
Hildur Friðriks, móðir 15 ára drengs í 10. bekk á Akureyri lýsir miklum áhyggjum af stöðugu einelti sem sonur hennar hefur orðið fyrir um árabil. Í opinskárri Facebook-færslu segir hún drengurinn hafa listræna hæfileika, mikinn sköpunarkraft og áhuga á leiklist, tónlist og myndlist, en á sama tíma glími hann við ADHD, misþroska, málþroskaröskun, mótþróaþrjóskuröskun og ógreindan genagalla.
Drengurinn, sem heitir Erik, hefur unnið að tónlist, stuttmyndum og teiknimyndasögum og dreymir um að eignast vini. Samkvæmt móðurinni hefur það reynst erfitt vegna þess að hann á í erfiðleikum með félagsleg samskipti og túlkun þeirra.
Í færslunni segir móðir hans að hann hafi orðið fyrir bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi og þurft að þola móðganir, hótanir og sár orð á samfélagsmiðlum. Sum skilaboð hafi verið svo alvarleg að hann hafi hringt í neyðarlínuna.
„Hann hefur lent i allskonar árásum líkamlega og andlega, ég hef þurft að taka af honum samskiptamiðla sem ég fylgist með og símann, vegna ógeðslegra skilaboða sem hafa hrætt hann það mikið að hann hefur hringt i neyðarlínuna.“
Erik byrjaði í nýjum skóla í haust sem móðirin segir að mæti honum betur en fyrri skólinn. Þrátt fyrir það hafi eineltið haldið áfram og að krakkarnir fundið nýjar leiðir til að beita hann sálrænu ofbeldi. Drengnum hafi meðal annars verið sagt að „hverfa“, „drepa sig“, að enginn vilji vera vinur hans og að hann „ætti ekki heima hér“. Einnig hafi honum verið strítt fyrir að leika við yngri frændsystkini og kallaður „barnaperri“ vegna þess .
Móðirin segir að krakkar hafi jafnvel blekkt hann til að mæta á opin hús og böll í þeim tilgangi að gera grín að honum. Hann hafi alltaf komið heim eftir örfáar mínútur og þorir nú ekki lengur að taka þátt.
„Hvað er næsta skref hjá móður og barni sem hafa barist fyrir hans tilverurétt?? Get sagt það að við bæði erum brotin, sár og reið, hvað næst? Ég mun halda áfram að styrkja son minn og vona að samfélag af okkar ungmennum muni verða betri i að virða fjölbreytileika, foreldrar talið við börnin ykkar. Kveðja mjög svo búin sár móðir “ skrifar Hildur að lokum.

Komment