
„Var að horfa á borgarstjóra í Kastljósi sem sent var út í gær. Er brugðið – eins og eflaust mörgum.“ Þannig hefst ný Facebook-færsla Sólveigar Önnu Jónsdóttur formann Eflingar. Í færslunni hjólar Sólveig Anna í Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarstjóra Reykjavíkur. Borgarstjórinn var í Kastljósi gærkvöldsins til að ræða hið alvarlega mál sem upp kom í leikskólanum Múlaborg en ríflega tvítugur karlmaður, starfsmaður leikskólans hefur nú verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn barni á leikskólanum
Sólveig Anna, sem vann í áratug á leikskóla, furðar sig á orðum borgarstjórans um að vanalegt sé að starfsfólk sé undir sérstöku eftirliti á leikskólum.
„Borgarstjóri talar eins og það sé alvanalegt að starfsfólk leikskólanna sé undir eftirliti við störf. Ég vann 10 ár í leikskóla og er í miklum samskiptum við starfsfólk leikskóla. Ég kannast ekki við að þá sé alvanalegt að starfsfólk sé undir sérstöku eftirliti. Ég spyr: Hversvegna er starfsfólk leikskóla undir sérstöku eftirliti – hvað þarf að gerast til að starfsmaður fari undir eftirlit? Hvað hafa margir sem að vinna á leikskólum borgarinnar verið undir eftirliti á síðustu árum og hversvegna? Hver sér um eftirlitið og hvernig er því háttað?“
Þá segir verkalýðsforkólfurinn að sérstakar atvikaskrár séu til á leikskólum og að Reykjavíkurborg hljóti að vera með á hreinu hvaða starfsmenn hafi verið undir sérstöku eftirliti við störf sín með börnum.
„Inn á leikskólunum eru haldnar atvikaskráningar þegar/ef eitthvað kemur uppá; borgin hlýtur að vera með skráningu um það hvaða starfsmenn leikskóla, sem eru mikilvægustu stofnanir samfélagsins, eru undir sérstöku eftirliti við störf með börnun og hvað varð til þess að eftirlitið var sett á.“
Þá segir Sólveig Anna það einfaldlega rangt, það sem Heiða Björg hafi haldið fram í Kastljósinu, að starfsfólk sé aldrei eitt með börnum.
„Borgarstjóri talar eins og starfsfólk sé aldrei eitt með börnum. Ég veit af eigin reynslu og af samtölum við fjölmargt starfsfólk leikskólanna að fólk vill alls ekki vera eitt með börnum, það er erfitt og stressandi. En staðreyndin er sú að vegna þess að mannekla er viðvarandi vandamál er starfsfólk stundum eitt með hópi barna. Það er erfitt að lenda í slíkri stöðu og auðvitað aðeins fyrir færasta fólk með mikla reynslu að tækla án þess að upplifa mikla streitu.“
Segir hún borgina bera ábyrgð á slíku ástandi og bendir á grein þriggja leikskólakennara um ástandið á leikskóla borgarinnar.
„Þarna er ekki við starfsfólk eða stjórnendur leikskóla að sakast – þarna ber borgin alla ábyrgð á því að reka leikskólakerfið okkar með viðvarandi niðurskurðarkröfu og með því að innleiða styttingu vinnuvikunnar án þess að bæta við fjármagni í kerfið svo hægt sé að tryggja góða mönnun og gott starfsumhverfi. Ég bendi á frábæra og sláandi grein eftir þrjá leikskólastjóra sem að birtist í maí, þar sem það ófremdarástand sem ríkir á leikskólum borgarinnar vegna manneklu er rakið með málefnalegum og ítarlegum hætti. Sjá hér:
https://www.visir.is/.../um-styttingu-vinnuvikunnar-i...“
Sólveig Anna segir því næst að versta martröð foreldra sem og leikskólastarfsmanna hafi nú raungerst og að öllum sé því mjög brugðið yfir fréttunum. Furðar hún sig á það sem hún kallar „fjarveru pólitískrar forystu borgarinnar í umræðunni.“
„Okkur er öllum er mjög brugðið yfir fréttum síðustu daga. Það sem gerst hefur er versta martröð foreldra og líka versta martröð þeirra frábæru einstaklinga sem að halda leikskólum samfélagsins gangandi með þrotlausri vinnu. Við erum öll sorgmædd yfir því að þetta hafi getað gerst. Ég hef verið undrandi á fjarveru pólitískrar forysta borgarinnar í umræðunni. Mér hefur þótt skrítið að ekki séu send skýr skilaboð úr borgarstjórn, skilaboð um sorg, áhyggjur og samhyggð með fólkinu sem á um sárt að binda. En eftir að hafa hlustað á borgarstjóra í Kastljósi er undrun mín meiri en áður. Engin svör, lítil sem engin innsýn eða þekking á kerfinu sem um ræðir, afvegaleiðing í þeim tilgangi að láta ástandið líta betur út en það raunverulega er; frammistaðan var fyrir neðan allar hellur. Við sem að á hlýddum hljótum flest að hafa meiri áhyggjur af ástandinu en áður, og voru þær þó verulegar.“
Að lokum segir foringi Eflingar að þeir sem sækist eftir völdum verði að geta axlað ábyrgð í málum sem þessum. Segir hún borgarstjórann ekki vera þannig einstakling.
„Einstaklingar sem að sækjast eftir miklum völdum verða að geta axlað mikla ábyrgð. Þeim ber skylda til að hafa innsýn í kerfin sem þeir vilja stjórna, sýn á það hvernig kerfin eiga að virka, svo að hægt sé að bæta það sem bæta þarf hverju sinni, og getu og vilja til að framkvæma slíkar umbætur. Þegar ég hlustaði á borgarstjóra ræða það grafalvarlega mál sem upp er komið og það ástand sem ríkir í leikskóla-kerfi samfélagsins upplifði ég ekki að ég væri að hlusta á slíkan einstakling.“
Komment