
Nýlega var gangsett birtuorkuver á þaki Borgartúns 26. Birtuorkukerfið samanstendur af 55 birtusellum eða sólarsellum sem áætlað er að muni framleiða um 18-20.000 kWst árlega sem samsvarar rafmagnsnotkun 4-5 meðalheimila á Íslandi en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
„Kerfið hefur nú þegar framleitt tæpar 5.000 kWst síðustu vikur en rafmagnið er nýtt til þess að draga úr rafmagnsnotkun hússins og rafmagnskostnaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem staðsett í húsinu, auk þess að létta álagi af raforkukerfinu,” segir í tilkynningunni.
Þá segir að samhliða birtusellunum hafi verið innleidd 50 kWst rafhlaða á þakinu sem mun virka sem varaafl fyrir hluta hússins í rafmagnstruflunum.
„Forveri minn í embætti á hrós skilið fyrir að ýta þessu skemmtilega verkefni úr vör í samstarfi við Eik fasteignafélag, Framkvæmdasýsluna/Ríkiseignir og Alor. Sólarorka er um þessar mundir að umbreyta orkubúskap heimsins og mikilvægt að við hér á Íslandi séum vakandi fyrir þróuninni og tökum þátt í henni,” segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Komment