
Þungarokksunnendur á suðvesturhorninu eiga von á öflugri tónlistarupplifun fimmtudaginn 19. febrúar þegar haldið verður þungarokkskvöld í Hellinum í Tónlistarþróunarmiðstöðinni við Hólmaslóð á Granda. Þar stíga á svið Patronian, Duft, Ultra Magnus og Bergmenn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Kvöldið verður opnað af Bergmönnum, tríói ungra tónlistarmanna úr Grundarfirði sem deila mikilli ástríðu fyrir rokktónlist og hafa verið að láta að sér kveða.
Aðalnúmer kvöldsins er dauðarokksveitin Patronian, sem kemur sjaldan fram á tónleikum. Sveitin var stofnuð árið 2021 af Smára Tarfi, gítarleikara og söngvara, sem sneri þá aftur í þungarokksræturnar eftir ferðalag um ólíka tónlistarstíla. Fyrsta plata sveitarinnar, Stabbed with Steel, kom út haustið 2022 og vakti strax athygli, meðal annars með því að vera valin ein af tíu bestu plötum ársins hjá Scars & Guitars. Sveitin hefur hlotið lof fyrir beittar lagasmíðar og kraftmikla spilamennsku, og er því hér um einstakt tækifæri að ræða fyrir aðdáendur þungarokks.
Duft hefur verið á miklu flugi eftir útgáfu fyrstu plötu sinnar, Altar of Instant Gratification, vorið 2024. Sveitin leikur níðþunga blöndu af harðkjarna- og öfgarokki þar sem grimmur og þéttur hljóðheimur dregur upp dökka mynd af framtíð mannkynsins.
Ultra Magnus er þriggja manna stoner- og sludge-metal sveit frá Reykjavík, stofnuð árið 2021. Tónlist þeirra er innblásin af köldu og vindasömu veðurfari landsins og einkennist af þungri tónlist, hávaða og einbeittum flutningi.
Tónleikarnir fara fram í Hellinum í TÞM, Hólmaslóð 2. Húsið opnar klukkan 18 og fyrsta hljómsveit stígur á svið klukkan 19. Miðaverð er 2.990 krónur og engin aldurstakmörk eru á viðburðinum.

Komment