Róbert Marshall hefur tekið við stöðu aðstoðarmanns Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra en greint er frá þessu í tilkynningu frá borginni.
Þar segir að Róbert hafi verið upplýsingafulltrúi rikisstjórnarinnar meginhluta áranna 2020 og 2021 á meðan Covid 19 gekk yfir. Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist á þing árið 2009.
„Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og fyrrverandi forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum og er stúdent frá framhaldsskólanum þar.
Á þingi gegndi hann meðal annars þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði,“ stendur í tilkynningunni.
Samkvæmt tilkynningunni hefur Róbert störf á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í dag.
Róbert verður þriðji aðstoðarmaður Heiðu á árinu en Katrín M. Guðjónsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson störfuðu sem aðstoðarmenn hennar á minna en þrjá mánuði
Komment