Það er ríkti mikil gleði meðal þingmanna í gær, sérstaklega hjá meirihlutanum, þegar samþykkt var að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016.
Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra.
Það var þó einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hann Tómas Þór Þórðarson, sem sýndi sennilega minnstu gleðina en hann var ekki sáttur við orð sem þingmenn Flokks fólksins létu falla og sakaði þá um bull og hálfsannleik. Þingmennirnir sögðu í ræðum sínum í gær að stjórnarandstaðan hafi barist gegn frumvarpinu en Tómas telur það vera langt frá sannleikanum.
Rétt er þó að taka fram enginn þingmaður Flokks fólksins nefndi Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega á nafn í því samhengi í gær.
Ræða Tómasar
Frú forseti.
Ég ætlaði nú bara að vera sultuslakur í sætinu mínu og vera á græna takkanum en það er ekki annað hægt en að koma hér upp og setja mikinn fyrirvara við þessi orð hv. þingmanna Flokks fólksins, þetta var líka í umræðunum, þar sem þeir gera ekkert annað en að koma hér upp og segja einhvern hálfan sannleika um hvað minni hlutinn var að tala um í þessari umræðu. Það er algjört bull að minni hlutinn hafi, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, ef við tölum um okkur, verið á móti og að þetta hafi mætt andstöðu. Ég vil benda hv. þingmönnum Flokks fólksins á að ræður hér eru skrifaðar niður og eru til, þannig að endilega lesið þær og sjáið hvað við vorum að segja. Það sagði hver einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í fyrstu setningu allra ræðna að hann væri með þessu máli í meginreglunni, að þetta ætti að fara í gegn, enda eru allir þingmenn Sjálfstæðisflokks á grænu. Við vorum bara að gjalda varhuga við framkvæmdinni, búin að setja inn breytingartillögu og ég veit ekki hvað, sem fór ekki í gegn. Allt í góðu, það er ríkisstjórn í landinu sem vill fá þetta í gegn en ég ætla að biðja þingmenn Flokks fólksins um að reyna aðeins að fara að segja satt.


Komment