
Eftir mörg ár af hneykslismálum og vangaveltum tók það aðeins eina helgi fyrir hið konunglega líf Andrésar prins hrynja til grunna.
Andrés afsalaði sér titli sínum sem hertogi af Jórvík og öðrum heiðursmerkjum á föstudagskvöld eftir samráð við konunginn og prinsinn af Wales, í þeirri von að binda endi á margra ára hneyksli.
Nýjar uppljóstranir í bók Guiffre
Ákvörðunin kom í kjölfar þess að bók Virginia Giuffre, sem sakaði Andrés um kynferðisbrot þegar hún var aðeisn 17 ára, er væntanleg í bókabúðir á morgun. Bókin mun að sögn varpa nýju ljósi á ásakanir um kynferðisbrot og samband prinsins við barnaníðinginn Jeffrey Epstein. Andrés hefur alltaf neitað öllum ásökunum.
Prinsinn sagði ákvörðunina um að hætta notkun titla sinna hafa verið vegna „stöðugra ásakana gegn sér“. Hann hafði þegar dregið sig í hlé frá opinberu lífi árið 2019, en sagðist nú vilja ganga enn lengra og hætta alfarið að nota titla sína, þar á meðal hertogatitilinn.
Konungurinn sagði Andrés bróður sínum, í tíu mínútna símtali, að líf hans sem fulltrúi bresku konungsfjölskyldunnar væri lokið. Heimildir innan konungsfjölskyldunnar sögðu að Karl konungur væri orðinn „þreyttur og ævareiður“ á stöðugum hneykslismálum sem plöguðu stofnunina og hafi sagt Andrési að nú yrði að grípa til róttækra aðgerða.
Samband prinsins og barnaníðingsins
Einn heimildarmaður innan fjölskyldunnar sagði: „Eftir náið samráð við fjölskyldu sína, og þá sérstaklega við Vilhjálm prins, kallaði konungurinn Andrés til sín og sagði honum að gera það rétta. Honum var sagt að það væri óhugsandi að hann héldi áfram að njóta forréttindastöðu sinnar.“
Hræðilegar lýsingar í bók Giuffre
Í ævisögu sem Giuffre skildi eftir sig segir hún að hún hafi misst barn aðeins nokkrum dögum eftir að hafa tekið þátt í hópkynlífi með Andrési og átta öðrum stúlkum. Giuffre, sem svipti sig lífi í apríl 41 árs að aldri, skrifar að hún hafi misst fóstrið fjórum dögum eftir þátttöku í „orgíu“ með prinsinum og „átta öðrum stúlkum“.
Giuffre sagði að stúlkurnar sem þar hefðu verið viðstaddar hafi ekki talað ensku og að atvikið hafi átt sér stað á „Little Saint Jeff’s“, gælunafni fyrir einkaeyju Epstein, Little St James.
Hún lýsir því að hún hafi verið „í afar slæmu ástandi“ eftir meint atvikið og vaknað í „blóðpolli“. Hún segir engan þeirra manna sem hún var seld til hafa notað smokka, þó engar sannanir séu fyrir því að Andrés hafi verið faðir ófædds barnsins.
Lögreglan skoðar meinta njósnastarfsemi prinsins
Nú er breska lögreglan, Metropolitan Police, sögð nú „skoða gaumgæfilega“ ásakanir þess efnis að Andrés hafi beðið lífvörð sinn, sem var á launum hjá bresku ríkinu, að afla upplýsinga um Giuffre, þar á meðal fæðingardag hennar og kennitölu í Bandaríkjunum. Ef þetta reynist rétt gæti Andrés orðið fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem sætir lögreglurannsókn í yfir tvo áratugi.
Spurningar sem Andrés þarf að svara
Reyndi hann að hefja rógburðarherferð gegn Guiffre?
Samkvæmt fregnum reyndi Andrés að fá lögregluna til að hefja rógburðarherferð gegn Giuffre. Hann á að hafa beðið lífvörð sin úr Royalty Protection Group að kanna bakgrunn hennar og afhent honum fæðingardag og kennitölu hennar. Líklegt er að lífvörðurinn hafi hafnað beiðninni.
Tölvupóstur sem The Mail on Sunday fékk í hendur sýnir Andrew skrifa:
„Það virðist sem hún hafi sakaskrá í Bandaríkjunum. Ég hef gefið upp fæðingardag hennar og kennitölu til rannsóknar hjá XXX, viðstaddri lífverðinum.“
Ed Miliband, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði í viðtali að slíkt væri „alls ekki eins og konunglegir lífverðir eiga að vera notaðir“ og að málið þyrfti að rannsaka. Fjölskylda Giuffre hefur ítrekað sagt að hún hafi aldrei haft sakaskrá.
Fyrrverandi yfirmaður öryggissveita konungsfjölskyldunnar, Dai Davies, sagði:
„Miðað við tölvupóstinn sem virðist vera raunverulegur, tel ég að nægar sannanir séu til að lögreglan rannsaki málið.“
Af hvaða toga var samband hans við Epstein?
Andrés hefur lengi þurft að svara fyrir vináttu sína við Epstein. Talið er að prinsinn hafi fyrst hitt Epstein árið 1999, í gegnum þáverandi kærustu Epsteins, Ghislaine Maxwell. Árið eftir, í júní 2000, voru Epstein og Maxwell meðal gesta í veislu í Windsor-kastala og Andrés hélt einnig afmælisveislu fyrir Maxwell í Sandringham, þar sem Epstein var viðstaddur.
Sambandið virtist halda áfram og Epstein sótti aðra veislu í Windsor kastala í júlí 2006, eftir það segist Andrés prins hafa slitið sambandi við Epstein þar til þeir hittust aftur í desember 2010.
Í millitíðinni, árið 2008, var Epstein sakfelldur í Bandaríkjunum fyrir að útvega ólögráða stúlku til vændis og dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Eftir að Epstein slapp úr fangelsi hitti Andrés prins hann í New York árið 2010. Andrew sagði að þessi fundur hafið verið boðaður til að binda enda á samband þeirra.
Í frægu viðtali við BBC Newsnight árið 2019 sagðist hann hafa slitið öll tengsl við Epstein eftir að þeir voru myndaðir saman í New York í desember 2010.
Síðar komu þó í ljós tölvupóstar frá febrúar 2011 þar sem Andrew virðist hafa haldið sambandi við Epstein. Í einu skeytinu stóð:
„Haltu áfram að hafa samband og við leikum okkur meira fljótlega! Við erum í þessu saman.“
Hvert var hlutverk Söruh Ferguson?
Andrés er ekki sá eini sem hefur verið gagnrýndur fyrir tengsl sín við Epstein, fyrrverandi eiginkona hans, Sarah Ferguson, hefur einnig verið dregin inn í málið. Samkvæmt tölvupóstum sem Daily Mail hefur undir höndum átti hún að hafa beðið Epstein um lán sem nam 50.000–100.000 dollurum „til að greiða smáreikninga“. Þá bað hún einnig um að fá að heimsækja hann á einkaeyju barnaníðingsins.
Epstein, sem var dæmdur fyrir barnaníð árið 2008, greiddi einnig skuldir sem Sarah skuldaði fyrrverandi starfsmanni. Talið er að hann hafi orðið reiður þegar hún greiddi ekki til baka eins og lofað hafði verið.
Að lokum þurfti Andrés sjálfur að greiða Giuffre 12 milljónir punda árið 2022 til að ljúka einkamáli sem hún höfðaði gegn honum í New York.
Ekki hefur verið upplýst hvaðan féð kom, en orðrómur hefur verið um að drottningin heitin hafi að hluta til greitt með tekjum úr eignasjóði sínum, Duchy of Lancaster.
Komment