
Jean-Rémi Chareyre, verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands, er allt annað en sáttur við hvernig hugsað er um hjólastíga og gangstéttir á Íslandi en hann fjallar um málið á samfélagsmiðlum.
„Í einfeldni minni hélt ég einhvern tímann að hjólastígar og gangstéttir á Íslandi væru hugsuð sem alvöru samgönguinnviðir fyrir gangandi og hjólandi (svona eins og nafnið virðist benda til),“ skrifar Chareyre.
„En fljótlega fór ég að átta mig á því að um meiriháttar misskilning væri að ræða: hjólastígar og gangstéttir ættu með réttu að fá nafngiftina "snjógeymslusvæði", en snjómokstur virðist virka þannig að verktakar moka snjóinn af götunum, svo að alvöru fólkið á bílunum komist leiðar sinnar, og sturta honum síðan á göngu- og hjólastígar sem eru, eins og allir vita, bara fyrir aumingja.“
Hann segir að hjóla- eða gönguferðir verði fyrir vikið eins og að klífa Everest-fjallið á fimm mínútna fresti og birtir hann myndir máli sínu til stuðnings.
„En þar sem ég veit að Íslendingar eru mikið fyrir nýsköpun, hvernig væri nú að fara í smá félagslega nýsköpun og snúa dæminu við: næst þegar snjóar skulum við biðja verktakana um að moka snjóinn upp af göngu- og hjólastígum og dömpa honum síðan þvert á Miklubrautina,“ heldur hann áfram.
„Eru ekki allir til í það?“ spyr verkefnastjórinn í lokin.

Komment