
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi fjölmiðlakona, svarar Snorra Mássyni varaformanni Miðflokksins harðlega eftir að hann gagnrýndi hana opinberlega fyrir ummæli í Silfrinu á RÚV um læsi og fylgisaukningu Miðflokksins.
Snorri gagnrýndi Þóru opinberlega á Facebook þar sem hann sakaði hana um óvirðingu gagnvart kjósendum Miðflokksins. Hann túlkaði ummæli hennar í Silfrinu, þar sem hún velti fyrir sér hvort aukið fylgi flokksins gæti tengst „bágu læsi“ í samfélaginu, sem merki um að hún liti á stuðningsmenn flokksins sem illa upplýsta. Tíundar Snorri síðan hvað hann telji vera ástæðuna fyrir auknu fylgi flokksins, meðal annars bág staða ungs fólks.
Í svari sínu segir Þóra að ummælin hafi ekki verið sértæk gagnrýni á Miðflokkinn eða kjósendur hans, heldur á breiðari þróun í lýðræðisumræðu og áhrif hnignunar fjölmiðla.
„Ég var nú reyndar ekki bara að tala um miðflokkinn heldur alla miðflokka heimsins og afhverju ungt fólk er að hneigjast til einangrunarhyggju í alþjóðamálum, fordóma gegn hinsegin fólki og afneitunar á loftslagsvísindi,“ skrifar hún.
Þóra segir Snorra hafa rangtúlkað orð sín og sakar hann og aðra stjórnmálamenn um að nýta umræðuna til að vekja ótta og ýta undir sundrungu:
„Nú geta stjórnmálamenn makað krókinn með allskonar fullyrðingum og sannleikurinn hittir þá aldrei fyrir. Það er bara lítið brot eftir af hefðbundinni fjölmiðlun. Við hlutverki þeirra eru teknir karlarnir í kassanum, sem básúna skoðanir sínar, einir og ótruflaðir undir drynjandi lófataki í,“ segir hún og bætir við: Við fáum sjaldnast heildarmyndina, bara glamur, gífuryrði og breiðar fyrirsagnir. Þetta litar öll stjórnmálin og alla umræðuna en gerir popúlistum sérlega auðvelt fyrir og þeim sem vilja gera út á fordóma og hræðslu.“
Þóra tekur þó undir að ungt fólk standi frammi fyrir raunverulegum efnahagslegum áskorunum, en hafnar því að flóttafólk, hinsegin samfélagið eða loftslagsvísindi séu sökudólgar:
„En ég er sammála Snorra um það að það má ekki gleyma efnahagslegum áskorunum sem ungt fólk strendur frammi fyrir. En ungt fólk hefur fyrr staðið frammi fyrir áskorunum án þess að ráðast á fólk á flótta og kenna því um allt sem miður fer, grafa undan tilveru og sjálfsmynd hinsegin fólks og hatast út í loftslagsvísindi og hættuna sem við stöndum frammi fyrir.“
„Það er alveg pláss fyrir hvassa gagnrýni án þess að hafa rangt við,“ segir Þóra að lokum en bætir síðan við: „Og þá stendur eftir samkenndin eða skortur á henni sem Písa kannanir hafa leitt í ljós og hún er kannski alvarlegust.
Harðasta vókið var svo sannarlega orðið óþolandi enda var samkenndin þar líka lítil og aðallega refsigleði. Unga fólkið á samt skilið betri fyrirmyndir ef við keflinu taka dæmigerð hvít, heterónormatív karlkyns fórnarlömb eins og Snorri sem ráðast á þá sem standa höllum fæti en kalla svo í sérsveitina til að bía sér í svefn þegar þeim er svarað í sömu mynt.“

Komment