
Skipulögðum brotahópum á Íslandi hefur fjölgað um helming á síðustu tíu árum og eru þeir nú orðnir rótgróinn þáttur í íslensku samfélagi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi árið 2025.
Samkvæmt skýrslunni hefur starfsemi brotahópa stigmagnað síðustu fimm ár, meðal annars með aukinni tíðni og alvarleika ofbeldis, umfangsmeiri brotum og vaxandi aðsókn erlendra hópa hingað til lands. Þróunin heldur áfram þrátt fyrir aukna viðspyrnu lögreglu.
Helstu niðurstöður skýrslunnar sýna að brotahópar sem starfa hér á landi eru að mestu hagnaðardrifnir og fljótir að tileinka sér nýjar aðferðir. Þeir hagnýta oft ungmenni og aðra í viðkvæmri stöðu, og dæmi eru um að þeir leiti markvisst að umsækjendum um alþjóðlega vernd í búsetuúrræðum yfirvalda.
Netbrot eru í stöðugum vexti og er talið líklegt að þau verði stór hluti verkefna lögreglu innan fárra ára. Þá eru auknar vísbendingar um mansal, sérstaklega vændismansal sem tengist alþjóðlegum brotahópum. Jafnframt hafi vaxandi spenna í alþjóðamálum leitt til aukinna tengsla brotahópa við hryðjuverkahreyfingar og erlend ríki.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur mikilvægt að efla getu lögreglu til að bregðast við hraðri tækniþróun og fjölgun netbrota. Þá þurfi að leggja sérstaka áherslu á baráttu gegn peningaþvætti og styrkja rannsóknar- og greiningarvinnu á sviði skipulagðrar brotastarfsemi.

Komment