
Sundhöll Reykjavíkur verður áfram lokuð en greint er frá þessu í tilkynningu frá borginni. Ástæðan er tafir vegna framkvæmda samkvæmt tilkynningunni.
Snorri Örn Arnaldsson, forstöðumaður Sundhallarinnar segir verkið hafa reynst umfangsmeira en áætlað var í upphafi. „Atriði sem við töldum að væru í lagi reyndust þurfa á viðgerð að halda. Þegar búið var að tæma úr öllum kerjum hjá okkur kom ýmislegt í ljós og hafa starfsmenn laugarinnar og iðnaðarmenn unnið hörðum höndum alla vikuna, og munu halda áfram næstu daga.“
Til stóð að opna laugina aftur mánudaginn 25. ágúst en nú er ljóst að verkið mun dragast um nokkra daga.
Snorri Örn segir allt kapp lagt á að ljúka viðgerðum sem fyrst og þakkar gestum fyrir jákvæðni og skilning á umfangi framkvæmda. „Við hlökkum til að taka á móti gestum á ný í endurbættri Sundhöll.“
Komment