
Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins segir atkvæðagreiðslu Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU vera ófullnægjandi afgreiðslu á tillögu RÚV og þeirra ríkja sem beindu því til EBU um að víkja Ísrael úr keppninni í ár.
Sagt var frá því í fréttum í dag að EBU hafi samþykkt að leyfa Ísrael að taka þátt í Evrovision-söngkeppninni í ár, þrátt fyrir þjóðarmorð sem ríkið hefur framið á Palestínumönnum á Gaza, líkt of fjömargir sérfræðingar hafa komist að. Á miðvikudaginn mun stjórn RÚV funda og ákveða hvort Ísland verði í hópi þeirra þjóða sem draga sig úr keppninni til að mótmæla þátttöku Ísraels. Þau lönd sem dregið hafa sig úr keppninni eru Holland, Spánn, Írland og Slóvenía.
Mannlíf hafði samband við Stefán Jón Hafstein, stjórnarformann Ríkisútvarpsins og spurði hann út í niðurstöðu EBU.
„Stjórn Rúv samþykkti að beina því til EBU að víkja Ísrael úr keppninni og fleiri útvarpsstöðvar voru sama sinnis. Slík tillaga kom ekki til afgreiðslu hjá EBU, þess í stað var látið nægja að bera upp tæknilegar leiðir um atkvæðagreiðslu í söngvakeppninni sjálfri sem kemur þátttöku Ísraels ekkert við,“ segir Stefán Jón í skriflegu svari til Mannlífs.
Bætir hann við að um sé að ræða ófullnægjandi afgreiðslu EBU og segir það vekja athygli að ráðamenn Ísraels þakki sambandinu „fyrir samhug í verki“.
„Þetta er því ófullnægjandi afgreiðsla á tillögu okkar og fleiri. Stjórn RÚV kemur saman næsta miðvikudag og þá má vænta niðurstöðu af eða á um hvort stjórnin telji rétt að vera með 2026. Það vekur athygli að helstu ráðamenn Ísraels á pólitíska sviðinu þakka nú EBU fyrir samhug í verki.“

Komment