Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á sérstökum aukafundi að frumkvæði Íslands til að fjalla um alvarlega stöðu mannréttinda í Íran í kjölfar víðtækra mótmæla í landinu undanfarið en þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Ísland leiddi ákall um aukafundinn í samstarfi við kjarnahóp ríkja sem leiða árlega ályktun um stöðu mannréttinda í Íran. Fundurinn fer fram 23. janúar nk. kl. 14:00 að staðartíma í Genf.
„Ég hef miklar áhyggjur af því skelfilega ástandi sem ríkir í Íran og fordæmi harðlega dráp stjórnvalda á mótmælendum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Þessi aukafundur mannréttindaráðsins sendir skýr skilaboð til yfirvalda í Íran um að alþjóðasamfélagið hafni afdráttarlaust því gegndarlausa ofbeldi sem almenningur hefur mátt sæta fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsi sitt til friðsamlegra mótmæla. Þessu ofbeldi verður að linna og það strax.“


Komment