
Eftir 18 ára hlé mun íslenska hljómsveitin AMPOP stíga á svið aftur, en síðast komu hún fram á Iceland Airwaves árið 2007. Þetta verður því einstakt tækifæri fyrir tónlistaráhugafólk að sjá hljómsveitina saman á sviði.
Jón Geir Jóhannson, trommuleikari sveitarinnar, fagnar á sama tíma fimmtugsafmæli sínu en hann hefur rækilega stimplað sig inn í íslenska tónlistarsögu og túrað um heiminn bæði með AMPOP og Skálmöld. Hann hefur spilað í öllum hugsanlegum tónlistarrýmum, allt frá dimmum rokkklúbbum til stórra ballstaða, og einnig með hljómsveitum eins og Atarna, Bris, Klamedíu X og Urmull.
AMPOP sló rækilega í gegn á sínum tíma, meðal annars með laginu My Delusions, og hljómsveitin hefur nú æft upp nýtt prógramm fyrir tónleikana. „Við getum ekki beðið eftir að koma fram saman aftur,“ segja liðsmeðlimir.
Tónleikarnir verða haldnir í Austurbæjarbíói á föstudagskvöld, 14. nóvember klukkan 20:00 og má búast við fjölbreyttum stórtónleikum. Miðaverð er 3.000 krónur og rennur allur ágóði til Vonarbrúar, almannaheillafélags sem aðstoðar fjölskyldur á Gaza.
Auk AMPOP koma fram Skálmöld, Atarna, Bris, Klamedía X og Urmull.
Miðasala er á: https://stubb.is/events/nL8wqn

Komment