
Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri, bókaútgefandi og rithöfundur, veiktist illa af háfjallaveiki þegar hann gerði tilraun til að ganga á topp Kilimanjaro í síðasta mánuði.
Reynir var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur útvarpsþættinum Segðu mér á Rás 1 á dögunum. Þar sagði hann frá nýjustu bók sinni, Fólkið í vitanum og veikindi sem hann glímdi við í október þegar hann varð frá að hverfa þegar hann reyndi að klífa hæsta fjall Afríku.
„Það eru margir sem kannast við sjóveiki en háfjallaveikin er helmingi verri. Og ef maður er mjög sjóveikur þá langar manni að deyja þannig að þú getur rétt ímyndað þér hvað gerist við háfjallaveikina,“ segir Reynir þegar Sigurlaug biður hann að útskýra veikindin.
„Við vorum þarna hópur Íslendinga sem ætluðum auðvitað að toppa, það er alltaf meiningin,“ útskýrir Reynir en hópurinn fór til Tansaníu til að toppa Kilimanjaro um miðjan október. Reynir heldur áfram:
„En þetta fór mjög illa í mig. Ég var í þrjá daga þannig að ég var varla sjálfum mér sinnandi. Ég var hundveikur, fór á súrefni, einu sinni að minnsta kosti, til að ná mér til baka en lagði upp í síðasta áfangann. Þar ferðu af stað í 4.600 metrum og þú ætlar þér að fara í 5.800 metra, sem er auðvitað mikið verkefni. En í 5.000 metrum, þar var ég bara búinn og aftur dröslaði ég mér niður í tjald og var settur á súrefni til að ná mér til baka.“
Reynir er sammála Sigurlaugu þegar hún segir að svona sé hálfgerð klikkun.
„Já auðvitað er þetta klikkun. En samt einhver besta klikkun sem maður glímir við, að fara á þessi fjöll og njóta þess að bæði undirbúa og fara á fjallið og upplifa himneskt útsýni. Sem ég að vísu upplifði ekki, ég upplifði bara súrefni og tjald.“
Sigurlaug spyr hann nánar út í raunirnar sem hann varð fyrir á fjallinu.
„Þetta snýst svolítið um það eins og í fararstjórninni, það erfiðasta sem fararstjórinn gerir er að taka ákvörðun um að snúa við. En það er líka það skynsamlegasta sem þú getur gert. Þannig að í 5.000 metrum, eins og segir í laginu, þá kvaddi ég sambýliskonuna og dröslaði mér niður aftur. Það var erfið ákvörðun en það var skynsamlegra því það var einstaklingur sem var einhverjum sex til tíu árum yngri, 64 ára, hann var örmagna á sama stað og ég en hann var í hópnum okkar. Og hann neitaði að snúa við, hann bara ákvað að halda áfram. Þannig að það var sett á hann súrefni og honum var dröslað upp en hann fór nú ekki alveg á toppinn en langleiðina. Og svo kom hann í kerru niður.“
Sigurlaug spyr Reyni hvað hann ætli ég að gera í þessu, hvort hann sé ósáttur við að hafa ekki komist á toppinn.
„Nei, ég er alveg rosalega sáttur við þetta. Ég gerði mér grein fyrir því að ég væri í einhvers konar háska. Það er háfjallaveikin, ég er mjög mæðinn, þannig að ég hugsa með mér, „jæja, ég ætla frekar að snúa við heldur en að drepast hérna“.“
Aðspurður hvort fólk geti dáið úr háfjallaveiki, játar Reynir: „Já, það er mjög auðvelt. Og það er mjög algengt að fólk fari undir þessum kringumstæðum. Dómgreindin fer líka og þú álpast eitthvað ennþá lengra. Þannig að ég ákvað bara í 5.000 metrum að fara niður og tala síðan við hjartalækninn minn þegar ég kæmi heim, hann Gísla Jónsson og skoða hvort ég sé í lagi, ég er náttúrulega orðinn rúmlega sjötugur. Þannig að maður er ekkert unglamb. Og frumskoðun hefur farið fram og það er í lagi með mig. Nema ég er aðeins of feitur og þá geri ég eitthvað í því.“
„En ætlarðu aftur?“, spyr Sigurlaug.
„Ég hef hugleitt það. Og það getur vel verið að ég fari næsta ár og taki þá styttri leið upp. Þú getur farið upp í rútu í 3.000 metra og klárað svo þessa 2.800 metra frá þeim punkti. Þannig að ég hef alveg hugsað það en það er ekkert möst fyrir mig. Ég er löngu kominn yfir það að verða að fara á toppinn. Þetta var ákvörðun sem var tekin, ég horfist í augu við það að þannig var staðan. En jú, ég er búinn að segja það að ég ætla að skoða þetta næsta ár. Ef ég er í fínu lagi, þá kemst ég vonandi upp á Kilimanjaro.“
Fyrirvari um hagsmuni: Reynir Traustason er einn af liðlega tuttugu eigendum Sameinaða útgáfufélagsins ehf. sem á Mannlíf.

Komment