
Kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir eða Sigga Dögg eins og hún er gjarnan kölluð minnist vinar síns, Þorleifs Kamban Þrastarsonar, á fallegan hátt á Instagram-reikningi sínum en Þorleifur lést langt fyrir aldur fram fyrir stuttu.
Með færslunni birti Sigga Dögg ljósmyndir af vini sínum Þorleifi Kamban, sem lést á dögunum í Kaupmannahöfn, aðeins 43 ára að aldri. Segir hún að ljósið hafi ekki slökknað við andlát hans, heldur breyst:
„Elsku ljósið er ekki slokknað heldur breyttist bara úr ytra ljósi í innra ljós, það er hægt að tala um of fáar stundir og of fáar ljósmyndir og of lítinn tíma en ég get sagt með vissu í hjartanu að allar stundirnar með honum voru gæðastundir þar sem það var gott að dvelja í ljósinu hans.“ Þannig hefst hin hugljúfa færsla Siggu Daggar en hún segir Þorleif hafa verið bæði ljúfan og bjartan.
„Hann var svo ljúfur og bjartur og einlægur og opinn og það er kannski það erfiðasta við að vera ljósberi, ljós og skuggi dansa saman og eitt er ekki til án hins. En hann lifði og elskaði og var til - það er til eftirbreytni.“
Í lokaorðum sínum gerist Sigga Sögg einstaklega ljóðræn í tjáningu sinni á sorginni:
„Hann var svo fallega ófullkominn og opinn með bresti og brak í mennskunni sinni en hann vildi vera ljós og dansa í kærleika og það gerði hann svo sannarlega. Og öll ástin, svo mikil ást.
Og nú vantar ástinni faðmlag og hönd til að kreista og kinn til að kyssa og hár til að róta í en hún grípur í tómt. Öll ástin sem nú eru tár sem gufa upp og verða að fallegum snjókornum ❄️
Elsku vinur, ljósið þitt vermir og lýsir leiðina.
Takk fyrir ferðlagið🤍„

Komment