Örar tæknibreytingar á sviði gervigreindar á síðustu árum hafa leitt til samfélagsbreytinga sem ekki sér fyrir endann á og tilkoma gervigreindar kallar á breytta löggjöf þar sem huga þarf að réttindum fólks í stafrænu umhverfi.
Örar tæknibreytingar á sviði gervigreindar á síðustu árum hafa óneitanlega leitt til samfélagsbreytinga sem ekki sér fyrir endann á, og tilkoma gervigreindar hefur kallað á breytta löggjöf, þar sem huga þarf að réttindum fólks í stafrænu umhverfi.
Mörg dæmi er að finna á veraldarvefnum þar sem gervigreind er nýtt til djúpfölsunar á myndskeiðum, og er markmiðið að láta líta út fyrir að fólk hafi tjáð sig með tilteknum hætti, þótt slík tjáning hafi aldrei átt sér stað. Þá geta djúpfalsanir einnig verið notaðar í blekkingarskyni, til dæmis í fjárhagslegum tilgangi eða til að hafa skoðanamótandi áhrif á notendur samfélagsmiðla í aðdraganda kosninga.
Eins og sakir standa er fremur auðvelt að nýta sér gervigreind til þess að búa til falsaðar myndir sem og myndbönd og flókið er fyrir einstaklinga að leita réttar síns. Þrátt fyrir að friðhelgi einkalífs njóti stjórnarskrárverndar og persónuverndarlög verndi ýmis persónuleg réttindi er ekki að finna neitt skilyrðislaust bann við því að nota gervigreind til að líkja eftir útliti eða rödd fólks í löggjöf hér á landi.
Það gæti orðið breyting á þessu því þann 11. júlí síðastliðinn barst menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra - Loga Einarssyni - erindi nokkurra félagasamtaka, þar sem skorað var á ráðherra að beita sér fyrir lagasetningu um höfundarétt einstaklinga að eigin ásjónu og rödd. Var vísað til áforma dönsku ríkisstjórnarinnar um slíka lagasetningu, sem kynnt voru fyrr í sumar.
Í áðurnefdri áskorun samtakanna er áhyggjum lýst af því að misnotkun á persónu- og höfundareinkennum, með svokölluðum djúpfölsunum, geti hreinlega haft verulegt tjón í för með sér fyrir alla þá einstaklinga er verða fyrir slíku - einkum fyrir listamenn sem margir hafi lifibrauð af rödd sinni og framkomu.
Kemur fram í áskoruninni að þótt að lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vernd persónuupplýsinga, verndi bæði rödd og ásjónu telji áðurnefnd samtökin að málshraði og málsmeðferð Persónuverndar samræmist ekki þeim alvarlegu afleiðingum sem djúpfalsanir geti haft í för með sér. Fyrir slík tilfelli verði að vera farvegur er tryggi skjóta afgreiðslu, auk þess sem nauðsynlegt sé að fyrirbyggja betur að slík mál komi upp, með viðeigandi viðurlögum.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Logi Einarsson, tekur heilshugar undir þær áhyggjur er fram koma í erindinu.
Að mati Loga er „brýnt að kanna með hvaða hætti styrkja má rétt einstaklinga til eigin ímyndar með lagabreytingum, í ljósi þess að dreifing falsaðra mynda og myndbanda hefur aukist til muna vegna framþróunar gervigreindar.“
Hann segir einnig að það þurfi að „kortleggja helstu leiðir sem færar eru við slíka lagasetningu, þar á meðal mögulegar breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, auk annarra mögulegra valkosta við einföldun á að gera einstaklingum kleift að leita réttar síns með skjótari og skilvirkari hætti ef á rétti þeirra er brotið með djúpfölsun.“
Sem fyrsta skref í þeirri vinnu hefur Logi „óskað eftir því að höfundaréttarnefnd taki málið til athugunar og taki í kjölfarið afstöðu til framangreindra álitaefna.“
Einnig mun ráðuneytið kynna sér frumvarp danskra stjórnvalda um breytingar á höfundarréttarlögum þegar það verður lagt „formlega fram en áætlað er að lögin verði innleidd fyrri hluta árs 2026,“ sagði ráðherra að lokum.
Komment