Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir hefur áhyggjur.
Í gær fjölluðu fjölmiðlar um að komið hafi upp mislingatilfelli í manni sem hafði ferðast erlendis frá. Guðrún Aspelund hefur staðfest í samtali við mbl.is að um erlendan ferðmann sé að ræða. Hún sagðist þó ekki geta staðfest hvort maðurinn væri bólusettur eða ekki en sé fólk ekki bólusett gegn mislingum getur það orðið mjög veikt.
„Það er áhyggjuefni vegna þess að þeir sem eru óbólusettir eru í hættu að geta smitast ef þeir eru útsettir og það geta verið alvarleg veikindi,“ sagði Guðrún um málið. Þá hefur þátttaka í bólusetningum minnkað undanfarin ár en aðeins 90% barna sem áttu að fá MMR-bólusetningu árið 2022 fengu hana en Guðrún segir að um 95% einstaklinga þurfi að vera bólusettir til að hægt sé að tryggja hjarðónæmi. Tölur fyrir 2023 munu liggja fyrir í lok skólaárs.
Árið 2019 komu upp níu mislingatilfelli á Íslandi en sex af þeim einstaklingum smituðust af manni sem kom frá útlöndum.