Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, er húsasmiður að mennt. Eftir útskrift vildi hann verða sjálfstæður smiður og sinn eigin herra og vann við það í nokkur ár að taka að sér ýmiss konar smíðaverkefni. Verslun og þjónustustörf toguðu þó í hann. Hann fann fyrir þörf til að vera frekar innan um fólk heldur að vera einn að smíða og 24 ára gamall hóf hann störf hjá heildverslun við að selja handverkfæri fyrir iðnaðarmenn.
Æskuvinur hans, Ólafur Björnsson, spurði svo hvort hann hefði áhuga á að stofna með sér og einum til viðbótar, Guðmundi Rafni Bjarnasyni, heildverslun með matvörur og sjá um sölumennskuna þar sem hann hafði þekkingu á henni og markaðnum.
Magnús Óli sló til og hefur Innnes verið starfrækt frá árinu 1987.
„Ólafur stýrði félagi í byggingarbransanum fyrir föður sinn og við sáum að þessi fasteigna- og byggingamarkaður er svolítið óstöðugur. Hann er annað hvort í efstu hæðum eða í lægðum. En matvaran er eitthvað sem er stöðugt. Þannig að við ákváðum að byrja að fara vestur um haf og flytja inn vörur frá Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir því að við fórum þangað er að við sáum að það var ekki mikið framboð af vörum þaðan.“
Í fyrstu matvörusendingunum voru til dæmis Hunts-vörur, Peter Pan-hnetusmjör, LaChoy-sojasósur og Wesson-olíur. Árið 1989 bættust til dæmis við Filippo Berio-ólífuolíur.
„Okkur hefur tekist að halda vel á þessum viðskiptasamböndum við þessi fyrirtæki og er gaman að segja frá því að Innnes er á meðal elstu viðskiptavina fyrirtækjanna Conagra, sem framleiðir til dæmis Hunts-tómatsósurnar, og Salov sem á Filippo Berio þótt fyrirtækin séu rúmlega 100 ára gömul og Salov rúmlega 150 ára. Innnes hefur verið svolítið íhaldssamt varðandi það að halda áfram að versla við þessi fyrirtæki og passa upp á viðskiptin.“
Í dag flytur Innnes inn vörur frá tæplega tvö hundruð og fimmtíu framleiðendum og eru vörunúmerin rúmlega fjögur þúsund. „Vöruvalið í dag er fjölbreytt; grænmeti og ávextir, sjávarfang, kjöt, þurrvara, frystivara, vín, bjór og fleira. Við höfum alltaf lagt áherslu á það við okkar birgja að ef þeir vilja að við vinnum fyrir þá hér á landi þá þurfa þeir líka að skaffa okkur samkeppnishæf verð þannig að við getum boðið íslenskum neytendum okkar vörur á sambærilegum verðum og varan kostar úti í búð í nágrannalöndunum. Við sjáum verðin á vefnum og á ferðalögum og erum að skoða og gerum verðkannanir í verslunum og ef við sjáum einhvers staðar skekkju um að það muni einhverju þá tölum við við þessa birgja. Það er miklu betra að við séum að flagga þessu heldur en að viðskiptavinir okkar séu að fara að kaupa af einhverjum öðrum úti í heimi. Við höfum alltaf lagt áherslu á að vinna vel fyrir íslenska neytendur en að sama skapi erum við líka að tryggja það að það sé ekki verið að versla vörurnar annars staðar. Þetta er stöðug vinna. Þetta er bara starfið okkar.
Þótt við séum ekki stærsti markaðurinn þá erum við mikilvægur markaður fyrir okkar birgja og sérstaklega fyrir þá sem eru með Norður-Evrópu eða Skandinavíu. Íslendingar eru stórneytendur. Það er svolítið í þjóðasálinni. Ef Íslendingum líkar varan á annað borð þá eigum við yfirleitt heimsmet í neyslu á höfðatölu,“ segir Magnús Óli og hlær.
„Við erum að þjóna eins mörgum íslenskum framleiðendum og við mögulega getum með sölu og dreifingu fyrir þá. Við höfum alltaf sagt að við seljum það sem neytandinn vill kaupa en ekki það sem við viljum selja. Íslenskt grænmeti sem dæmi er frábær vara og neytendur vilja þessa vöru. Og við viljum þá líka gera það sem í okkar valdi stendur til að greiða götu þessara litlu einyrkja sem eru oft og tíðum að berjast í bökkum og stuðla að því að þeir eigi góða samstarfsaðila. Við getum stutt þá - lítill framleiðandi og stór kaupandi.“
Reka hátæknivöruhús
Aðsetur fyrirtækisins voru fyrstu árin við Hjallahraun í Hafnarfirði og síðar við Dalshraun. Fyrirtækið flutti árið 1998 í húsnæði Íslensk-Ameríska við Tunguháls sem hafði keypt hlut í fyrirtækinu en upp úr þeim samruna slitnaði árið 2001. Þá flutti fyrirtækið í húsnæði við Fossaleyni. „Þá hafði Guðmundur og ég selt hluti okkar í fyrirtækinu og var þá Ólafur einn eigandi félagsins. Sú ákvörðun mín tengist því að hafa frelsi og að vera ekki of tengdur efnislegum hlutum. Það er allaf hætta á að efnislegir hlutir geti tekið mann og átt mann. Við hjónin eigum stóra fjölskyldu, við eigum fjögur börn og ellefu barnabörn, og þar eru auðæfin. Okkur skortir ekkert þannig að mér fannst þetta vera góð ákvörðun sem hún var; það er erfitt að þjóna tveimur herrum.“
Magnús Óli hélt áfram að starfa hjá fyrirtækinu og vann um árabil í sölu- og markaðsmálum en við stækkun þess einbeitti hann sér svo að sölumálunum. Hann segir að góð samskipti skipti aðalmáli.
„Ólafur bað mig svo í lok árs 2012 um að taka við forstjórastöðunni og hef ég gegnt henni síðan.“
Velta fyrirtæksins var þá fjórir og hálfur milljarður en í fyrra var hún um tuttugu milljarðar.
„Stækkunin hefur verið jafnt kaup og samruni ásamt innri vexti og sérstaklega á síðastliðnum fjórum árum hefur fyrirtækið vaxið mjög hratt eða úr tíu milljörðum í tuttugu. Helmingurinn kemur úr innri vexti og helmingurinn eru kaup og sameiningar.“
Innnes er til húsa í glæsilegri og nútímalegri byggingu við Korngarða í Reykjavík. Fyrirtækið var á tímabili á nokkrum stöðum en árið 2016 keypti móðurfélagið Dalsnes lóðina við Korngarða svo að Innnes gæti sameinað starfsemina á einn stað og náð hagkvæmni. Byggingin í heild sinni er um 16.000 fermetrar og þar af er skrifstofuhúsnæðið um 2.000 fermetrar.
„Það var mikil áskorun að byggja í heimsfaraldrinum og að hluta voru það erlendir verkamenn og fagmenn sem komu til landsins til að vinna við bygginguna. Það var endalaust verið að útbúa umsóknir varðandi B-leið út af faraldrinum til að láta þetta allt ganga heim og saman og á sama tíma að vera að reka fyrirtæki í öllum þessum bútasaumi með reksturinn á nokkrum stöðum. Hins vegar var það góða í faraldrinum að það komu skýrlega í ljós verðmætin sem felast í að hafa verið í áratuga viðskiptasambandi við erlenda birgja. Það varð aldrei vöruskortur hjá okkur þótt hann hafi verið að finna víða í nágrannalöndunum.“
Viðtalið er tekið í glæsilegu fundarherbergi á fjórðu hæð hússins þar sem sést út á opið svæði sem samt er lokað af á fjórar hliðar. Steypan fær þar að njóta sín, meira að segja í steyptum bekkjum. Það er augljóst að hugað hefur verið að nútímalegri hönnun. Arkitektar á teiknistofunni Dap sáu um hönnunina.
„Arkitektastofan kom með þá hugmynd að þetta væri ekki að minna á skrifstofurými heldur að þetta væri hótel/lounge/vinnuaðstaða. Við fengum starfsmenn til að koma með ábendingar og tilmæli.“

Hátæknivöruhús er áfast skrifstofubyggingunni sem býður upp á meiri hraða, meiri nákvæmni og hærra þjónustustig. Hugmyndin á bak við húsið og tæknina var að það yrði vel gert og rétt útfært og myndi hjálpa til við að auka viðskiptin. „Og það hefur svo sannarlega gert það. Við höfum haldið stórar sýningar í húsinu og vorum með í fyrra um fimmtíu birgja sem komu á sýninguna „Matur og Vín“ og mættu um þúsund gestir.“
Rekkakerfið í vöruhúsinu er um 29 metra hátt og segir Magnús Óli að um sé að ræða hæsta rekkakerfi í landinu og að tæknin myndi leyfa því að vera í 40-50 metra hæð.
Starfsmenn Innnes eru um 250 og þar af vinna um 60 á skrifstofunni. Fjörutiú sölu- og þjónustufulltrúar eru úti á markaðnum ásamt hátt í 20 bílstjórum. Lítil starfsmannavelta er almennt í fyrirtækinu en einhver í vöruhúsi fyrirtækisins í gegnum árin og áratugina. „Það er erfiðast að ráða í störfin í vöruhúsinu og þar er mesti veltuhraðinn á fólkinu. Þannig að með ákveðinni tækni og vélbúnaði þurfum við ekki á eins mörgum höndum að halda. Við fórum ekki þá leið að segja neinum upp heldur látum veltuhraðann á starfsmönnunum í vöruhúsinu gera það að verkum að við ráðum ekki í staðinn fyrir þá sem hætta.“
Styður við starfsfólk
Magnús Óli sagði að í starfi sínu sem sölumaður hafi hann lagt áherslu á góð samskipti og það gerir hann enn.
„Eftir því sem maður tileinkar sér gott, þægilegt og jákvætt hugarfar sem og góða framkomu því betur gengur okkur. Ég er næmur á að lesa fólk og neyðin kennir naktri konu að spinna. Ég hef alltaf lagt upp úr því að fólki líði vel og ef maður styður fólkið sitt og stendur með því þá eykst helgun þess og það veitir betri þjónustu.
Við erum með gott húsnæði, það er góður matur í hádeginu, við erum með mjög marga viðburði og við erum að gera vel og við tökum líka vel utan um starfsfólkið þegar eitthvað kemur upp á hjá því. Við sýnum því skilning. Starfsfólk hefur til dæmis misst maka. Þetta færir mann nær fólkinu og Innnes er eins og fjölskylda; ég sé þetta alltaf sem fjölskyldu. Það var nú bara þannig að fyrstu árin voru flestir starfsmenn ættingjar mínir svo sem tveir systursynir mínir, frændur og frænka.
Það lætur mér líka líða betur ef ég horfi á starfsfólkið sem samstarfsfólk en ekki að þetta sé bara vinna. Það er misjafnt hvernig fólk er en ég er bara svolítið þannig gerður. Ég tala við alla eins og jafningja og sest hjá einhverjum í hádeginu og spjalla og spyr kannski hvernig gangi. Þetta er líka áskorun en 38% af starfsfólkinu eru af erlendu bergi brotin, það er af 27 þjóðernum og kemur frá mismunandi menningarheimum. Það er sjokk fyrir þau að átta sig á þessu, hvaða virðingu fær forstjórinn ef hann sest bara hjá því í hádeginu? Íslendingum finnst þetta vera flott. Við getum verið til staðar fyrir fólkið sem veit kannski ekki hvernig samfélagið virkar eða hvaða réttindi það hefur. Þetta er ekki bara vinnustaður. Þetta er pínu „heima“. Það er það sem mér finnst skipta miklu máli.“
Kallaður „pabbi“
Magnús Óli segir að á einni árshátíðinni hafi einn af erlendu starfsmönnunum spurt hvort hann mætti kalla sig „pabba“ þar sem hann ætti engan pabba á landinu. Og hann hélt það nú.
Magnús Óli leggur mikla áherslu á gott upplýsingaflæði og eru haldnir starfsmannafundir einu sinni í mánuði og eru allar glærur bæði á íslensku og ensku.
„Svo ég komi inn á enskuna: Það er spurning hvernig það verður eftir nokkur ár að stýra íslensku fyrirtæki og hvernig íslenskt samfélag verður en það verður mikil samkeppni um á hvaða tungumáli maður tjáir sig.“
Stjórnunarstíllinn: Staðfesta og grunngildi
Magnús Óli er spurður út í stjórnunarstílinn og hvernig hann hefur þróast með árunum.
„Með árunum hefur komið þroski og reynsla og það skiptir máli að sýna staðfestu og ákveðin grunngildi. Og ef það kemur einhver tískubóla sem allir eru með í huga þá er gott að vera búinn að setja ramma og ef eitthvað nýtt kemur þá er hægt að máta það við rammann.
Reynslan skiptir gríðarlegu máli í rekstri og að hafa séð tímana tvenna. Ef ég á að koma með heilræði til stjórnenda í fyrirtækjum þá er að hafa í bland fólk með reynslu og ungviðið og nýgræðingsháttinn. Þetta þarf að vera í bland. Það er frábært að fá þetta unga fólk sem er alveg tilbúið að klífa upp Mount Everest einsamlt með enga súrefnisgrímu en þá er ágætt að hafa einhvern sem ráðleggur því að fara fyrst í þjálfunarbúðirnar og læra síðan á græjurnar og fá einhvern með sér; ekki fara einn.
Maður þarf líka að vera opinn fyrir hugmyndum. Það þarf að vera með svolítið skýra sýn á það sem verið er að gera og að muna af hverju við erum með þetta svona. Það þarf að hlusta vel og átta sig á því hvar maður ætlar að staðsetja sig.“
Innnes er með tvö gildi innan fyrirtækisins: Gleði og fagmennska.
Svo segist forstjórinn leggja ofuráherslu á viðhorf starfsfólks til vinnunnar.
Dómsmál gegn ríkinu
Það hefur stundum gefið á bátinn. Magnús Óli er spurður hvað hafi verið erfiðast á ferlinum.
„Það er klárlega þetta verkefni hér: Það er húsið. Að vera áður með fyrirtækið á öllum þessum stöðum. Þegar fólk er á sama stað og hittist þá er auðveldara að búa til sömu menningu. Það er alls kyns menning á hinum og þessum stöðum og maður er að reyna að stýra og stjórna og það er mun erfiðara að halda utan um menninguna þegar um er að ræða bútasaum hér og þar. Það var erfitt að vera að byggja þetta hús og taka upp þessa tækni í vöruhúsinu sem hefur í raun aldrei verið áður hér á landi og vera á sama tíma að stýra félaginu í Covid-heimsfaraldrinum.
Svo hefur verið áskorun að vera í dómsölum og við erum búin að reka mörg mál. Það versta er að það er ekki gegn einhverjum einstaklingum í samfélaginu heldur gegn ríkinu. Ríkið hefur margoft brotið stjórnarskrána og gerst brotlegt við lög og verið skaðabótaskylt.
Það að vera í dómsölum er því miður oft eina leiðin til þess að ná réttlætinu fram. Innnes er heildsala með mat og drykkjarvörur og er einfalt fyrirtæki og þess vegna sá ég ekki fyrir mér að öll þessi málaferli við ríkið yrðu svona viðamikil. Og það er svolítið ógnvekjandi að fara gegn ríkinu. Við erum í rauninni litli aðilinn á móti gímaldinu. Og eðlilega hugsar maður með sér hvort maður sé að styggja einhvern og hvort maður fái einhvern á móti sér. Maður hugsar með sér hvernig hægt var að koma þessum búvörulögum í gegn. Það var bara sérhagsmunagæsla pólitíkusanna. Mér finnst vera ámælisvert í íslenskri stjórnsýslu ef þeir koma grímulaust fram varðandi sérhagsmunagæslu. Við þurftum að fara í mál gegn Samkeppniseftirlitinu og það var líka ákveðin áskorun,“ segir Magnús Óli og að málshöfðun fyrirtækisins gagnvart Samkeppniseftirlitinu hafi ekki beinst að einstökum fyrirtækjum eða athöfnum þeirra heldur hafi hún fyrst og fremst verið til þess hugsuð að leitast við að tryggja jafnræði fyrirtækja í samkeppni.
Í máli Innnes reyndi á lögmæti breytinga sem gerðar voru á búvörulögum vorið 2023 en þá var kjötafurðastöðvum veitt víðtæk undanþága frá samkeppnislögum. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að lagabreyting Alþingis hefði ekki lagagildi þar sem hún hafi brotið gegn 44. grein stjórnarskrárinnar en þar er kveðið á um að ekki megi samþykkja neitt lagafrumvarp nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.
„Samkeppniseftirlitið vinnur mjög faglega og beitti sér fyrir því að þessi lög yrðu ekki að veruleika. Við unnum þetta í héraði og Landsrétti en svo var þetta mál tekið áfram. Því var áfrýjað til Hæstaréttar sem sneri því við. Við auðvitað lútum því. Þetta var niðurstaða dómsins.“
Það var erfitt að lúta því.
„Það var búið að benda á hið augljósa - málið fékk ekki þessa umfjöllun í þingi og hefði átt að fara þrisvar í gegn. Meiningin var að þáverandi ríkisstjórn hafi brotið stjórnarskrána.“
Líkamsræktin hjálpar
Karlinn í brúnni þarf að halda andlitinu gagnvart starfsfólki þótt það gefi á bátinn og það hefur Magnús Óli oft gert. Það hefur oft tekið á.
„Það hjálpar mikið að stunda líkamsrækt. Ég fer í ræktina á hverjum morgni áður en ég mæti í vinnuna, vakna um klukkan sex og er mættur í vinnu klukkan átta. Ég er sofnaður klukkan tíu á kvöldin til að ná átta tíma svefni. Mín aðalfæða er matur án innihaldslýsingar. Ég elska góðan mat og er klárlega á réttum vinnustað hvað það varðar. Ég svaf hins vegar stundum ekki á næturna og vissi ekki hvernig þetta færi,“ segir Magnús Óli og nefnir byggingu hússins í heimsfaraldri þar sem voru tafir og jafnvel málaferli og alls kyns uppákomur. „Svo mætti ég í vinnuna, brosti og bauð góðan daginn.“
„Ég svaf hins vegar stundum ekki á næturna og vissi ekki hvernig þetta færi“
Það má kannski líkja þessu við fjallgöngu?
„Það er búið að fara alveg upp og stundum í bálviðri.“
Hefur stundum verið hætta á snjóflóði?
„Já. Það hefur hjálpað manni í þessari vegferð að fyrirtækið er að stækka og það er ýmislegt sem kemur upp á og það á enn eftir að koma upp á. En þá getur maður alltaf hugsað að maður sé búinn að sjá tímana tvenna og minna sig á gildin, draga andann djúpt, láta á engu bera, styðja starfsfólkið og vera til staðar.
Maður þarf svolítið að vera eins og klappstýra og kunna að gera þetta. Ræktin hjálpar manni að tæma hugann; lyfta og taka á. Svo er golfið alveg frábært sport til að gleyma og verða aftur lítill.“
Ýmsir viðburðir
Ýmislegt er gert fyrir starfsfólk Innnes til að viðhalda menningunni og gleðja. Þar má nefna hvatadaga sem haldnir eru einu sinni á ári sem eru hugsaðir til að byggja upp starfsfólk og fengnir eru góðir fyrirlesarar. „Þessi hvatadagur er kallaður Happinnnes,“ segir Magnús Óli og kímir. „Starfsfólk þarf til dæmis að leysa þrautir og þetta er til að hjálpa því að fara aðeins út fyrir normið. Það veit að svo kemur einhver uppistandari og það verður eitthvað glens og góður matur í lokin.
Starfsmannafélagið er mjög virkt og með fjölbreytta viðburði eins og páskagjöf handa starfsfólkinu og fjölskyldudag í byrjun sumars með hoppukastala úti á plani og voru alls konar uppákomur og pylsur grillaðar. Það var mjög vel sótt og heppnaðist vel.
Oktoberfest er raunverulega bara skemmtun. Svo er halloween-prógramm.
Við erum með jólaviku þar sem við höfum haldið piparkökuhússkeppni og það er keppni hver mætir í ljótustu jólapeysunni.“
Sæmdur stjórnunarverðlaunum
Magnús Óli hlaut í febrúar stjórnunarverðlaun Stjórnvísis í flokki yfirstjórnenda. Í umsögn segir meðal annnars á heimasíðu Stjórnvísis:
„Hann leggur áherslu á skýra stefnu og gott upplýsingaflæði. Hann er einstaklega hæfur í samskiptum og góður hlustandi með mikla persónutöfra og á auðvelt með að hvetja og hrífa starfsfólkið með sér.“
Einnig kemur fram í rökstuðningi að yfirstjórnanda hafi tekist afburða vel að stýra fyrirtækinu í gegnum mikinn vaxtarfasa með skýra áherslu á framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini og mikilvægi þess að hlúa að vinnustaðamenningunni með gildi fyrirtækisins, gleði og fagmensku að leiðarljósi. Eftirtektarverður árangur hefur til að mynda náðst á síðastliðnum fjórum árum þar sem tekjur félagsins hafa tvöfaldast án verulegrar skuldsetningar eða aukins fastakostnaðar og eru nú um 20 milljarðar. Á miklum umrótartímum þar sem efnahagsaðstæður, heimsfaraldur og stríð hafa meðal annars sett strik í reikninginn hefur veltan ekki bara stóraukist heldur samhliða tekist að byggja upp og innleiða hátæknivöruhús á heimsmælikvarða.
„Yfirstjórnandinn er lausnamiðaður leiðtogi sem gefur sér alltaf tíma til þess að hlusta á það sem starfsfólk hans hefur að segja.“
Í rökstuðningi segir ennfremur: „Yfirstjórnandinn er ávallt opin fyrir nýstárlegum hugmyndum og segir oft: ,,Hvaða köku eigum við að setja næst í ofninn?“ Þrautseigja og þolinmæði eru lýsandi fyrir þennan yfirstjórnanda og fyrirtækið verið á lista Creditinfo yfir Fyrirmyndarfyrirtæki ársins síðustu 13 ár. Árleg og óháð vinnustaðagreining sýnir bæði mikla ánægju starfsmanna og stolt af vinnustaðnum. Eins og einn af starfsmönnum fyrirtækisins orðar það: „Yfirstjórnandinn er lausnamiðaður leiðtogi sem gefur sér alltaf tíma til þess að hlusta á það sem starfsfólk hans hefur að segja.“
Magnús Óli segir af hógvær að það hafi komið sér svolítið á óvart að eftir þessu yrði tekið en að annars séu verðlaunin mikil viðurkenning.
Magnús Óli hefur í mörg ár verið virkur í Félagi atvinnurekenda og var um tíma formaður í fjögur ár.
Barnsmissir
Forstjóri Innnes er mikill fjölskyldumaður. Hann er búinn að vera með eiginkonu sinni, Erlu Dís Ólafsdóttur, síðan hann var sautján ára og hún sextán. Þau hafa eignast fimm börn og er eitt þeirra, Elísabet Rós, látið. Barnabörnin eru ellefu eins og þegar hefur komið fram. Hjónin áttu tvö elstu börnin þegar Elísabet Rós kom í heiminn þann 16. desember árið 1988. Hún lést 11. apríl 1989 af slysförum.
Þarna voru Magnús Óli og Ólafur búnir að reka Innnes í eitt ár og voru þeir einu starfsmennirnir á þessum erfiða tíma. Magnús Óli var í að selja, keyra út vörur, kynna í búðum og rukka.
„Maður missti barnið sitt en ég er með þá von í hjarta að ég fái það aftur einhvern tímann í framtíðinni.“
Magnús Óli er trúaður maður og segir hann að það að vera í samfélagi og mæta á samkomur hjá Vottum Jehóva áður en þetta slys var hafi gefið sér mikinn styrk. „Það góða fólk sem var þar hjálpaði mér gríðarlega og hélt vel utan um okkur. Ég hef þá trú í hjarta að þetta sé ekki eitthvað endanlegt. Maður missti barnið sitt en ég er með þá von í hjarta að ég fái það aftur einhvern tímann í framtíðinni. Það gaf mér styrk sem þurfti til að halda utan um fjölskylduna, mömmu og tengdamömmu.“
Hann lýsir öðruvísi tíðaranda þegar hann gekk í gegnum raunirnar.
„Á þessum tíma var engin aðstoð frá sérfræðingum. Kerfið var ekki að hugsa um mann. Fjölskyldan hélt utan um mann en þau eru ekki læknar. Og tíðarandinn var „áfram gakk“. Það var ýmislegt sagt eins og síðar að það hafi verið gott að við skyldum hafa getað eignast fleiri börn. Fólk vissi ekki betur.“
Þótt hjónin hafi eftir fráfall Elísabetar Rósar eignast tvö börn þá kemur enginn í staðinn fyrir hana. Hún var hún.
„Hún var með mikið dökkt hár,“ segir pabbi hennar. „Svo var hún með spékoppa og hökuskarðið mitt. Ég kom daglega til hennar á vökudeildina og þegar ég kom æstist hún öll upp af kæti og brosti til mín, hún sá að pabbi var kominn. Þetta var ekki læknir eða hjúkrunarfræðingur. Þetta var pabbi.“
Magnús Óli brosir.
„Tíminn læknar ekki öll sár en maður lærir að lifa með þessu. Þetta er eins og sár sem maður er með, maður finnur alltaf fyrir því. Það þarf líka að geta talað um þetta. Það til dæmis hjálpar núna þegar ég er að opna mig með þetta. Þetta markerar mann auðvitað, ég horfi á lífið á annan hátt en áður,“ lýsir hann.
„Það að missa barnið sitt er ömurleg reynsla. Er þetta eitthvað sem ég get nýtt mér? Það sem þetta hefur gefið mér er að ég hef meiri skilning á því ef fólk stendur frammi fyrir því að missa ástvin eða stendur frammi fyrir dauðanum, eins og einn vinur minn nýverið. Það skiptir máli að vera til staðar. Þessi lífsreynsla hefur hjálpað mér að hugsa að það sé eitthvað meira.“

Starfsmaður Innnes, sem hafði starfað hjá fyrirtækinu í 19 ár, lést á þessu ári eftir erfið veikindi og var Magnús Óli til staðar fyrir hann. „Við vorum ágætis vinir, ég réði hann á sínum tíma“. Eftir að ljóst var í hvað stefndi þá bað hann Magnús Óla að vera kistubera sem Magnús Óli varð við jarðarför hans. „Mér þótti mjög vænt um að hann bað mig um þetta. Þetta var rétti staðurinn til að vera á.“
Þá hélt Magnús Óli minningarstund fyrir starfsfólk Innnes. Það var kveikt á kerti, blóm voru í vasa og mynd af manninum og Magnús hélt tölu. Þá var miningarstundin í streymi fyrir þá sem voru ekki á staðnum.
„Þetta var erfitt en við erum að reka manneskjulegt fyrirtæki. Við reynum að taka utan um starfsfólkið ef það er erfitt og reynum að hjálpa því eins og við mögulega getum við erfiðar aðstæður.
Það er engin ein rétt leið að stýra fyrirtæki, mín saga er bara til að segja hvernig ég hef farið að og gert það vegna þess að hjarta og hugur sögðu það og mig langar það. Hver og einn verður að finna sinn stíl.“


Komment