
Feðgarnir sem skutu á fólk á Bondi-ströndinni í Ástralíu í gær, eru sagðir bera ábyrgð á dauða 16 manns og hafa sært tugir annarra í einni mannskæðustu árás í sögu Ástralíu.
Naveed Akram, 24 ára, var handtekinn á hinni frægu strönd í Sydney í Nýja Suður-Wales og fluttur á nærliggjandi sjúkrahús þar sem hann hlaut meðferð vegna lífshættulegra áverka. Faðir hans, Sajid Akram, 50 ára, var skotinn til bana af lögreglu í ringulreiðinni á sunnudag.
Hryðjuverkaárásin átti sér stað þegar gyðingar komu saman við ströndina til að fagna upphafi Hanukkah. Naveed var að sögn þekktur hjá lögreglu í Nýja Suður-Wales og Sajid er sagður hafa átt sex skotvopn sem voru löglega skráð á hann.
Naveed, sem starfaði sem múrari, er sagður hafa hafið skothríð á hundruð strandgesta sem voru að halda Hanukkah-hátíð á sunnudag. Samkvæmt ABC hafði hann áður verið til rannsóknar vegna meintra tengsla við hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki.
Yfirvöld rannsaka nú hvort hann hafi svarið samtökunum hollustu og Telegraph greinir frá því að ástralska leyniþjónustan hafi rannsakað hann í sex mánuði árið 2019.
Forsætisráðherra Ástralíu, Anthony Albanese, sagði:
„[Naveed Akram] var rannsakaður vegna tengsla við aðra og niðurstaðan var sú að engar vísbendingar væru um áframhaldandi ógn eða að hann hygðist beita ofbeldi.“
Naveed er sagður ástralskur ríkisborgari, fæddur í landinu, og hafði stundað hnefaleika. Hann hafði að sögn sagt vinnuveitanda sínum að hann gæti ekki snúið aftur til vinnu fyrr en á næsta ári eftir að hafa brotið úlnlið í hnefaleikum.
Kennari hans í íslömskum fræðum fordæmdi árásina opinberlega. Sheikh Adam Ismail í Sydney hafði áður verið myndaður þar sem hann afhenti Naveed skírteini sem sýndi að hann hefði lokið námi í Kóraninum.
Naveed er sagður hafa verið annar skotmannanna, klæddur í svart og með nokkur skotvopn í höndunum. Hann er nú á sjúkrahúsi eftir að hafa hlotið alvarlega áverka í árásinni, eins og áður segir.
Sajid Akram var skotinn til bana af lögreglu í árásinni. Hann hafði leyfi fyrir skotvopnum í flokki AB og átti sex löglega skráð vopn. Talið er að hann hafi notað bæði riffil og haglabyssu sem fundust á vettvangi.
Slíkt leyfi krefst þess að viðkomandi sýni fram á „sérstaka þörf“ fyrir að eiga tiltekin vopn.
Sajid Akram er sagður hafa komið til Ástralíu á námsmannavegabréfsáritun árið 1998. Síðar breytti hann henni í makaáritun og hefur síðan verið á endurnýjuðum búsetuáritunum.
Fjölskyldan bjó í úthverfi Sydney og nágranni lýsti áfalli sínu yfir því að hafa búið við hlið manns sem síðar reyndist morðingi.
Lemanatua Fatu sagði við Daily Mail:
„Við sáum fjölda lögreglubíla koma í götuna og sérstaklega að þessu húsi. Við gátum ekki sofið og fylgdumst með öllu, þetta var ógnvekjandi.“
Hetjudáð Ahmeds
Ótrúleg hetjudáð átti sér stað í skotárásinni þegar ávaxtasali að nafni Ahmed Al Ahmed lagði líf sitt í hættu til að bjarga öðrum. Myndband sýnir augnablikið þegar hinn 43 ára gamli maður leitaði skjóls bak við bíl á meðan skotmaðurinn hélt áfram að skjóta.
Ahmed hljóp síðan að skotmanninum, glímdi við hann og náði vopninu af honum, sem hann beindi síðan að árásarmanninum. Skotmaðurinn hörfaði í kjölfarið.
Ahmed var hylltur sem hetja fyrir að hafa bjargað mannslífum með því að afvopna skotmanninn. Síðar kom í ljós að hinn 43 ára gamli ávaxtaverslunareigandi, sem flutti til Ástralíu frá Sýrlandi árið 2006, hafði sjálfur særst í árásinni og var á sjúkrahúsi.
Fórnarlömbin
Að minnsta kosti 16 manns voru skotnir til bana og um 40 særðust þegar skotmennirnir hófu skotárá á Bondi-ströndinni. Fórnarlömbin eru á aldrinum 10 til 87 ára, að sögn lögreglu.
Fjölskylda staðfesti að 10 ára stúlka, Matilda, væri meðal látinna og þar með yngsta fórnarlambið. Irina Goodhew, sem skipulagði söfnun fyrir fjölskyldu hennar, lýsti henni sem „björtu, glaðlyndu og lífsglöðu barni sem lýsti upp líf allra í kringum sig“.
Rabbíinn Eli Schlanger, 41 árs, var skipuleggjandi Hanukkah-viðburðarins. Fjölskylda hans lýsti honum sem „ótrúlegum manni“. Hann var breskur ríkisborgari og faðir fimm barna.
Utanríkisráðherra Frakklands staðfesti að Dan Elkayam væri meðal fórnarlambanna. Hann starfaði fyrir NBCUniversal og flutti til Ástralíu á síðasta ári.
Eftirlifandi helfararinnar, Alexander Kleytman, upphaflega frá Úkraínu, lést einnig í árásinni og lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn og ellefu barnabörn.
Ljósmyndarinn Peter Meagher, sem starfaði sjálfstætt, var staðfestur meðal látinna af ruðningsklúbbi hans. Athafnamaðurinn Reuven Morrison, sem áður bjó í Melbourne, er sagður hafa „uppgötvað gyðingaarf sinn í Sydney“, samkvæmt BBC. Hann lést einnig í árásinni.
Rabbíinn Yaakov Levitan var aukreitis myrtur í árásinni en hann var lofaður sem „vinsælum skipuleggjanda“ sem einnig starfaði við fræðasetur gyðinga. Þá var Tibor Weitzen minnst sem afa sem var „fullur lífs, gleði, bros og hláturs“.
Forseti Slóvakíu greindi frá því að eitt fórnarlambanna væri slóvakísk kona að nafni Marika. Peter Pellegrini skrifaði á X:
„Strax í gær fordæmdi ég afdráttarlaust þessa hrottalegu og banvænu árás á saklaust fólk á Hanukkah-hátíðinni á Bondi-ströndinni í Ástralíu og lýsti yfir samstöðu minni með þjóð í sorg og losti. Í dag hefur þessi sorg einnig náð til Slóvakíu, meðal fórnarlamba þessa tilgangslausa ofbeldis var slóvakísk kona, Marika.“
Ísraelska utanríkisráðuneytið staðfesti einnig að ónafngreindur ísraelskur ríkisborgari væri meðal látinna.
Talið er að um 42 fórnarlömb hafi verið flutt á sjúkrahús. Fimm eru enn í meðferð og fimm þeirra í lífshættu.
Meðal særðra er Arsen Ostrovsky, yfirmaður skrifstofu Australia Israel & Jewish Affairs Council í Sydney og alþjóðlegur mannréttindalögfræðingur.

Komment