
Í dagbók lögreglu frá því í nótt og í gærkvöldi er greint frá því að tilkynnt hafi verið um rán í verslunarmiðstöð þar sem ungmenni rændu annað ungmenni. Veittust tveir einstaklingar að einum og slógu með áhaldi. Málið í rannsókn lögreglu,
Tilkynnt var um einstakling með öxi við skemmtistað að veitast að fólki. Sá var farinn er lögregla kom á vettvang. Leitað var í nágranni án árangurs.
Þá var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi, ber að ofan og skólausan að halda vöku fyrir fólki með öskrum og látum. Hann var ósamvinnufús og viðskotaillur er lögregla gaf sig á tal við hann. Hann var vistaður í fangaklefa þar til unnt sé að taka af honum skýrslu.
Óskað var aðstoðar lögreglu vegna einstaklings í félagslegu úrræði sem var sagður ógnandi með stunguvopn meðferðis. Í ljós kom að um misskilning var að ræða og málið leyst á vettvangi.
Þá var talsvert af umferðarlagabrotum sem lögreglan þurfti að sinna.
Komment