
Þórir Þorsteinsson prentari og fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, er látinn, 92 ára að aldri.
Þórir fæddist í Reykjavík 11. september 1933 og lést á Hrafnistu Laugarási 27. nóvember 2025. Foreldrar hans voru Jónína Dagný Albertsdóttir (f. 1904, d.1977) og Þorsteinn Þorvarðarson (f. 1899, d.1934). Systur hans voru Steinunn (f. 1923, d. 2003) og Margrét (f. 1925, d. 2000). Morgunblaðið greindi frá andlátinu.
Hinn 19. nóvember 1955 kvæntist Þórir eiginkonu sinni, Önnu Jónu Óskarsdóttur, f. 25. desember 1932. Börn þeirra eru fjögur:
Ingibjörg (f. 1954), og börn hennar: Hrafnhildur (f. 1977), Hjörtur (f. 1979), Þórunn (f. 1985) og Þórir (f. 1986).
Dagný (f. 1958), gift Kjartani Páli Einarssyni, og dætur þeirra: Önnu Jónu (f. 1985), Auði (f. 1991) og Hildi Björg (f. 1994).
Auður Ósk (f. 1961), gift Eyjólfi Jónssyni, og synir þeirra: Snæbjörn Þórir (f. 1993) og Þorsteinn Orri (f. 1997).
Óskar (f. 1966), kvæntur Ástu Eyjólfsdóttur, og synir þeirra: Eyþór Gísli (f. 1995) og Einar Már (f. 1998).
Barnabarnabörnin eru alls tuttugu.
Þórir hóf nám í prentiðn ungur og lauk sveinsprófi í setningu í nóvember 1956. Hann gekk til liðs við Morgunblaðið árið 1959 og starfaði þar allt til starfsloka, lengst af við útlitshönnun.
Á yngri árum spilaði Þórir handbolta með KR og á að baki landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann varð Íslandsmeistari árið 1958 og átti í 23 ár markamet félagsins í einstökum leik, 16 mörk, sett árið 1959.
Þórir bjó alla ævi í Reykjavík. Hann og Anna Jóna ferðuðust mikið saman, áttu ánægjulegar stundir í útivist og sinntu hestamennsku um árabil áður en golfið tók við síðar á ævinni.
Útför Þóris hefur þegar farið fram í kyrrþey, í samræmi við óskir hans.

Komment