
Á Rauðasandi eru íbúar ansi hreint kvíðnir vegna samgöngumála í vetur eftir að ferðir mjólkurbílsins leggjast af.
Segir bóndi á svæðinu að ef þangað kæmi þriggja fasa rafmagn sem og ljósleiðari væri hvergi betra að búa.
Ástþór Skúlason er bóndi á Melanesi og hann segir ferðir mjólkurbílsins hafa þýtt það að veginum hafi verið haldið opnum:
„Við höfum flotið á því hingað til að það hefur alltaf verið reynt að sækja hingað að minnsta kosti einu sinni í viku mjólk og þá hafa allir reynt að nota þann mokstur ef þeir hafa þurft að fara í búð eða sækja þjónustu.“
Kemur fram hjá RÚV að vegurinn um Skersfjall sé eigi mokaður með reglulegu bili á veturna; hafa íbúar haft samband við sveitarfélagið og óskað eftir mokstri þegar þörf hefur verið á.
Ástþór heldur sauðfé, rekur tjaldsvæði á Melanesi - en þar er hann fæddur og uppalinn.
Rauðasandur er um það bil 10 kílómetra löng strandlengja er einkennist af fallega lituðum rauðum sandi og getur liturinn verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur. En þetta fer allt eftir birtunni. Og sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum.
Melanes er einn þriggja bæja á Rauðasandi sem er í fastri búsetu; nánast allir íbúar eru þar fæddir og uppaldir og hafa hyggju að búa þarna áfram:
„Eru það ekki bara mannréttindi? Ég lít allavega svo á að það eigi að vera okkar ákvörðun hvort við búum hér eða ekki“ sagði Ástþór.
Landleiðin á Rauðasand er yfir erfiðan sem og hlykkjóttan fjallveg og þar snjóar mikið á veturna og öll þjónusta sveitarfélagsins, til dæmis sorphirða, takmarkast eðlilega af þessum samgöngum.
Rauðasandur er að verða afar vinsæll áfangastaður ferðalanga; veikir innviðir gera hins vegar íbúum afar erfitt fyrir:
„Það er reynt að sækja hingað til okkar á sumrin en um leið og komin er einhver snjór eða hálka hérna í dalinn, þá er ekki sótt,“ segir Ástþór og nefnir einnig að þá geti bændur nánast aldrei verið vissir um að komast til Patreksfjarðar að sækja sér nauðsynjar:
„Við gátum fengið mjólk á Lambavatni ef í harðbakkann sló en það er ekki hægt lengur. Nú þurfum við að eiga nóg í frystinum.“
Ástþór segir tækifæri þarna um slóðir fyrir ferðamennsku; en þá verði að efla innviði með öflugum hætti og bendir hann á að raforkuinnviðir séu ekki nógu öruggir til að mögulegt sé að reisa hleðslustöðvar fyrir bíla, svo dæmi sé nefnt; þá sé til fólk er hafi áhuga á að búa á Rauðasandi og vinna fjarvinnu en fjarskiptainnviðir standa alls ekki undir því:
„Búseta byggist orðið dálítið á þessari þjónustu, að hafa fjarskipti, ljósleiðara, þriggjafasa rafmagn og náttúrulega samgöngurnar. En ef við fáum einhverja úrbót á þessum vandræðum þá er hvergi annarsstaðar betra að vera.“
Komment