
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur gert harðar athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu, sem kynnt var fyrir haustið 2025. Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn samtakanna.
ASÍ bendir á að fjárlagafrumvarpið geri ráð fyrir hagræðingaraðgerðum sem fela meðal annars í sér:
- Afnumið framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.
- Stytting bótatímabils atvinnuleysistrygginga um 12 mánuði og þrengri reglur um ávinnslu.
- Óbreytt fjárhæð barnabóta, sem leiðir til raunrýrnunar stuðnings við barnafjölskyldur.
- Óbreytt fjárhæð húsnæðis- og vaxtabóta, sem þýðir rýrnun stuðnings við húsaleigu og vaxtakostnað.
- Sérstakar aðhaldsráðstafanir upp á 3,8 milljarða króna í heilbrigðiskerfinu og aukin kostnaðarþátttaka sjúklinga.
- Lækkun á framlögum til framhaldsfræðslu og íslenskukennslu.
Í umsögninni er einnig varað við efnahagslegum afleiðingum og aukinni verðbólgu. ASÍ bendir á að verðbólga og raunvextir séu enn of háir, og að húsnæðismarkaður sé helsti drifkraftur verðbólgunnar. Stjórnvöld beri ábyrgð á að tryggja verðstöðugleika, bæði með opinberum fjármálum og því að kerfislægir þættir ýti ekki undir verðbólgu, meðal annars hækkanir á raforkuverði. Jafnframt gagnrýnir ASÍ sveitarfélög fyrir að standa ekki við gefin loforð um að halda gjaldskrárhækkunum í hófi.
Skattahækkanir og áhrif kílómetragjalds
ASÍ bendir á að lögfestar og ólögfestar skattbreytingar nemi 27,9 milljörðum króna árið 2026, þar sem þyngst vegi breyting á veiðigjöldum, kílómetragjald og heimild til samnýtingar skattþrepa. Samtökin hafa áður fjallað um kílómetragjaldið og vara við því að það gæti ýtt undir verðbólgu.
„Alþýðusambandið hefur að undanförnu fjallað um verðþróun á eldsneyti og bent á að styrking gengis krónunnar og hagfelldara heimsmarkaðsverð hafi ekki komið fram að fullu í lægra smásöluverði á eldsneyti,“ segir í umsögninni.
Atvinnuleysistryggingar og sparnaðartillögur
ASÍ gagnrýnir einnig breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og vantar fjármögnun til úrræða sem styðja virkni atvinnuleitenda. „Samhliða breytingunum er ekki áformað að auka fjármagn til vinnumarkaðsúrræða, er því um að ræða hreina sparnaðartillögu,“ segir í umsögn samtakanna.
Sjá má umsögn ASÍ í heild sinni hér.
Komment