
Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir það mjög skrýtið að hefðbundnir borgaralegir hægriflokkar í Evrópu hafi enn ekki gripið til mun harðari aðgerða í útlendingamálum en þeir hafi gert hingað til.
Að mati Hannesar Hólmsteins er almenningur afar ósáttur við þetta aðgerðarleysi í þessum málaflokki; og mögulega skýrir það meðal annars uppgang popúlískra hægriflokka í Evrópu.
Hannes Hólmstein segir innflytjendur alls ekki vera vandamál - heldur sé vandamálið það að fólk frá öðrum menningarheimi, sem Hannes Hólmsteinn telur vera fjandsamlegt vestrænum gildum, flykkist nú í meira mæli en áður til Evrópu, en þetta og ýmislegt annað í viðtalinu kemur fram í þætti Dagmála.
Ef marka má nýlegar skoðanakannanir eru stjórnmálaflokkar er margir skilgreina sem popúlíska í fararbroddi á Englandi, Þýskalandi, Frakklandi sem og Ítalíu.
Spurður um þessa þróun segir Hannes að venjulegir hægriflokkar séu orðnir fjarlægir almenningi:
„Það er að einhverju leyti þetta fína fólk sem er í þessum hefðbundnu hægriflokkum. Það er menntað um allan heim, fer á fyrsta farrými til Brussel, kann skil á rauðvínstegundum og lifir í dálítið öðrum heimi heldur en venjuleg alþýða. Við viljum ekki að það komi inn andstæðingar vestrænnar menningar og taki yfir okkar þjóðfélög, fyrir utan að lifa á bótum frá okkur, stunda glæpi og kúga konur,“ segir Hannes Hólmsteinn sem leggur ríka áherslu á að hann sé algjörlega hlynntur innflytjendum; talar sérstaklega um Litháa og Pólverja, sem að hans mati hafa lagt mikið af mörkum til íslenska hagkerfisins.
Hins vegar segist Hannes Hólmsteinn hafa miklar áhyggjur af miklum fjölda fólks er flykkist nú til Evrópu frá menningarheimum sem standi í andstöðu við vestræn gildi:
„Það sem er að gerast er að fólk er að flykkjast til Evrópu frá menningarheimi sem er fjandsamlegur vestrænum gildum, þar sem ofbeldismenning, kúgun kvenna og tilraun til að komast hjá vinnu er talin góð og gild. Það er þetta sem er vandamálið.“
Að hans mati hafa borgaralegir flokkar alls ekki áttað sig á því að almenningur sé verulega andsnúinn innflutningi á fólki er berjist gegn vestrænni menningu og af þeim sökum hafi popúlistaflokkar sett þessi mál á oddinn og náð góðri fótfestu.
„Við viljum ekki að það komi inn andstæðingar vestrænnar menningar og taki yfir okkar þjóðfélög, fyrir utan að lifa á bótum frá okkur, stunda glæpi og kúga konur,“ segir Hannes Hólmsteinn sem segir eðlilegt að almenningur leiti til popúlískra flokka þegar venjulegir flokkar bregðist fólki og bendir hann á að á Norðurlöndum hafi nýlegir hægriflokkar verið teknir inn í stjórnarsamstarf og sjónarmið þeirra algjörlega viðurkennd.
„Þannig að þetta sjónarmið er núna viðurkennt á Norðurlöndum. En ég er hræddur um að svo sé ekki í Bretlandi, og þá mun almenningur rísa upp,“ sagði Hannes Hólmsteinn að endingu
Komment