
Segja má með sanni að Stefán Einar Stefánsson sé umdeildur og um leið afar virkur maður sem virðist alltaf vita hvert hann langar að fara og hvers vegna. Ekki er annað hægt en að segja að Stefán Einar sé skoðanaglaður og hann er líklega einn af þeim Íslendingum sem fólk elskar að hata og hatar að elska.
Patreksfjörður, Borgarnes, amma og afi
Stefán Einar Stefánsson fæddist þann 22. september árið 1983. Hann ólst upp á Patreksfirði til tíu ára aldurs, er fjölskylda hans flutti í Borgarnes. Stefán Einar hefur sagt að það hafi verið „mikil forréttindi að hafa fengið að alast upp úti á landi í eins ólíkum samfélögum og raun ber vitni.“
Á unglingsárunum flutti Stefán Einar frá foreldrum sínum til afa síns og ömmu eftir að hafa ákveðið að sækja sér menntun í Verslunarskóla Íslands. Stefáni Einari fannst ekki erfitt að yfirgefa foreldra þína er hann fór af mölinni og lóðbeint inn á malbikið; flutti til afa og ömmu:
„Ég var síðasta barnið á heimilinu þannig að þá voru þau loksins laus. En ég naut þeirra forréttinda að flytja til afa míns og ömmu sem var fólk um sjötugt á þeim tíma og kynnist þeim þá öðruvísi með því að búa hjá þeim. Það eru hlutir sem maður kann líka að meta og lærir að meta seinna meir þegar þau eru löngu fallin frá og maður á þá meiri og dýpri samfylgd með þeim heldur en ella hefði orðið.“
.Áfall í Versló
Stefán Einar blómstraði í Versló, og þá sérstaklega í félagslífinu - var til að mynda í Gettu betur og ýmsu öðru tengt félagslífinu í skólanum. Honum sóttist námið ágætlega þótt mikill tími færi í félagslífið og hann talar um Versló af hlýju og virðingu. En þótt Stefáni Einari hafi gengið vel heilt yfir í Versló náði hann þó ekki að útskrifast á réttum tíma því hann féll í tveimur fögum í prófum til stúdents; lét það þó ekki trufla sig neitt mikið. Útskrifaðist að hausti í stað vors. Hann sagði fallið hafa verið foreldrum sínum töluvert áfall er hann féll á stúdentsprófinu, og þá sérstaklega móður hans er búin var að skipuleggja stúdentsveisluna.
„Það var nú eiginlega svona þrákelkni, mér þótti þýska mjög leiðinleg og ég nennti ekki að læra stærðfræði þó hún hafi legið þokkalega fyrir mér. Þannig ég féll í þýsku og ólesinni stærðfræði.“
Um fallið sagði hann að það hafi verið „foreldrum mínum talsvert áfall, þau höfðu alltaf staðið í trú um það að ég væri voðalega klár og gæti leyst þetta vel úr hendi. Ég man að þegar mamma fékk fréttirnar, hún var búin að skipuleggja stúdentsveisluna mína og ætlaði að fara að bjóða öllum vinkonum sínum úr MR upp í Borgarnes og hún fékk fréttirnar um að það yrði ekki, að þá fór hún og stakk upp allan kartöflugarðinn heima. Ég hef aldrei séð konu um sextugt taka eins hressilega til hendinni í einum kartöflugarði og þetta síðdegi.“
Guðfræði og siðfræði
Stefán Einar fór í guðfræði eftir útskrift úr Versló, og hefur hann viðurkennt að mörgum hafi þótt það hafa verið undarleg ákvörðun. Hann fór í Versló vegna áhuga á viðskiptum og lögfræði og „eðli málsins samkvæmt kom guðfræðin því mörgum á óvart“ og hann bætti því við að „fólk hélt bara að ég hefði dottið á höfuðið.“
Stefán Einar segir ástæðu þess að hann hafi valið guðfræði vera sá að hann sé kristinnar trúar, en segir foreldra sína þó ekki hafa lagt mikla áherslu á trúna er hann var að vaxa úr grasi. „Þau voru bæði kristinnar trúar en ég fór í sunnudagaskólann sjálfur, að eigin frumkvæði og með systrum mínum fyrst á Patreksfirði og svo í Borgarnesi og var í KFUM, fór í Vatnaskóg á sumrin og annað. Þetta voru hlutir sem voru mér mjög eðlislægir og eðlilegir og ég hef lengi haft áhuga á starfi kirkjunnar og ég hefði alveg getað hugsað mér að gerast prestur. Á tímabili velt ég því fyrir mér og gerði reyndar tilraun til þess en það varð ekki og ég held reyndar að það hafi bara verið blessun, bæði fyrir mig og kirkjuna.“
Stefán Einar hefur sagt kirkjuna ekki kalla á hann eða til hans þó hann hafi ávallt verið „trúaður og haft áhuga á störfum kirkjunnar.“ Hann hefur sagt frá því að stundum er hann hittir gamla félaga úr guðfræðideildinni spyrja þeir hann hvenær hann ætli að reyna að komast að hjá kirkjunni.
Og skyldi það koma til greina?
„Nei. En ég hef reyndar sagt það að lífið er þannig að maður á aldrei að útiloka neitt og hver veit nema maður endi sem prestur í einhverju hrökkbrauði í einangruðum dal þar sem maður er best geymdur, með fáum sálum til að sinna. En eins og staðan er núna þá kemur það ekki til greina.“
Stefán Einar „trúir því sem lútherska kirkjan boðar, það er á hinn almenna prestdóm. Að allir kristnir menn séu prestar í þeim skilningi að þeir eigi að sinna náunganum og láta gott af sér leiða.“
Hin ýmsu störf: Dánarfregnir og jarðarfarir
Stefán Einar hefur rætt opinberlega um óvenjulega og krefjandi reynslu af því að starfa á útfararstofu á meðan hann var í háskólanámi; starfið fólst í að sinna útköllum er andlát bar að garði: Í heimahúsum sem og á stofnunum; og að sjá um undirbúning fyrir útfarir.
„Á veturna var ég reglulega kallaður út á næturnar til að sækja látna, koma þeim í líkhús og undirbúa frekari útför. Það var ekki óalgengt að ég hefði verið á bakvakt alla nóttina og mætti svo beint í tíma í háskólanum. Þetta er starf sem krefst virðingar og umhyggju, ekki bara gagnvart þeim látnu heldur einnig gagnvart aðstandendum,“ sagði hann og benti á að hlutverk útfararstjóra væri ekki einungis að sjá um að ferlið færi fram á réttan hátt heldur einnig að hlusta á óskir aðstandenda.
„Mikilvægur þáttur starfsins er að tryggja að fólk fái að kveðja á sínum forsendum. Það þarf að ákveða hvernig hinn látni er klæddur, hvernig útförin fer fram og hvaða siðum er fylgt. Þetta eru hlutir sem skipta fólk miklu máli.“
Hann ræddi einnig um samfélagslegar breytingar í tengslum við andlát; færði í tal að sjálfsvíg, bráðakvilli og jafnvel morð væru hluti af starfinu, þó þau síðastnefndu væru sjaldgæf:
„Þetta er hluti af lífinu, en við höfum í raun fjarlægt dauðann frá samfélaginu. Flestir deyja á stofnunum í dag, en áður var það mun algengara að fólk léti lífið heima hjá sér, innan um sína nánustu.“
Stefán Einar sagði eitt sinn að erfiðasta verkefnið væri þegar börn deyja og slíkt væri eitthvað sem enginn vegur væri að gleyma eða hreinlega að sætta sig við.
„Það er ekkert sem venst við það. Að undirbúa lítið barn fyrir útför er eitthvað sem maður gleymir aldrei. Það er eitthvað svo óhugsandi við það að foreldrar þurfi að fylgja barni sínu til grafar. Það er einfaldlega ekki eðlilegt. Það er eitthvað sem maður gleymir ekki. Að búa um lítið barn í kistu er eitthvað sem skilur eftir sig spor.“
Á meðal annarra starfa sem Stefán Einar hefur tekið sér fyrir hendur á lífsleiðinni hingað til eru framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags, stundakennari í siðfræði við Háskólann í Reykjavík og blaðamennska hjá Morgunblaðinu síðan 2015. Þá hefur hann einnig sinnt „ráðgjafastörfum fyrir hin ýmsu fyrirtæki, stofnanir og félög vegna setningar siðareglna og samfélagsábyrgrar stefnu.“
Stefán Einar hefur „kennt siðfræði hjá fyrirtækjum og stofnunum, meðal annars við endurmenntun Háskólans á Akureyri og Þekkingarnet Austurlands“ og haldið fyrirlestra „hér á landi og erlendis um hrun bankakerfisins og þá lærdóma sem af því má draga“ segir Stefán Einar sem er með MA próf í viðskiptasiðfræði og embættispróf í guðfræði, BA.
Og siðfræði og siðferðisleg spursmál eru Stefáni Einari eðlilega hugleikin, enda leitaði hann sér menntunar á því sviði.
„Ég vitna stundum í fræga ræðu sem Robert Kennedy flutti í Suður-Afríku fyrir áratugum síðan, 1966 ef ég man rétt, þar sem hann segir að siðferðislegt hugrekki, það er að segja hugrekki til þess að tala máli þess sem rétt er og satt er í samfélaginu, það er fágætari eiginleiki heldur en hugrekki í orrustu. Vegna þess að fólk er svo hrætt við að kalla yfir sig dóm eða reiði samfélagsins eða samstarfsmanna sinna.“
Þá hefur Stefán Einar þó nokkra reynslu af „félagsstörfum“ og var hann meðal annars „formaður Varðbergs, samtaka ungs áhugafólks um vestræna samvinnu 2009-2010. Gegndi trúnaðarstörfum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins“ og sat í stjórn „Guðfræðistofnunar HÍ 2007-2009“ og var formaður „Félags guðfræðinema við Háskóla Íslands árin 2005 til 2007.“
Kjörinn formaður VR
Árið 2011 var Stefán Einar kjörinn formaður VR og hlaut hann 20,6 prósent atkvæða í kosningu, sem dugði til sigurs, en alls voru sjö í framboði og var kjörsókn sautján prósent.
Hann hefur greint frá því að tilviljun hafi orðið til þess að skorað hafi verið á hann af stjórnarmönnum í félaginu að bjóða sig fram, er hann sinnti ráðgjöf fyrir stjórnina vegna vinnu hans í Háskólanum í Reykjavík.
„Lífið er bara þannig. Við vitum það öll þegar við horfum yfir lífshlaupið sem er að baki, þá sjáum við að það eru ótrúlega margar tilviljanir sem valda því að við erum á þeim stað sem við erum á í dag. Það að við skulum sitja hér saman á móti hvor öðrum er í raun röð kannski milljóna tilvika og einhverra ákvarðana sem eru ekkert endilega mjög meðvitaðar.“
Stefán Einar segir að það hafi verið gengið hart á eftir honum að bjóða sig fram. „Ég þurfti nú að ganga úr skugga um það að þetta væri ekki falin myndavél og ég vissi að það væri ekki verið að steggja mig því ekki var ég að fara að ganga í hjónaband og benti þeim á að ég var á þessum tíma 27 ára og óharðnaður enn.“
Stefán Einar sat einungis tvö ár sem formaður, því í næstu kosningum um embættið tapaði hann stórt gegn Ólafíu B. Rafnsdóttur; hlaut hún 76 prósent atkvæða en Stefán Einar fékk 24 prósent.
„Ég er 27 ára, þannig að þegar ég tapa kosningum þá er ég 29 ára atvinnulaus fyrrverandi verkalýðsforingi. Hugsaðu þér örlögin.“
Þegar Stefán Einar tók slaginn árið 2011 og bauð sig fram sem formann VR voru hans „helstu áherslur“ að taka harðar á því „siðferðislega vandamáli sem launamunur kynjanna er“ og sagði að það sé „ólíðandi að 10% munur mælist milli kynjanna. Ég kynni nýjar leiðir til þess að sporna gegn þessu vandamáli. Forysta VR þarf að þrýsta á um aukinn kraft í atvinnusköpun. Íslenskt samfélag þolir ekki að atvinnuleysi mælist yfir 8%. VR ber skylda til að láta til sín taka í þessum efnum! Kanna þarf möguleikann á því að VR ráðist í stofnun fasteignafélags sem geri félagsmönnum kleift að leigja sér húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Margir hafa lent í erfiðleikum með fasteignir sínar og nauðsynlegt er að fjölga búsetuúrræðum fólks á komandi árum.“
Þrátt fyrir hið stóra tap gegn Ólavíu lagðist Stefán Einar eigi í bælið og breiddi alls ekki yfir sig; hélt áfram sinn veg og fann tækifærin hér og þar. Var lítið að barma sér og sneri kompás sínum annað kokhraustur og með engin kíló af kvíða í kviðinum. Svo vitað sé.
Hefur gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn harðlega
Sjálfstæðisflokkurinn heillaði Stefán Einar fyrir margt löngu síðan og hefur hann haldið tryggð við flokkinn þótt ýmislegt hafi gengið á. Þótt Stefán Einar hafi lengi verið meðlimur í flokknum og auðvitað gallharður stuðningsmaður hans - þá hefur hann eigi ávallt verið sáttur með yfirstjórn hans og hefur hann í raun alltaf verið ófeiminn við að gagnrýna eigin flokk.
Árið 2009 sagði hann sig úr stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS. Varðandi ástæðuna sagði Stefán Einar „að Geir H. Haarde hafi brugðist sem formaður þegar hann tók við styrkjum frá FL Group og Landsbankanum. Þá sé ályktun SUS, þar sem lof er borið á framgöngu Geirs í málinu, úr öllum takti við raunveruleikann.“
Árið 2023 sagði Stefán Einar Sjálfstæðisflokkinn vera gagnslausan, getulausan og þurfa frí frá völdum. Hann gagnrýndi flokkinn harðlega í ræðu sem hann hélt á laugardagsfundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs. Í ræðunni sagði Stefán Einar til að mynda að ekkert væri að marka kosningaloforð flokksins og að báknið sem flokksmenn segjast hata hafi orðið til undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Stefán Einar kallaði eftir því að flokkurinn færi í stjórnarandstöðu, þó svo að hann óttaðist að með því myndi flokkurinn missa tök sín og völd og yrði mögulega ekki lengur miðja íslenskra stjórnmála.
„Nú er að nýju raunveruleg hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn missi sinn sess sem burðarás stjórnmála núna, skilgreindur út frá þingstyrk eða atkvæðavægi. Það gerist á sama tíma og nú styttist í að einn og hálfur áratugur verði liðinn frá því að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi síðast ríkisstjórn, ef undanskildir eru fáir mánuðir á árinu 2017 þegar furðustjórn flokksins með Viðreisn og Bjartri framtíð var við lýði.“
Stefán Einar viðurkenndi að báknið hafi orðið til á vakt flokksins, eitthvað sem Sjálfstæðismenn hafa ekki viljað viðurkenna.
„Nýframkvæmdum sé furðulega forgangsraðað, til dæmis ný skrifstofubygging Alþingis, ný skrifstofubygging fyrir forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið taki yfir drjúgan hluta Landsbankahallarinnar. Þetta gerist þrátt fyrir að þjónustan aukist ekki. Fólk finni ekki fyrir bættri þjónustu. Biðlistar styttist ekki og Landspítalinn virðist sífellt fjársveltur. Flokkurinn hefur ekki burði til þess að breyta kerfinu,“ sagði Stefán Einar og benti á að það hafi verið Sjálfstæðismenn er hækkuðu skatta á fyrirtæki en dældu fjármunum í ýmsa styrki.
„Stjórnmálaflokkar eru komnir á fullkomið framfæri ríkisins. Fjölmiðlarnir einnig á sama tíma og 6,2 milljörðum er dælt í RÚV. Bókaútgáfan er sífellt háðari opinberum styrkjum. Meira að segja bílaleigurnar þiggja nú styrki frá ríkinu. Bara Bílaleiga Akureyrar hagnaðist um 1,8 milljarða króna í fyrra,“ sagði Stefán Einar sem viðurkenndi einnig að „krísan í útlendingamálum“, sem flokksmenn kvörtuðu sáran yfir, væri Sjálfstæðisflokknum að kenna.
„Við höfum brugðist í málefnum landamæranna þar sem algjört stefnuleysi og andlitslaus nefnd hefur opnað fyrir flóðgáttir fólksflutninga til landsins á skökkum forsendum. Ekkert annað ríki Evrópu hefur haldið svo slælega á sínum málum,“ sagði hann. „Allt eru þetta dæmi sem þreyta Sjálfstæðismenn, og það sem verra er – margt það fólk sem væri líklegt til þess að kjósa flokkinn ef það tryði því að það væri eitthvað að marka loforðin sem hann gefur. Er það sjálfstæðisstefnan sem hefur misst erindi sitt? Eða höfum við brugðist?“
Stefnt vegna verkfallsbrots
Stefán Einar lenti í harðri rimmu við Blaðamannafélag Íslands er verkfall blaðamanna stóð yfir fyrir sex árum síðan. Þá var honum stefnt af Blaðamannafélaginu fyrir að hafa gengið í störf vefblaðamanna. Hann segir að á þessum tíma, hafi hann gengið í sín eigin störf líkt og yfirmenn megi gera til að halda uppi lágmarksstarfsemi og hann hafi „litið svo á að þar hafi verið um öryggismál fyrir þjóðina að ræða.“
Stefán Einar rifjar upp „eitt eftirminnilegasta atvikið frá þessum tíma“ var þegar „núverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu kallaði mig og kollega minn stéttsvikara, það er svona hugtak sem maður hafði ekki heyrt bara síðan í Gúttóslagnum, úr gamla Sovétinu. Við fengum yfir okkur holskeflur, líka frá samstarfsmönnum sem töldu að við stæðum ekki nægilega með okkar kollegum.“
Krefjandi spyrill
Það þykir ekki heiglum hent að fara í viðtal hjá Stefáni Einari sem segist taka alla sömu tökum er koma til hans í viðtal.
„Ég get bara fullyrt að ég legg mig allan fram um það að beita menn sömu handtökum hvaðan sem þeir koma. Ég held hins vegar að það sé miklu dýrmætara fyrir áhorfendur og þá sem neyta þeirra frétta eða upplýsinga sem ég ber á borð að vita hvaðan ég kem. Menn vita bara nákvæmlega fyrir það hvað ég stend og hver mín lífsskoðun er.“
Hann segir ekki fara fyrir því sama í framgöngu ýmissa annarra fjölmiðlamanna er taki fólk í viðtöl og „þykist vera ofboðslega heilagir og hlutlausir. Jafnvel þannig að það sé líkt og þeir hafi ekki skoðun á nokkrum sköpuðum hlut. Og það er fals. Það er ekki heiðarlegt í mínum huga. Af því að svo sjáum við þetta sama fólk taka með mjög mismunandi hætti á viðmælendum sínum.“
Stefán Einar rifjar upp er hann fékk Katrínu Jakobsdóttur sem gest í Spursmál, fyrst allra forsetaframbjóðenda fyrir síðustu forsetakosningar. Þá var hann af einhverjum sakaður um tilraunir til að fella Katrínu, en síðar hafi komið í ljós að allir frambjóðendur hafi fengið sömu meðferðina, krefjandi og ágengar spurningar.
„En það laukst upp fyrir mér á einum tímapunkti þegar ég var að gera upp þetta mál að Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra hafði aldrei lent í krefjandi viðtali í íslenskum fjölmiðli fram að þessu viðtali. Hún hafði alltaf fengið allt aðra meðferð í viðtölum heldur en aðrir stjórnmálamenn. Og það segir manni að það er eitthvað brogað í kerfinu að einn stjórnmálamaður virðist fá frípassa í umræðunni á meðan aðrir eru einhvern veginn alltaf settir í vörn og stillt upp við vegg. Þar get ég bara nefnt mann eins og Bjarna Benediktsson en það er hægt að nefna fleiri í því sambandi.“
Sorgin og söknuðurinn
Stefán Einar var alinn upp á heimili þar sem borin var „mikil virðing fyrir bókmenntum“ og segir Stefán Einar að foreldrar hans hafi átt „geysilegt bókasafn“ - en þau létust bæði með stuttu millibili.
„Þau voru á áttræðisaldri þannig þau höfðu lifað langa og góða ævi en hefðu svo sem átt að lifa lengur. Pabbi féll frá vegna krabbameins og svo var mamma bráðkvödd átta mánuðum síðar og það er auðvitað dálítið sérstakt. Ég ætla ekki að setja mig í hlutverk fórnarlambs, ég er fertugur og fékk að njóta foreldra minna í öll þessi ár en það er auðvitað sérstakt að bera kistu foreldra sinna og leggja þau til hinstu hvílu. Ég held að flestir sem hafi átt góða foreldra sem þau gátu leitað til lendi í því mjög reglulega að finna fyrir þörf til þess að heyra í þeim og leita til þeirra og leita ráða hjá þeim.“
Stefán Einar segist sjálfur vera að kljást við það í dag að geta ekki lengur leitað ráða hjá þeim. Það hafi hann verið duglegur að gera, ekki síður hjá mömmu sinni en pabba. Nú geti hann ekki lengur leitað ráða, heldur bara nýtt sér vel reynsluna af því að hafa leitað til þeirra.
„Það er svo eftirminnilegt og svakalegt að það gerðist nokkrum sinnum á þessum fjörutíu árum og eftir að ég varð fullorðinn í raun, að ég leitaði ráða hjá pabba og fylgdi ekki ráðum hans. Semsagt, ég leitaði til hans en ákvað svo að taka aðra leið og í öll skiptin var ég rekinn til baka og áttaði mig á því að ég hefði átt að taka ráðum hans.“
Möguleg framtíð í stjórnmálum
Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort þingframboð sé framundan hjá fjölmiðlamanninum Stefáni Einari sem hefur nú þegar meira en nóg fyrir stafni; auk þess að vinna sem fjölmiðlamaður rekur hann innflutningsfyrirtækið Kampavinsfjelagið og þá er hann meðeigandi í bókaútgáfu.
„Ég veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég veit það hinsvegar að það eru margir að velta þessu fyrir sér og það er ekkert óeðlilegt af því að ég er að tjá mig mikið um samfélagsmál og er óhræddur við það,“ segir Stefán Einar.
„Svo er stóra spurningin: Hvort kemurðu því frekar til leiðar með því að fara í framboð, ná kjöri á þing og setjast í hóp þessara 63 þingmanna sem setja okkur lög, misgáfuleg, eða gerirðu það með því að hafa áhrif á umræðuna með því að halda stjórnmálamönnunum við efnið, með því að gefa út barnabækur sem auka læsi og kannski gleðja einn og einn mann yfir góðu kampavínsglasi? Ég veit ekki alveg svarið við þessari spurningu en sumir halda einhvern veginn að það hljóti að vera að menn sem hafi áhuga á samfélagsmálum hljóti að vilja komast inn á þing eða í borgarstjórn. Það er ekki hinn augljósi farvegur í mínum huga.“
Ástin og einkalífið
Stefán Einar var í þrettán ára löngu sambandi með Söru Lind Guðbergsdóttur lögfræðingi - voru gift í ellefu ár og eignuðust saman tvö börn - en þau skildu nýverið og sagði Stefán Einar þetta af því tilefni.
„Sumar tekur við af vetri og það minnir á að allt er breytingum háð. Fyrir nokkru síðan tilkynntum við fólkinu sem stendur okkur næst að við höfum ákveðið að halda hvort í sína áttina eftir þrettán ára samband og ellefu ára hjónaband. Þar eru efst á baugi auðvitað drengirnir okkar tveir sem eru það dýrmætasta sem lífið hefur fært okkur en líka ferðalög um veröld víða, 45 barnabækur, bókaþýðingar og –skrif og svo margt, margt annað sem við varðveitum áfram saman og sitt í hvoru lagi. Við lítum hvorki á þetta sem strand eða skipbrot þótt vissulega sé þungur sjór þegar ákvörðun af þessu tagi er tekin. Það eru skuggaskil. Í þeim aðstæðum má velja á milli þess að horfa á dökku hliðarnar eða þær ljósu. Við vitum hvoru megin okkar augu enda. Þannig höfum við alltaf haft það.“
Samband Stefáns Einars og Söru var nokkuð áberandi á sínum tíma og fjallaði DV um þau á þann hátt að þeim mislíkaði mjög; sem leiddi til þess að bæði Stefán Einar og Sara höfðuðu mál á hendur miðlinum.
Héraðsdómur Reykjavíkur gerir spurninguna um hver sé opinber persóna að mikilvægu atriði í dómi sem féll í gær. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað DV í meiðyrðamáli Stefáns Einars Stefánssonar fyrrum formanns VR. Stefán Einar stefndi DV fyrir 15 ummæli sem birtust í blaðinu vegna ráðningar Söru Lindar Guðbergsdóttur, sem þá var laganemi, í yfirmannsstarf hjá VR, segir í frétt DV um þessi málaferli. Blaðið bendir enn fremur á að Sara Lind hafi stefnt blaðinu vegna sömu ummæla og fengið tvö af ummælunum 15 dæmd ómerk þar sem hún er ekki opinber persóna. Ummælin sem hér um ræðir eru: Ólga vegna ástkonu og Laganemi gerður að yfirmanni.
Samsæriskenningasmiðurinn og allar ósönnuðu fullyrðingarnar
Stefán Einar hefur sagt eitt og annað opinberlega í gegnum tíðina er stuðað hefur fólk en jafnframt því hefur hann mjög líklega glatt talsvert marga með orðum sínum. Hann hefur fullyrt að Íslendingar hafi fjármagnað hernaðarmannvirki Hamas með framlagi til mannúðarhjálpar; hvatti hann til þess að meðlimum samtakanna yrði hreinlega „eytt af yfirborði jarðar“ í þeim tilgangi að verja óbreytta borgara um víða veröld - líka hér á Íslandi.
Utanríkisráðuneytið var lítt hrifið af kenningu Stefáns Einars þess efnis að flóttamannahjálp Palestínu renni til hernaðar Hamas-samtakanna. Hafnaði utanríkisráðuneytið alfarið kenningu hans um það að fjárframlög Íslands til flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna gagnvart Palestínu séu notuð til þess að fjármagna hryðjuverkastarfsemi Hamas.
„Fjármagnið sem góða fólkið á Íslandi lætur af hendi rakna frá öðrum, svo það geti sjálft sofið betur og hossað sér. Það er alltaf þægilegra að gera það á annarra kostnað, fremur en sinn eigin,“ sagði Stefán Einar á sínum tíma á Facebook-síðu sinni. Gekk hann enn lengra í annarri færslu; þá deildi hann frétt mbl.is þess efnis að Hamas-liðar væru grunaðir um að hafa undirbúið árásir í Evrópu og varaði hann við áhrifum þess að hægja á aðgerðum til að uppræta Hamas-liða á Gasasvæðinu.
„Næst koma þeir á eftir okkur. Og eina vonin er sú að hægt sé að eyða þeim af yfirborði jarðar. Takist það ekki munu saklausir borgarar í Evrópu, jafnvel á Íslandi, liggja í valnum.“
Stefán Einar var spurður um heimildir fyrir því að fjármögnunin sé með þeim hætti er hann fullyrti um. Svaraði hann með því að birta vefslóð á síðu Sjálfstæðisflokksins; þar sem tilkynnt var um að Ísland hafi tvöfaldað framlag sitt til mannúðaraðstoðar á Gasa. Má af þessu svari skilja að Stefán telji fé sem lagt er til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fari beint í að fjármagna starfsemi Hamas-samtakanna.
Hann lagði orð í belg um málefni Ísraels og Palestínu undir Facebook-færslu Karenar Kjartansdóttur almannatengils - lýsti hann áhyggjum sínum af mótmælum almennings gegn viðskiptum íslenskra fyrirtækja við ísraelska færsluhirðafélagið Rapyd, en forstjóri og eigandi félagsins hefur opinberlega hvatt til útrýmingar allra Hamas-liða, eins og Stefán Einar hefur gert.
„Hvar halda blábjánarnir að þetta endi?“ spurði Stefán Einar í tengslum við sniðgöngu á ísraelska félaginu Rapyd: „Þetta er orðið gjörsamlega geðtrufluð slaufunarmenning.“
Ljóst er að „kenningarnar“ í yfirlýsingum Stefáns hafa komið áður fram; stofnanir eins og UNRWA hafa verið sakaðir um að styðja við hernað Palestínumanna um langt skeið - með beinum eða óbeinum hætti. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna gagnvart Palestínu hefur gefið út yfirlýsingu þar sem slíkum ásökunum er algjörlega hafnað; þær sagðar órökstuddar. Þá kallaði stofnunin eftir því að blaðamenn, líkt og Stefán Einar, er birt hafa slíkar fullyrðingar, færi rök fyrir sínu máli eða dragi til baka ásakanirnar. Það hefur Stefán Einar ekki gert. Ekki enn í það minnsta.
Landspítalinn og andúð á innflytjendum
Stefán Einar Stefánsson fór mikinn í viðtali um innflytjendamál nýverið og ræddi ansi frjálslega um meinta framgöngu múslima í íslensku samfélagi: Hélt því beinlínis fram að á fæðingardeild Landspítalans væri „standandi vandamál“ vegna kvenfyrirlitningar sem og miklum yfirgangi frá hópi karlmanna.
„Gríðarlega ljót framkoma gagnvart starfsfólki og mjög ljót framkoma gagnvart konunum með nýfædd börn, vegna þess að þetta eru hópar manna sem fyrirlíta konur,“ sagði Stefán Einar meðal annars.
Fjallað var um frásagnir Stefáns Einars af fæðingardeildinni í fjölmiðlum.
„Þetta er veruleikinn, en heilbrigðisstarfsfólkið myndi aldrei mæta í svona viðtal og ræða opinskátt um það. Það ætlar ekki að lenda í þessum hnífamönnum eða þessum yfirgangsseggjum, sem telja að þeir geta komið hér eins og fínir menn og vaðið yfir samfélagið á skítugum skónum.“
Hann sagði einnig um þetta mál er varðar spítala og innflytjendur.
„Það ríkir þöggunarmenning innan spítalans um þetta mál. Og þetta er af sama toga. Ég hef líka rætt við lækna og hjúkrunarfræðinga sem koma að bráðamóttökunni og fleiri deildum spítalans sem lýsa gríðarlegu álagi af völdum innflytjendastraumsins, hælisleitendastraumsins.“
Það var enginn sem steig fram og tók undir með Stefáni Einari af starfsfólki spítalans og var heilbrigðisstarfsfólki hreinlega brugðið við þessi orð Stefáns Einars:
„Þessi ummæli komu starfsfólki kvennadeildar sem ég hef rætt við í opna skjöldu. Þau kannast ekki við þessar lýsingar. Afar sjaldgæft er að aðstandendur sýni hegðun sem telja má ógnandi og ekki hefur verið tekið eftir aukningu á slíkum tilvikum,“ sagði Hulda Hjartardóttir, sem er yfirlæknir á fæðingardeild Landspítalans, en hún og fleiri úr heilbrigðisstétt kannast einfaldlega ekki við það sem kom fram í máli Stefáns Einars um innflytjendur og það er hreinlega ekkert sem fram hefur komið sem rökstyður orð Stefáns Einars um karlkyns innflytjendur á íslenskum spítölum sem eru vondir við konur með nýfædd börn.
Stefán Einar hefur tjáð sig um meint kynþáttahatur múslima gegn hvítum Íslendingum og hefur tekið fyrir dæmi, bæði í Breiðholtsskóla og á Kvennadeild Landspítalans. En það vantar yfirleitt rökstuðning og heimildir í orðræðu Stefáns Einars um innflytjendur.
Hann gagnrýndi nýverið Reykjavíkurborg fyrir að hafa dregið fána Palestínu að húni fyrir utan ráðhúsið - en það var gert til að sýna samstöðu með íbúum Palestínu. Sagði hann að fáninn sé fáni ríkis er lýtur stjórn hryðjuverkasamtaka og hóps manna er hafa það að markmiði að láta óvini sína drepa sem flesta af þeirra eigin þjóð. Í kjölfarið - einhverra hluta vegna - beindi Stefán Einar orðum sínum sérstaklega að Alexöndru Briem borgarfulltrúa.
„Þarna sést meðal annarra Alexandea Briem á myndinni. Hún er kynskiptingur.“
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og fyrrum formaður Trans Ísland, hefur sagt opinberlega að slíkt sé röng orðanotkun og ýti undir fordóma. Og enn er ekki vitað hvers vegna Stefán Einar beindi orðum sínum að borgarfulltrúanum Alexöndru í þessu samhengi.
En Stefán Einar hélt áfram í málflutningi sínum um flöggun palestínska fánans við ráðhúsið og var hvergi banginn.
„Þeir myrða það fólk köldu blóði. Einnig samkynhneigða og jafnvel konur sem grunaðar eru um framhjálhald eða lauslæti. Óvinaþjóðin sem hún hatar eru Ísraelar. Í Tel Aviv er eitt frjálslyndasta og stórkostlegasta lýðræðissamfélag sem heimurinn hefur kynnst. Hún [Alexandra Briem, innskot blm] óskar þess að Hamas-dauðasveitirnar hafi sigur á því samfélagi!“
Að þessu sögðu er óhætt að segja að Stefán Einar sé maður sem er til í að láta í sér heyra og forðast ekki átök. En það sem er að miklu leyti einkennandi fyrir Stefán Einar þegar á heildina er litið er það að maðurinn er alltaf umdeildur og alltaf áhugaverður - sama hvaða sjónarhorn er notað.
Komment