
Undarlegur aðskotahlutur í tilbúinni súpu hefur verið til umræðu á Facbeook frá því í gær.
Margrét Sigríður Jóhannsdóttir birti færslu inni á Facebook-hópnum Matartips! sem vakið hefur sterk viðbrögð.
Margrét birti þar ljósmyndir af því sem hún segir hafa verið klósettpappír, en hugsanlega handþurrka, sem hún hafi fundið í Mexíkóskri kjúklingasúpu sem seld er undir vörumerki Krónunnar.

„Ég var að hræra í kjúklingasúpu, setti hálfan pela af rjóma útí og smakkaði til.. dró svo þennan dýrindis klósettpappír uppúr súpunni og ekkert smá magn af honum,“ skrifaði Margrét við myndina. „Er búin að vera að kúgast síðan. Hafa fleiri lent í þessu með súpur frá Krónunni? Kvöldmaturinn fór svo sannarlega í vaskinn þetta kvöldið.“
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og þótti mörgum ef ekki öllum þetta afar ógeðfellt. Sagði Margrét sjálf í einni athugasemdinni að hugsanlega gæti þetta hafa verið handþurrka, en að það sé þó nógu slæmt.
Í samtali við Mannlíf sagðist Margrét hafa kúgast fram á kvöld vegna atviksins.
„Við höfðum strax samband við Krónuna og sendum þeim tölvupóst með myndum. Ég missti matarlystina og kúgaðist restina af kvöldinu við tilhugsunina um að ég hafi smakkað súpuna.“
Sagði hún að Krónan hefði brugðist strax við ábendingunni. „Krónan brást strax við og tók þetta alvarlega, sóttu pakkninguna til mín í morgun og þetta er komið inn á borð til gæðaeftirlits Krónunnar.“
Að lokum segir Margrét að hún vilji að málið verði rannsakað til að koma í veg fyrir að hið sama hendi annað fólk
„Ég vil að þetta sé rannsakað svo annað fólk lendi ekki í þessu. Þeir ætla að rannsaka málið hvað hefur geta ollið þessu. Þetta er leiðindar atvik og á ekki að geta gerst þegar um matvæli er að ræða.“
Mannlíf hafði samband við gæða- og ferlastjóra Krónunnar í morgun, sem kvaðst ekki kannast við málið, en ætlaði að kanna það betur og bað um að hringt yrði í sig aftur síðar. Ekki hafa enn fengist upplýsingar um málið frá Krónunni.
Uppfært:
Krónan harmar atvikið og segir að um mannleg mistök sé að ræða við pökkun.
Hér má lesa skriflegt svar frá Krónunni:
„Okkur hjá Krónunni þykir mjög miður að umrætt atvik hafi átt sér stað en um er að ræða mannleg mistök við pökkun hjá framleiðanda. Við gerum fastlega ráð fyrir að um einangrað tilvik sé að ræða en til að taka af allan vafa og gæta fyllsta öryggis er innköllunarferli hafið á þessu lotunúmeri.
Við leggjum mikla áherslu á öryggi og gæði og tökum þetta mjög alvarlega. Framleiðandi mun yfirfara og uppfæra ferla með starfsfólki sínu til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Við höfum verið í samskiptum við viðkomandi viðskiptavin og þökkum honum kærlega fyrir ábendinguna. Við biðjum viðskiptavini okkar innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.“
Komment