
Atli Þór Fanndal, verkefnastjóri á skrifstofu rektors Háskólans á Bifröst, segir blekkingu að halda að til séu svokallaðir „Trump-hvíslarar“ eða að hægt sé að lesa í hegðun og ákvarðanir Donald Trump með hefðbundnum pólitískum greiningum.
Í Facebook-færslu sinni sem hann birti í gær segir Atli Þór að enginn skilji í raun hvað Trump ætli sér og þeir sem segist geta séð fyrir næstu skref hans séu annaðhvort að blekkja sjálfa sig eða aðra:
„Það eru engir Trump hvíslarar til og það er enginn sem skilur hvað maðurinn er að fara. Þeir sem þykjast geta séð fyrir eða lesið í hann eru annað hvort að ljúga að sjálfum sér eða ljúga að þér.“
Atli Þór segir Trump ekki fylgja neinni pólitískri hugmyndafræði í hefðbundnum skilningi heldur lýsir hegðun hans sem birtingarmynd alvarlegs persónuleikavanda:
„Trump er veikur. Hann meinar það sem hann segir þegar hann segir það. Þegar hann segir eitthvað annað þá meinar hann það. Það er ekki hægt að halda sig til hlés. Það er ekki hægt að gera honum til geðs og það er ekki hægt að skilja einhverja djúpa strategíska meiningu í neinu. Þetta er ekki pólitísk hugmyndafræði heldur persónuleikaröskun.“
Hann segir að reynsla fólks sem hafi átt í samskiptum við slíka hegðun sýni að engin hefðbundin samskiptaaðferð virki:
„Allir sem hafa átt í samskiptum við þessa persónuleikaröskun vita að ekkert samtal, engin eftirgjöf, undirlægjuháttur, hrós, gjafir, ást, þolinmæði eða þögn virkar.“
Atli Þór lýsir því jafnframt hvernig hann telur slíka einstaklinga knúna áfram af innri tómleika og þörf fyrir athygli og vald:
„Þessir einstaklingar eru tómir að innan, fullir af minnimáttakennd sem þeir verja með grandiose egoi. Þeim leiðist hratt og enginn er nokkurntíman nægilega trúr þeim til að lifa af. Krísan er tilgangurinn. Lausn á henni þýðir minni athygli og minna vald. Minna supply.“
Að hans mati sé engin raunhæf leið til að gera Trump „meðfærilegan“ og allar tilraunir til þess dæmdar til að mistakast:
„Það tekur tíma en það er ekkert scenario þar sem Trump verður meðfærilegur.“
Hann segir jafnframt að MAGA-hreyfingin sé ekki pólitísk stefna heldur eins konar trúarlegt költ sem byggist á persónudýrkun:
„Aftur, MAGA er ekki pólitísk hugmyndafræði heldur költ utan um persónuleikaröskun.“
Atli Þór bætir við að slíkt költ eigi auðvelt með að festa rætur þar sem undirgefni gagnvart „sterkum leiðtogum“ sé rík og ótti mikill:
„Költið finnur sér kjörlendi meðal þeirrar pólitísku hugmyndafræði þar sem undirlægjuhátturinn við strong men er mest, krafan um hlýðni er mest og þar sem hræðslan er mest.“
Í lok færslunnar beinir hann sjónum sínum að Kanada og lofar forsætisráðherra landsins fyrir að láta ekki undan og birtir hlekk frá ræðu forsætisráðherrans.
„Forsætisráðherra Kanada er stjarna ársins! Það er ekki hægt að sleikja sig í gegnum þetta.“

Komment