
Eftir þriggja ára hlé snýr Leonard Cohen-tribute hljómsveitin The Saints of Boogie Street aftur á svið með tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði þann 6. nóvember, þar sem fluttar verða helstu perlur meistarans. Með hljómsveitinni á tónleikunum munu koma fram leikarinn Jóhann Sigurðarson og Margrét Hannesdóttir sópran.
Hljómsveitin var stofnuð árið 2010 af söngkonunni Soffíu Karlsdóttur, sem hefur verið drifkrafturinn á bak við verkefnið frá upphafi en árið 2011 kom út platan Covered með hljómsveitinni en þá söng Esther Jökulsdóttir með Soffíu. Á tónleikunum verða flutt klassísk Cohen-lög í nýjum búningi.
Í hljómsveitinni eru:
- Pétur Valgarð Pétursson, tónlistarstjóri og gítarleikari
- Soffía Karlsdóttir, söngur
- Kristinn Einarsson, píanó
- Davíð Atli Jones, bassi
- Eysteinn Eysteinsson, trommur
Bakraddir flytja Eysteinn Eysteinsson, Margrét Hannesdóttir og Soffía Karlsdóttir.
Auk Cohen-efnisins hyggst Soffía kynna sérstaka Bubba Morthens-tribute dagskrá, sem hefur verið sett upp þrisvar sinnum á árinu í tilefni þess að plata Bubba Kona fagnar 40 ára afmæli. Þar flytur hún lög af plötunni ásamt eigin uppáhalds Bubba-lögum, og segir hún að verkefnið muni halda áfram eftir áramót.
Soffía Karlsdóttir hefur tekið þátt í fjölmörgum tónlistar- og leiklistarverkefnum í gegnum árin. Hún hefur m.a. sungið í Borgarleikhúsinu í Söngvaseið og Mary Poppins, leikið í Kabarett í Íslensku óperunni, komið fram í Spaugstofunni og Stundinni okkar, auk þess að syngja í kvöldverðarleikhúsinu Le Sing og starfa sem veislustjóri með uppistandi og söng.

Komment