
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, lætur Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega finna fyrir því í Facebook-færslu í kjölfar ummæla hans um formann landsstjórnar Grænlands. Þar segir hún algjörlega galið að forseti sem hafi haft áform um að taka yfir Grænland í meira en ár viti ekki einu sinni hver leiðtogi landsins sé.
„Ég er náttúrulega löngu hætt að vera hissa á því hvað þetta sé hrikalegur og vitlaus maður. En það er alveg galið að vera búinn að vera með það á heilanum í meira en ár að taka yfir Grænland, með öllum ráðum og hvað sem Grænlendingum sýnist, og vita ekki einu sinni hver er formaður Landsstjórnar Grænlands,“ skrifar Alexandra og bætir við að slíkar upplýsingar ættu að vera sjálfsagðar: „Myndi það ekki hljóta að vera í fyrsta upplýsingapakkanum sem maður skoðaði við að pæla í þessu? Eða amk. vera reglulega nefnt þegar verið væri að skoða sviðsmyndir eða velta upp möguleikum?“
Hún segir þetta lýsandi fyrir vinnubrögð Trump og hvernig hann nálgist ákvarðanatöku. „Staðreyndin er náttúrulega að hann skoðar hvorki upplýsingapakka né pælir í sviðsmyndum eða hlustar á kynningar eða ræðir hlutina á dýptina. Hann segir bara hvaða vitleysu sem honum dettur í hug,“ skrifar hún.
Alexandra vitnar beint í nýleg ummæli Trump, sem féllu þegar hann var spurður út í yfirlýsingu Jens-Frederik Nielsens, formanns landsstjórnar Grænlands. Nielsen hafði sagt að ef velja þyrfti milli Bandaríkjanna og Danmerkur myndi Grænland ávallt standa með Danmörku.
„Trump forseti var svo spurður að því í nótt hvað honum fyndist um nýjustu yfirlýsingu Jens-Frederik Nielsens, formanns grænlensku landsstjórnarinnar. Nielsen lýsti því yfir að ef valið þyrfti að standa á milli Bandaríkjanna og Danmerkur yrði Danmörk ávallt fyrir valinu,“ skrifar Alexandra áður en hún birtir orð forsetans orðrétt:
„Það er hans vandamál. Ég er ósammála honum. Ég veit ekki hver hann er og ég veit ekkert um hann. En þessi afstaða verður stórt vandamál fyrir hann,“ sagði Bandaríkjaforseti í gær, spurður út í ummæli Nielsens.
Að mati Alexöndru undirstrika þessi orð alvarleika málsins og þá ábyrgðarleysi sem hún segir einkenna forseta Bandaríkjanna þegar kemur að alþjóðamálum og samskiptum við önnur ríki.

Komment