
Tveir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir þjófnað í Hornafirði. Samkvæmt ákærunni býr annar þeirra í Reykjavík en talið er að hinn búi í Bretlandi.
Þeir eru ákærðir fyrir að hafa einhvern tímann á tímabilinu frá 5. september til 6. september 2023, í félagi brotist inn á verkstæði í eigu fyrirtækisins Mætti ehf. að Akurnesi í Sveitarfélaginu Hornafirði og stolið þaðan eftirfarandi munum; Kapalpressu af gerðinni Milwaukee í svartri tösku að verðmæti 430.000 kr, klemmum í kapalpressu að verðmæti 50.000 kr, höggborvél ásamt fylgihlutum í grænblárri tösku af gerðinni Makita að verðmæti 200.000 kr, 12V hleðsluborvél af gerðinni Milwuakee að verðmæti 50.000 kr, DeWalt slípirokk að verðmæti 50.000 kr, afeinangrunarvél af gerðinni Milwuakee að óþekktu verðmæti, ásamt koparvírum að verðmæti 507.944 kr, koparrörum, koparskinnum, pressutengjum, rafmagnsköplum, afklippum, koparstöng og öðrum smáhlutum og verkfærum að óþekktu heildarverðmæti, og fyrir að hafa á sama tíma og á sama stað brotist inn í bifreið sem stóð utandyra við verkstæðið og stolið þaðan fjórum felgum undir bifreið af gerðinni Volvo 740 og fjórum sex gata jeppa felgum að óþekktu heildarverðmæti.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Austurlands í janúar á næsta ári.

Komment