
Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðugöngu í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 1. nóvember. Gangan hefst klukkan 14:00 við Hallgrímskirkju, og verður gengið þaðan að Austurvelli.
Að sögn félagsins er markmið göngunnar að vekja athygli á stöðu Palestínumanna og lýsa yfir stuðningi við frelsi palestínsku þjóðarinnar. Á Austurvelli mun Magga Stína, sem áður hefur tekið þátt í aðgerðunum Frelsisflotans, flytja ávarp.
Í tilkynningu félagsins kemur fram að vopnahlé í deilunni tryggi ekki réttlæti og að ofbeldi og brot á mannréttindum haldi áfram. Félagið gagnrýnir harðlega íslensk stjórnvöld fyrir að bregðast skyldum sínum gagnvart alþjóðalögum og kallar eftir því að Ísrael verði dregið til ábyrgðar.
Jafnframt segir að baráttunni verði haldið áfram þar til Palestínumenn búi við „réttlátan og raunverulegan frið“, eins og það er orðað.
Ræða Möggu Stínu verður túlkuð á táknmál.

Komment