
Í skýrslu landskjörstjórnar um undirbúning og framkvæmd alþingiskosninga 2024, sem kom nýverið út, kemur fram að mikilvægt sé að bregðast við þeim áskorunum sem tengdust atkvæðatalningu undir mikilli tímapressu.
Telja skýrsluhöfundar að aðstæður við talningu hafi skapað verulega annmarka og leggja meðal annars til að kannað verði hvort heppilegra sé að telja atkvæði daginn eftir kjördag í stað þess að ljúka talningu samdægurs. Markmið tillögunnar er að bæta gæði og áreiðanleika talningarferlisins og draga úr álagi á kjörstjórnir.
„Ég hef nú ekki lesið þessar tillögur en sem fulltrúi stjórnmálanna þá er maður auðvitað í kosningabaráttu til þess að sigra og ég hugsa að það sé nú skemmtilegra að fá að taka sigurinn út sama kvöld en ekki daginn eftir,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra Íslands, við RÚV um þetta mál.
Óhætt er að segja að Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri Grænna, sé annað en sáttur við þessi svör dómsmálaráðherra.
„Jahér,“ skrifar Stefán á samfélagsmiðla um viðbrögð ráðherra. „Landskjörstjórn vinnur skýrslu um framkvæmd kosninga með rökstuddum tillögum. Ráðherra málaflokksins mætir í viðtal, viðurkennir að hafa ekki lesið skýrsluna en líst illa á málið af því að það myndi spilla fyrir partýstandi stjórnmálafólks. Rosalega er þetta slappt - alveg óháð því hvaða niðurstöðu menn munu svo komast varðandi skipulag talningar.“

Komment