
Slökkvilið höfuðborgasvæðisins tilkynnti í gær að Björnis brunabangsi er væntanlegur til Íslands til að aðstoða við fræðslu og forvarnarstörf.
Björnis kemur frá Þrándheimi í Noregi og hefur verið gríðarlega vinsæll meðal allra aldurshópa í heimalandi sínu, samkvæmt tilkynningu slökkviliðsins. Þetta verður í fyrst sinn sem Björnis ferðast út fyrir Noreg en hann kemur með flugi til Íslands 19. ágúst.

Björnis mun aðstoða öll slökkvilið landsins við fræðslu og forvarnarstörf, sérstaklega fyrir yngstu kynslóðirnar. Sjónvarpsþættir um Björnis, eða Bjössa brunabangsa eins og hann er líka kallaður, eru sýndir á RÚV og hafa slegið í gegn.
„Um er að ræða stórt og metnaðarfullt verkefni sem stuðlar að bættum brunavörnum á heimilum landsins til framtíðar. Það hefur hlotið virkilega jákvæðar undirtektir og án aðkomu styrktaraðila hefði þetta verkefni ekki verið mögulegt. Björnis er spenntur fyrir nýjum heimkynnum,“ kemur fram í tilkynningu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Hér má sjá kynningarmyndband frá Noregi um Björnis brunabangs og störf hans:
Komment