegur þeim sem þau fengu síðast þegar þau áttu viðskipti við sama fyrirtæki.

Yfirlýsing Höllu

Halla sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins: „Af virðingu við sitjandi forseta tók ég þá ákvörðun að veita ekki frekari viðtöl að loknum kosningum fyrr en eftir embættistöku, enda hef ég ekki tekið við embætti forseta enn þá og kem ekki fram í krafti þess. Ég vona að því sé sýndur skilningur. Við hjónin ákváðum að kaupa okkur bíl til eigin afnota og í amstri dagsins sá ég ekki fyrr en nú síðdegis að þau bílakaup eru orðin fréttaefni. Ég fagna því að fólk viti að við völdum að kaupa umhverfisvænan bíl, vonandi getum við verið öðrum góð fyrirmynd þar. Hinsvegar var það ekki ætlun okkar að þau bílakaup yrðu opinber og var ljósmyndin birt á samfélagsmiðlum án okkar vitundar. Við báðum vinsamlegast um að myndin yrði fjarlægð um leið og við fréttum af því og var samstundis orðið við þeirri beiðni. Þá vil ég ítreka að við hjónin fórum ekki fram á nein sérkjör, en okkur bauðst staðgreiðsluafsláttur sambærilegan þeim sem við fengum síðast þegar við áttum viðskipti við sama fyrirtæki og öðrum viðskiptavinum býðst einnig. Hlý kveðja, Halla.“

Halla og eiginmaður hennar fengu 549.127 króna afslátt af bifreiðinni sem þau keyptu hjá Brimborg, afsláttinn fengu þau hjónin hjá Brimborg vegna staðgreiðslu og „endurtekinna kaupa.“

Halla sagði frá því að þau hjónin hafi áður ekið um á Toyota Yaris af árgerðinni 2012, en þar á undan hafi þau átt Volvo í tólf ár.

Sagði Halla að nýja bifreiðin hafi verið hugsuð til persónulegrar nota - sérstaklega fyrir maka forseta. Kom á daginn að hjónin Halla og Björn greiddu 7.280.000 fyrir bifreiðina, sagði Halla afsláttinn því hafa verið um 7,5 prósent.

„Eins og komið hefur fram frá umboði er það sambærilegt því sem öðrum kaupendum býðst sem uppfylla sömu skilyrði og það er í takt við þau kjör sem við höfum fengið við önnur bílakaup í þessu umboði, sem öðrum, hérlendis sem erlendis. Aldrei var um að ræða sérstök afsláttarkjör gegn því að auglýsa bílakaupin opinberlega.“

Hún segist vera „alvön því frá framboðstímanum að fólk vilji myndir með okkur og viljum áfram verða við slíkum bónum þegar hægt er, við þurfum að taka héðan af skýrt fram að slíkum myndatökum fylgi ekki heimild til birtingar í auglýsingaskyni. Við lærum svo lengi sem við lifum!“

Ökklabrotið örlagaríka

Halla lýsti þessu í samtali við Vísi 2023. „Ég lofaði danskri vinkonu minni að eftir forsetaframboðið myndi ég ekki stökkva strax í næsta starf, að ég myndi gefa mér að minnsta kosti ár til að hugsa vel hvað tæki við yrði ég ekki forseti.“

Hún segir að þetta hafi verið gott ráð „því eftir framboðið buðust mér áhugaverð hlutverk og eftir um níu mánuði var ég nánast búin að ganga frá ráðningu í spennandi starf í Bandaríkjunum, en þá vildi svo til að ég ökklabraut mig,“ sagði Halla og bætti þessu við:

„Þetta þýddi að ég varð einfaldlega kyrrsett í nokkra mánuði og kannski var þarna almættið að grípa í taumana því að eftir á að hyggja hefði það starf ekki verið hið rétta fyrir mig þótt það hafi virkað spennandi.“

Halla segist hafa fyllst eldmóði vegna þess að hún hafði gefið sér góðan tíma í að velta sér eigin áttavita og hvað hún vildi helst af öllu gera við sitt líf.

„Það er svo merkilegt að hvort sem við erum í fjallgöngum eða úti á sjó, finnst okkur sjálfsagt að nota áttavita. En þegar það kemur að okkar eigin lífi og starfsferli þá eigum við það flest til að bruna áfram án þess að velta fyrir okkur: Hver eru gildin mín, tilgangurinn minn, hvar liggur ástríðan mín? Þegar að ég réði mig til The B Team hlustaði ég fyrst og fremst á eigið hjarta, notaði minn áttavita til að velja hvað ég vildi gera við mitt líf.“

Hún sagði stuðning eiginmanns síns vera henni afar mikilvægan.

„Bjössi studdi mig í hvívetna, svo vel gift er ég. En Bjössi hafði líka sjálfur ákveðið að elta sinn draum. Það gerði hann þegar hann hætti að starfa í fjármálageiranum og ákvað að læra kokkinn í New York. Björn útskrifaðist sem heilsukokkur árið 2012 og var þá þegar með hugmyndir um nýsköpunarfyrirtæki sem hann langaði til að stofna,“ sagði hún í viðtali við Vísi.

Vill útrýma ójöfnuði

Halla segist oft hugsa heim til Íslands þegar hún er á ferðalögum hér og þar um heiminn.

„Að mörgu leyti er ég enn að vinna að sömu hugmyndafræði og við sem stofnuðum Auði Capital aðhylltumst, að tala fyrir mikilvægi sjálfbærni og jafnrétti í rekstri fyrirtækja og forystu samfélaga. Það er hvorki björt framtíð fyrir fólk, né fyrirtæki ef við bætum ekki viðskiptahætti og berjum í bresti samfélagssáttmálans. Það að viðskipti snúist eingöngu um hámörkun arðs fyrir hluthafa er ekki hugsun sem fleytir okkur til framtíðar og það er kominn tími til að hugsa svo margt uppá nýtt og til þess þarf hugrekki.“

Og Halla bætir við:

„Við verðum líka að átta okkur á því að ójöfnuður innan samfélaga sem og innan heimsins, er of mikill til að vera sjálfbær. Í Afríku búa til dæmis um 600 milljónir manna án orku en verða samt verst fyrir barðinu á loftlagsbreytingum sem skýrast af ofneyslu þjóða á norðurhveli jarðar. Á síðustu tveimur árum tók ríkasta 1 prósentið til sín nær tvisvar sinnum meiri auð en 99% íbúa jarðar, þetta er kerfi virkar vel fyrir þá sem eiga mikinn auð en illa fyrir alla aðra.“

Ísland sem fyrirmynd

Halla lýsti því í fyrrgreindu viðtali við Vísi að Ísland hefði mörg tækifæri til að verða leiðandi sem fyrirmynd á heimsvísu.

„Ég hugsa oft til þess hvað við erum heppin sem fæðumst á Íslandi, með allar okkar náttúruauðlindir og hversu þakklát ég er fyrir að hafa alist upp á Íslandi, líklega er hvergi betra að vera kona.“

Henni þykir þó að ýmsu mætti breyta, eða í það minnsta endurskoða og hún vill að breytingar eða tillögur um breytingar verði frekar fagnað en hitt.

„Mér finnist margt mega endurskoða. Til dæmis set ég spurningar við þá hagfræði sem hér hefur verið rekin, sem gerir það að verkum að ungt fólk stendur frammi fyrir því að reyna að koma yfir sig þaki annaðhvort með verðtryggðum lánum eða ofurvöxtum. Hér held ég að sé mikilvægt að huga betur að málum langi okkur til að halda í okkar unga og hæfileikaríka fólk sem hefur valkosti um að búa og starfa hvar sem það vill.“

Heimildir:

https://kjarninn.is/folk/2016-05-13-bessastadir-thurfa-fyrirlida-og-modur/

https://www.visir.is/g/20242579835d/-vidskiptakonan-sem-komst-a-bessa-stadi-i-annarri-til-raun

https://www.visir.is/g/20232457937d/-med-thvi-ad-leyfa-mer-ad-hlusta-a-hjartad-mitt-fylltist-eg-eldmodi-og-astridu-

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-09-27-taepur-helmingur-anaegdur-med-storf-hollu-tomasdottur-423220

https://tigull.is/halla-tomasdottir-forsetaframbjodandi/

https://www.visir.is/g/20242581277d/-hrokafull-afstada-ad-skilyrda-studning-vid-ukrainu

https://www.visir.is/g/20242632661d/halla-talar-ensku-vid-konginn-eg-held-ad-thad-se-kannski-nyi-timinn-

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-08-01-halla-vill-verda-fyrirmynd-i-heimi-sem-tharf-ljos-i-myrkrinu-418855

https://www.visir.is/g/20242540251d/aetludu-ad-eiga-yndis-legt-kvold-en-um-raedan-eydi-lagdi-thad

https://www.kirkjubladid.is/mal-lidandi-stundar/vidhorf-til-thjodkirkjunnar-halla-tomasdottir-svarar/

https://samstodin.is/2024/03/halla-vildi-einkavaeda-audlindir-og-menntun/

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-07-26-halla-segist-ekki-hafa-aetlad-ad-opinbera-bilakaupin-418431

https://www.visir.is/g/20242601400d/ekki-verid-aetlun-theirra-ad-gera-bilakaupin-opin-ber

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/07/26/halla_sendir_fra_ser_yfirlysingu_vegna_bilakaupa/

https://www.visir.is/g/20242601978d/fekk-549.127-kronur-i-af-slatt-af-bilnum

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/07/29/halla_greiddi_rumar_sjo_milljonir_fyrir_bilinn/?origin=helstu

https://www.hallatomasdottir.is/is

https://www.forseti.is/fr%C3%A9ttir/2024-08-01-halla-t%C3%B3masd%C3%B3ttir-sett-%C3%AD-embaetti-forseta/

https://www.forseti.is/en/the-president/halla-tomasdottir/

https://heimildin.is/grein/22058/halla-tomasdottir-verdur-sjoundi-forseti-lydveldisins/

https://www.visir.is/g/20242571081d/hug-rekki

https://heimildin.is/grein/21262/halla-tomasdottir-bydur-sig-fram-til-forseta/

https://www.vf.is/mannlif/mun-grindvikingurinn-verda-fyrsti-forsetaherra-a-bessastodum

Kjósa
Hvernig finnst þér þessi grein? Skrá inn til að kjósa

Komment

Spillingin sem þrífst innan valdakerfisins
Skoðun

Ólafur Ágúst Hraundal

Spillingin sem þrífst innan valdakerfisins

Örn dæmdur fyrir 30 þúsund klámfengnar myndir af börnum
Innlent

Örn dæmdur fyrir 30 þúsund klámfengnar myndir af börnum

Grunsamlegur líkfundur við sjóinn á Kanarí
Heimur

Grunsamlegur líkfundur við sjóinn á Kanarí

Ótti meðal innflytjenda í Finnlandi
Heimur

Ótti meðal innflytjenda í Finnlandi

Maldíveyjar innleiða óvenjulegt bann
Heimur

Maldíveyjar innleiða óvenjulegt bann

Lögreglan lýsir eftir fólki
Innlent

Lögreglan lýsir eftir fólki

Troðfullur bíll af flugeldum kannaður
Innlent

Troðfullur bíll af flugeldum kannaður

Ungir karlmenn handteknir vegna fölsunarmáls
Innlent

Ungir karlmenn handteknir vegna fölsunarmáls

Forsætisráðherra Japans segist hafa lýst yfir alvarlegum áhyggjum við Xi
Heimur

Forsætisráðherra Japans segist hafa lýst yfir alvarlegum áhyggjum við Xi

23 sækjast eftir nýju embætti
Innlent

23 sækjast eftir nýju embætti

Selfyssingur sagður hafa stjórnað skipi skakkur
Landið

Selfyssingur sagður hafa stjórnað skipi skakkur

Þriggja ára stúlka lést eftir að hafa fallið í sundlaug á Rhodos
Heimur

Þriggja ára stúlka lést eftir að hafa fallið í sundlaug á Rhodos

Sagður hafa klætt tíu ára barn úr buxunum
Innlent

Sagður hafa klætt tíu ára barn úr buxunum

Innlent

Örn dæmdur fyrir 30 þúsund klámfengnar myndir af börnum
Innlent

Örn dæmdur fyrir 30 þúsund klámfengnar myndir af börnum

Átti einnig rúmlega 200 kvikmyndir
23 sækjast eftir nýju embætti
Innlent

23 sækjast eftir nýju embætti

Lögreglan lýsir eftir fólki
Innlent

Lögreglan lýsir eftir fólki

Troðfullur bíll af flugeldum kannaður
Innlent

Troðfullur bíll af flugeldum kannaður

Halla og ökklabrotið örlagaríka: „Kannski var almættið þarna að grípa í taumana?“
Nærmynd
Innlent

Halla og ökklabrotið örlagaríka: „Kannski var almættið þarna að grípa í taumana?“

Ungir karlmenn handteknir vegna fölsunarmáls
Innlent

Ungir karlmenn handteknir vegna fölsunarmáls

Loka auglýsingu