
Leikarinn Halldór Gylfason, sem nú leikur í söngleiknum Moulin Rouge! í Borgarleikhúsinu, segist enn í dag eiga erfitt með að sætta sig við dularfullt andlát elstu systur sinnar, Guðbjargar, sem lést árið 2015, aðeins sextug að aldri.
Í viðtali í þættinum Segðu mér á Rás 1 sagði Halldór að systir hans hefði verið einstök og glaðlynd manneskja sem allir hefðu elskað. „Hún var dásamleg manneskja og ógeðslega skemmtileg,“ segir hann.
Guðbjörg bjó á Eyrarbakka síðustu æviárin og glímdi, að sögn Halldórs, við vanlíðan og drykkju. „Hún hafði ekki alveg höndlað hamingjuna síðustu árin,“ segir hann.
Dó við dularfullar aðstæður
Halldór lýsir því að andlátið hafi borið að með óútskýrðum hætti. „Hún fannst á grúfu í svefnherberginu sínu, vafin inn í rúmteppi. Hún hafði drukkið og tekið einhver lyf,“ segir hann og bætir við að hún hafi einnig verið komin með drep í hjartað.
Segir hann að það hafi greinilega verið önnur manneskja með henni kvöldið áður. „Það er alveg klárt mál og eitthvað gengið á, augljóslega,“ segir Halldór. Hann bendir á að líkblettir hafi fundist á bakinu, en að lík hennar hafi greinilega verið snúið við áður en hún fannst.
„Þannig að það er eitthvað skrítið í gangi þarna en lögreglan afgreiðir þetta sem eitthvað óútskýrt. Þetta er mjög skrítið og óþægilegt,“ segir Halldór.
Krefjast nýrrar rannsóknar
Halldór segist enn velta málinu fyrir sér og að hann og dóttir Guðbjargar hafi nýlega sent bréf til lögreglu þar sem þau óska eftir að andlátið verði rannsakað nánar.
Halldór segir þau vilja fá svör við spurningum sínum, „því þetta er mjög óþægilegt.“

Komment