Jónas Már Torfason lögfræðingur hefur boðið sem fram til að leiða lista Samfylkingarinnar í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum.
„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og sækist því eftir fyrsta sæti í prófkjöri sem fer fram þann 7. febrúar,“ segir í tilkynningu frá Jónasi.
„Hér í Kópavogi ólst ég upp og hingað fluttum við fjölskyldan aftur heim eftir dvöl erlendis. Það er vissulega gott að búa í Kópavogi. En það er rými til bóta. Fyrir nýja forgangsröðun, nýja sýn og nýja forystu. Umræðan verður oft stór á vettvangi stjórnmálanna en lífið á sér stað í hversdagsleikanum. Þar á áherslan að vera, á daglegt líf Kópavogsbúa. Raunverulegar lausnir í þjónustu svo bæjarbúar geti einbeitt sér að því sem skiptir máli – að lifa sínu lífi í samfélagi við fjölskyldu sína, vini og nágranna.“
Foreldrar Jónasar eru Torfi F. Jónasson læknir og Alma Möller, heilbrigðisráðherra.
Bergljót Kristinsdóttir er eini bæjarfulltrúi flokksins í dag í Kópavogi en hún hefur gefið út að hún muni ekki bjóða sig aftur fram.


Komment