
Nokkrir af ríkustu tæknijöfrum heims gætu haft verulegan fjárhagslegan ávinning af því ef Donald Trump nær fram áformum sínum um að auka bandarísk yfirráð og umsvif á Grænlandi, þrátt fyrir að forsetinn leggi helst áherslu á þjóðaröryggi sem ástæðu áhugans. Þetta kemur fram í frétt Nyheder.
Meðal þeirra sem hafa fjárfest í námuvinnslu á Grænlandi eru Jeff Bezos, Bill Gates og Mark Zuckerberg, sem hafa lagt fé í bandaríska námufyrirtækið Kobold Metals, sem vinnur sjaldgæfa málma. Þá hefur Sam Altman, forstjóri OpenAI, einnig fjárfest í fyrirtækinu frá árinu 2022.
Sérfræðingar segja að þótt erfitt sé að meta mögulegan hagnað sé ljóst að aukinn aðgangur Bandaríkjanna að auðlindum Grænlands gæti reynst sumum fjárfestum „vatn á myllu“. Samhliða þessu hefur komið fram að stórir styrktaraðilar úr tækni-, olíu- og dulritunargeiranum lögðu hundruð milljóna dollara til kosningabaráttu Trumps árið 2024.
Á sama tíma eru fleiri bandarísk fyrirtæki að hasla sér völl á Grænlandi, meðal annars Critical Metals Corp, og hefur hlutabréfaverð félagsins rokið upp eftir að Trump herti orðræðu sína um Grænland.
Þá hefur komið í ljós að auðkýfingurinn Ronald Lauder, náinn bandamaður Trumps, hefur fjárfest í grænlenskum fyrirtækjum og er sagður hafa átt þátt í að vekja áhuga forsetans á eyjunni. Sérfræðingar telja slíkar fjárfestingar fremur stefnumarkandi en hefðbundnar.
Auk námuvinnslu hefur Grænland vakið áhuga tæknielítunnar sem mögulegur staður fyrir gagnaver, þar sem kalt loftslag og víðáttumikil landsvæði þykja henta vel. Þróun gervigreindar hefur aukið orkuþörf gríðarlega, á sama tíma og mótstaða við gagnaver hefur tafið slík verkefni víða í Bandaríkjunum.
Greinendur telja þróunina sýna að áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi snúist ekki aðeins um þjóðaröryggi, heldur einnig um efnahagslega og tæknilega hagsmuni áhrifamikilla aðila í kringum forsetann.

Komment