
Jódís Skúladóttir, fyrrverandi þingkona Vinstri grænna, fer hörðum orðum um bæði núverandi og fyrri ríkisstjórnir í færslu á Facebook þar sem hún segir að stjórnvöld hafi ítrekað brugðist Austurlandi, sérstaklega Seyðisfirði en í fyrradag kom í ljós að enn einu sinni stendur til að fresta Fjarðarheiðargöngum.
„Það skiptir engu máli hver stjórnar!“ skrifar hún og gagnrýnir síðustu ríkisstjórn fyrir að „klára ekki Axarveg og byrja á Fjarðarheiðargöngum“. Hún segir Framsókn, VG og Sjálfstæðisflokkinn hafa sýnt „fullkomið áhugaleysi“ gagnvart þessum verkefnum.
Hún sakar Framsókn um „siðlaust kjördæmapot“ og vísar til þess að Vegagerðin hafi „hundsað fjárveitingavaldið ítrekað“. Þá segir hún forystu VG hafa „sama og engan áhuga á landsbyggðinni“, meðal annars vegna „aðgerðarleysis þegar kom að rótspylltum fiskeldisáformum í Seyðisfirði“.
Um Sjálfstæðisflokkinn segir hún að flokkurinn hafi staðið vörð um hagsmuni stórútgerðar og laxeldisfyrirtækja: „hugmyndir þeirra um landsbyggðina virðist vera að allt utan suðurlandsundirlendisins geti bara verið verbúð farandverkafólks.“
Jódís gagnrýnir einnig harðlega núverandi ríkisstjórn, Viðreisn, Samfylkingu og Flokk fólksins, og segir hana ekki ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir: „Hún er að lengja í hengingaról íbúa og fresta því að starta þeim vélum sem eru tilbúnar að byrja.“
Hún beinir sérstaklega orðum sínum til Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra Viðreisnar: „Hvar eru nú fingrasmellir þínir og félagslegt réttlæti óháð búsetu kæri Eyjólfur?“
Jódís biður lesendur að setja sig í spor Seyðfirðinga, sem hún segir hafa orðið fyrir „stórum áföllum, hamförum, ofbeldi af hálfu stjórnsýslunnar og útgerðarinnar og aðför að íbúalýðræði.“
Hún minnir á að Seyðfirðingar hafi enga aðra leið úr firðinum í hamförum: „Það munaði svo litlu að fólk lokaðist inni þegar aurskriðurnar féllu.“
Að lokum segir hún: „Skömm íslenskra stjórnvalda, fyrr og nú, er mikil og þessi samgönguáætlun kórónar skeytingarleysi þeirra gagnvart íbúum Seyðisfjarðar og Austurlandi í heild sinni.“
Jódís tekur fram að hún hafi sjálf barist fyrir hagsmunum Seyðfirðinga á sveitarstjórnarstigi og sem þingmaður: „Ég firri mig ekki ábyrgð á vegferð fyrri stjórnar … en það verður aldrei um mig sagt að aðförin að Seyðisfirði úr öllum áttum … hafi verið í mínu nafni.“

Komment