
Samstöðufundur verður haldinn fyrir utan RÚV á Efstaleiti 1 á miðvikudaginn. Ætlunin er að þrýsta á stjórn Ríkisútvarpsins um að sniðganga Eurovision-söngvakeppnina sem haldin verður í Austurríki á næsta ári.
Stjórn Ríkisútvarpsins, undir forystu Stefáns Jóns Hafstein, heldur fund klukkan 15:00 næstkomandi miðvikudag þar sem ákvörðun verður tekin um þátttöku Íslands í Eurovision-söngvakeppninni á næsta ári. Fjögur lönd hafa nú þegar tilkynnt að þau muni ekki taka þátt í keppninni í ljósi þess að Ísrael hafi nú fengið grænt ljós frá EBU um þátttöku, þrátt fyrir að hafa stundað þjóðarmorð á Gaza síðastliðin tvö ár, samkvæmt fjölmörgum sérfræðingum.
Páll Óskar Hjálmtýsson, poppstjarna og Eurovision-fari hvatti á dögunum stjórn RÚV til þess að sniðganga keppnina í þetta skiptið og undir það tók Björk Guðmundsdóttir. Samstöðufundurinn er haldinn af sniðgöngusamtökunum BDS Ísland og hefst klukkan 14:30, fyrir utan húsnæði Ríkisútvarpsins.

Komment