
Samtökin No Borders Iceland hafa sent Alþingi umsögn þar sem þau gagnrýna harðlega frumvarp til laga um brottfararstöðvar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í umsögninni, sem lögð hefur verið fram fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, vara samtökin við því að lögin muni fela í sér frelsissviptingu saklausra einstaklinga, þar á meðal barna, sem einungis leita verndar.
Samtökin segja frumvarpið vera „birtingarmynd á siðferðislegu gjaldþroti stjórnvalda“ og gagnrýna hvernig valdníðsla geti verið hulin með pólitískri notkun tungumálsins. Með frumvarpinu sé í raun gert refsivert fyrir flóttamenn að koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd, hvort sem um ræðir flótta undan ofsóknum, pyntingum, mansali, stríði eða hópmorði.
No Borders Iceland bendir á að frumvarpið brjóti gegn grundvallarreglum þjóðaréttar, þar á meðal banninu við að vísa fólki á brott eða senda það aftur í hættu samkvæmt 42. grein útlendingalaga, sem styðst við Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands.
Samtökin segja að stefna stjórnvalda sé knúin áfram af „kerfislægum rasisma, hvítri yfirburðahyggju og hugmyndum um að hvít yfirstétt geti hneppt brúnt eða svart fólk í fjötra af eigin geðþótta“. Þau lýsa frumvarpinu sem svo ómannúðlegu að hvert ákvæði vekji óhug.
Fulltrúar No Borders Iceland hafa óskað formlega eftir að gera grein fyrir umsögninni á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Umsögnina í heild má nálgast á vef Alþingis: Umsögn No Borders Iceland.

Komment