Mikil slysahætta getur skapast þegar ekið er með of háan farm undir vegbrúna, sem nú er í smíðum yfir Breiðholtsbraut, en síðast í fyrradag var ekið á hæðarvarnarbúnað við brúna.
„Ef farmur er það hár að hann rekst í sjálfan undirslátt brúarinnar skapast hrunhætta vegna byggingarbúnaðarins. Þarna eru tugir stálbita sem hver vegur á annað tonn. Falli þeir niður, ásamt öðrum búnaði á ökutæki úr um 5 metra hæð getur orðið veruleg hætta á stórslysi, bæði fyrir vegfarendur og þá sem vinna við brúarsmíðina,“ segir Höskuldur Tryggvason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni segir hann í tilkynningu um málið.
Til að vekja athygi vegfarenda á hæðartakmörkunum vegna framkvæmdanna eru hæðarslár sitthvoru megin til að varna því að ökutæki rekist í brúna. Þá hafa einnig hafa verið sett upp ljós og upplýsingaskilti. Settur hefur verið upp sjálfvirkur aðvörunarbúnaður, sambærilegur þeim sem notaður er víða við jarðgöng, þar sem rauð blikkandi ljós virkjast ef ekið er á hæðarslá og ber ökumönnum að stöðva undir eins.
„Það hefur þó ekki dugað til og því biðlum við til ökumanna og fyrirtækja að kynna sér farmhæð vel áður en ekið er á svæðið. Ef farmur er of hár þarf skilyrðislaust að sækja um undanþágu til Samgöngustofu,“ segir Höskuldur.
Samkvæmt Vegagerðinni mun brúarsmíðinni ljúka snemma á næsta ári.


Komment