Skrúfað var aftur frá vatnsskúlptúr á Hafnarstræti í sumar eftir langt hlé en hann hefur vakið mikla athygli vegfarenda í sumar. Viðbrögð fólks við listaverkinu hafa verið mismunandi en sumt fólk hefur haldið að um sprungnar pípur sé að ræða því listaverkið er ómerkt sem slíkt.
„Um er að ræða vatnsskúlptúr sem var hluti af framkvæmdum við endurgerð Hafnarstrætis á milli Pósthússtrætis og Tryggvagötu árið 2017,“ sagði Inga Rún Sigurðardóttir, sérfræðingur í samskiptum og miðlun hjá Reykjavíkurborg, um listaverkið við Mannlíf.
„Allt yfirborð götunnar var endurnýjað ásamt lögnum. Snjóbræðslukerfi var lagt í götur, gönguleiðir og torg og komið fyrir gróðri, gróðurkerjum og bekkjum. Fyrirtækið Grafa og grjót ehf. átti lægsta tilboð í endurgerð götunnar, 90,9 milljónir króna,“ segir Inga en tekur fram að sá kostnaður miðist við alla götuna.
„Vatnsskúlptúrinn var gerður samhliða þessum lagnaframkvæmdum."
Samkvæmt Ingu hafði verið skrúfað fyrir vatnið um langt skeið vegna framkvæmda við hús í götunni, sem hafa staðið yfir síðustu ár.

Komment