
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt þrjá erlenda ríkisborgara í fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot vegna innflutnings á 1.380 millilítrum af kókaínbasa til Íslands í maí síðastliðnum.
Samkvæmt dómnum fékk hinn 32 ára gamli Ivan Santoro þá Demmis Hertzel Araújo, 49 ára, og Salvatore Scarlino, 36 ára, til að flytja fíkniefnin hingað til lands með flugi frá Alicante á Spáni til Keflavíkurflugvallar. Efnin voru falin í snyrtivörubrúsum í farangri þeirra. Araújo hafði 480 ml af kókaínbasa í fórum sínum en Scarlino 900 ml. Styrkleiki efnisins var 50–52% og ætlaður til söludreifingar í ágóðaskyni.
Allir þrír játuðu sök við þingfestingu málsins og samþykktu upptökukröfur ákæruvaldsins.
Dómurinn taldi Araújo og Scarlino hafa verið leigða sem burðardýr sem ekki hefðu tekið þátt í skipulagningu innflutningsins að öðru leyti en að flytja efnin gegn greiðslu. Santoro var hins vegar talinn helsti aðili að innflutningnum.
Refsing Santoro var ákveðin 13 mánaða fangelsi en Araújo og Scarlino fengu hvor um sig 10 mánaða fangelsisdóm. Til frádráttar kom óslitið gæsluvarðhald þeirra frá 3. maí 2025.
Jafnframt var fallist á upptöku kókaínsins sem og þriggja farsíma sem lagt hafði verið hald á. Þá voru ákærðu dæmdir til að greiða rúmlega 700 þúsund króna sakarkostnað auk verjendakostnaðar, sem nam tugum milljóna króna samtals.
Dómurinn var kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
Komment